Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 13:10:25 (4282)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. sá sem hér talaði, hafði stór orð. Ég vísa þeim algjörlega á bug sem ósönnum, ómaklegum og órökstuddum. Ég hef engar fullyrðingar látið frá mér fara um það hvenær ríkjaráðstefna yrði haldin. Hitt er rétt að ég vitnaði í staðfest fréttaskeyti í ummæli Uffe Ellemann-Jensens sem var þá að taka við formennsku í Evrópubandalaginu um það að af hálfu Dana væri að því stefnt að hafa ríkjaráðstefnu hið fyrsta, jafnvel í janúar, eins og hann orðaði það. Staða málsins er hins vegar þessi og það verður að koma fram af þessu tilefni.
    Núna þann 8. jan. munu lagasérfræðingar EFTA koma saman út af málinu, þ.e. frágangi á viðbótarbókuninni sem málið snýst um. Þann 12. jan. mun formennskuland EFTA, utanríkis- og viðskiptaráðherra Svíþjóðar, eiga fund með Delors. Þann 14. jan. eru ráðgerðir fundir, í fyrsta lagi samningamanna beggja aðila til þess að freista þess að undirbúa endanlegan texta til framkvæmdastjórnarinnar, en ráðherraráðið á sínum tíma fól framkvæmdastjórninni að undirbúa málið. Aðrir fundir sem áformaðir hafa verið síðan, eru þann 15. jan. þegar Svíar hitta aftur formennskulandið í Kaupmannahöfn og því næst svokallaður COREPER-fundur eða fundur fastafulltrúa bandalagsins sem á að reyna að ganga endanlega frá niðurstöðu málsins fyrir ráðherraráðsfund í febrúar.

    Ef menn vilja leggja eitthvað út af þessum upplýsingum þá er þetta að segja:
    Sú fullyrðing hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að staða málsins að því er Ísland varðaði stæði eða félli með einhverri dagsetningu á ríkjaráðstefnu er alröng. Spurningin er einfaldlega þessi: Hvenær þurfa Íslendingar, þ.e. Alþingi Íslendinga, að hafa afgreitt málið til þess að unnt sé að ganga með tryggum og öruggum hætti frá efni og formi þessarar viðbótarbókunar? Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef bestar þá þurfa þau svör að liggja ljós fyrir, ekki seinna en fyrir þennan fund þann 14. janúar.
    Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef bestar samkvæmt samráði sem við höfum nú haft við formennskuland EFTA, Svíþjóð, og samráði við báða aðila.