Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 16:43:03 (4267)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tek það ekkert aftur, þó að hæstv. sjútvrh. sé að eigna mínum flokksmönnum þennan fjárfestingarfyrirvara, að ég tel að hann muni ekki halda. Mér finnst ekki skynsamlegt að halda því fram. Menn verða auðvitað að haga sinni afstöðu eftir eigin skynsemi en ekki eftir því hverjir settu einhver lög sem eru í gildi.
    Eins og ég sagði fyrr er ég er á móti þessum samningi og ég tel að til þessa fyrirvara þyrfti ekki að koma. Það þyrfti ekki að reyna á hann með þeim hætti sem mun gerast ef EES-samningurinn verður að lögum.
    Þegar ég lýsti því hvernig það væri að komast inn á markaðina sem hér er verið að bjóða fólki upp á og er lýst með mörgum, fögrum orðum, var ég að lýsa því hvernig iðnaðurinn stæði að vígi til þess

að komast inn á þessa markaði. Ég tek það ekki heldur aftur að ég tel að aðeins örfá mjög stór fyrirtæki geti gert þá hluti. Sjávarútvegurinn hefur getað gert svona lagað einfaldlega vegna þess að hann hefur út á við fram að þessu virkað sem mjög stór aðili. Hann hefur með samstarfi fyrirtækja í sjávarútvegi tekist að komast inn á markaði með mjög öflugum hætti. Vonandi mun takast að gera það áfram.
    Ég held ekki að það sé hægt að alhæfa um hlutina með þeim hætti sem hæstv. sjútvrh. var að gera að sjávarútvegurinn muni hrökklast af þessum mörkuðum ef þessi samningur verður ekki að veruleika. Ég tel að markaðirnir þurfi á okkar sjávarafurðum að halda og muni þess vegna halda áfram að kaupa íslenskar sjávarafurðir. Hins vegar má búast við því að samkeppnin verði erfiðari.