Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 13:01:02 (4277)

     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt í þeim stutta tíma sem ætlaður er til andsvara að fjalla um jafnflókið og ítarlegt mál og kostnaðarhlið þessa samnings og þá síst af öllu að fara að rekja í smáatriðum hverju hefur nú þegar verið kostað til. Eða dettur einhverjum í hug að hæstv. utanrrh. hafi sagt allan sannleikann í þeim efnum hér áðan og ekkert undan skilið?
    Ég er hræddur um að sá listi yrði býsna miklu lengri en var rakið hér áðan sem hæstv. utanrrh. hefur kostað til við gerð og kynningu þessa samnings. Ég stend við það að hæstv. utanrrh. hefur mjög vantalið kostnaðarhliðina. Ég nefndi engar tilteknar tölur. Ég sló á það að þarna væri um hundruð millj. að ræða og ætla mér að standa við það. Ég er t.d. alveg sannfærður um að um verður að ræða talsverða fjölgun í sendiráðum erlendis. Ég get ekki nefnt það neitt nákvæmlega hver kostnaðurinn verður en hann verður talsvert mikill. Og ég er sannfærður um að þær tölur sem hæstv. utanrrh. hefur nú þegar sýnt og sýndi við undirbúning fjárlaga eru ekki nema örlítið brot af hinum raunverulega kostnaði sem hann á eftir að kosta til í sambandi við framkvæmd á þessum samningi. Ég held að hann hefði frekar átt að svara því hér áðan, af því að hann var spurður um það, og ég ítreka því spurninguna: Hefur hann ráðið menn til starfa vegna Evrópska efnahagssvæðisins? Ef svo er, með hvaða heimildum var það gert?