Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 13:03:22 (4278)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það fór auðvitað ekki fram hjá neinum að hv. þm. gat ekki staðið við þær órökstuddu fullyrðingar sem hann fór með í ræðu sinni áðan um þennan kostnað. Tölur hafa verið birtar hvað eftir annað, bæði á hv. Alþingi sem svar við fyrirspurnum sem og í nefndum um það hver þessi kostnaður hefur verið og áætlanir birtar um það hver hann muni vera, svo að nefnt sé eitt dæmi.
    Um fjölgun í sendiráðum Íslands vegna þessa sem nemi 100 millj. kr. er þetta að segja: Fjölgun í sendiráðum Íslands vegna þessa mikla starfs á undanförnum þremur árum, sem hefur auðvitað verið í hámarki, er einn starfsmaður sem var fulltrúi fjmrn., tollasérfræðingur, sem hafði aðstöðu í sendiráðinu í Brussel. Reyndar hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort það verður með varanlegum hætti. Áform eru uppi af hálfu menntmrn., iðnrn. og viðskrn. um að koma upp einum fulltrúa, annaðhvort sitt í hvoru lagi eða sameiginlega. Þetta eru þau áform sem uppi hafa verið um það efni.