Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 16:45:29 (4268)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. þm. er nú að komast í hring í málatilbúnaði sínum. Í fyrri ræðunni lýsti hann því yfir að hann reiknaði með því að fyrirtæki í sjávarútvegi þyrftu að flytja sig yfir á aðra markaði ef við gerðumst ekki aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Nú í andsvarinu telur hann að það séu nú ekki miklar líkur á því. Hér er því hv. þm. kominn á býsna mikið undanhald. En eftir stendur að hann viðurkennir þann mikla kostnað sem af því hlýtur að hljótast að fyrirtækin þurfi að hasla sér völl á nýjum mörkuðum. Afstaða hans gegn þessum samningi felur í sér að hann vill að sjávarútvegsfyrirtækin í landinu þurfi að takast á við þann kostnað. Að öðru leyti viðurkenndi hv. þm. að umræðan hér í dag hefði fyrst og fremst snúist um innbyrðis átök milli stjórnarandstöðuflokkanna og nú eftir ræðu hans innbyrðis átök milli þingmanna Alþb. sjálfs vegna fyrri ákvarðana Alþb. í þessum efnum.