Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 16:46:33 (4269)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er bara gaman að því hvernig hæstv. sjútvrh. tekur á þessum málum. Hann segir að ég hafi farið í hring. Ég sagði það og endurtek það --- ég tel að hann hafi ekki hlustað nægilega vel á það sem ég var að segja --- að að hluta til gætu íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þurft að flytja sig yfir á aðra markaði. Þau verða þá að taka því ef þannig fer vegna þess sem búið er að gera. Menn geta ekki barið höfðinu við steininn. Ég tel aftur á móti að það þjóni litlum tilgangi að rífast við hæstv. ráðherra um það sem honum finnst um þær umræður sem hafa farið hér fram. Ég hef ekki tekið þátt í því að vera neitt sérstaklega að reyna að hengja upp á eyrunum þá sem ætla að sitja hjá í þessari atkvæðagreiðslu, taldi satt að segja að varla væri tími til þess og nenni því ekki mikið. En það er auðvitað mjög merkilegt hvaða afstöðu menn hafa tekið í Framsfl. og erfitt fyrir þann flokk að standa í þeim umræðum sem hér eru.