Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 13:04:37 (4279)

     Ragnar Arnalds (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Er ekki eftirtektarvert að hæstv. ráðherra skuli í þriðja sinn víkja sér undan að svara spurningunni um það hvort hann hafi ráðið starfsmenn sérstaklega vegna Evrópska efnahagssvæðisins og með hvaða heimildum það er gert? Ég hef spurt hann þrisvar að þessu og hann hefur þrisvar haft tækifæri til að svara en vikið sér undan því.
    Ég vil svo ítreka að auðvitað er það mergurinn málsins, sem ég vék að í ræðu minni, að upplýsingar frá hæstv. utanrrh. og ráðuneyti hans um þetta mál hafa verið mjög einhliða. Einungis kostirnir við aðild að bandalaginu hafa verið raktir en ókostunum hefur verið sleppt. Sömu sögu er að segja um framsetningu sjónvarpsins. Ég tel þetta hneyksli. Ég tel ekki sanngjarnt að utanrrn. verji mörgum milljónum til að kynna ákveðinn málstað á mjög einhliða hátt og verji til þess fé skattborgaranna en það megi aldrei eyða einni einustu krónu til þess að útskýra ágallana við þennan samning. Ég tel það reyndar líka hneyksli hvernig sjónvarpið hefur haldið á þessu máli, að koma með fjöldamarga þætti um málið án þess að nokkurn tíma sé vikið að einum einasta ágalla málsins.