Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 14:15:11 (4291)

     Stefán Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Mikil umræða hefur farið fram um þann þátt samningsins um Evrópskt efnahagssvæði sem lýtur að því hvort samningurinn brjóti í bága við stjórnarskrá lýðveldisins sem við alþingismenn höfum lagt eið að að halda og virða. Eins og komið hefur fram í umræðunni skipaði utanrrh. fjóra lögfræðinga, þá Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómara, Gunnar G. Schram prófessor, Stefán Má Stefánsson prófessor og Ólaf Walther Stefánsson skrifstofustjóra til að gefa álit á þessum þætti málsins. Þeir skiluðu ítarlegu áliti, á margan hátt mjög merkilegu. Þessir sérfræðingar staðfesta að um framsal á valdi sé að ræða en telja stjórnarskrána ekki koma í veg fyrir það, enda sé umrætt vald vel afmarkað á takmörkuðu sviði og ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila. Þetta er merkileg niðurstaða, sett fram af lögfræðingum, og það að maður hefði álitið virtum lögfræðingum.
    Þeir segja einnig: ,,Þá bendum við á að síðar megi eða beri að gera stjórnarskrárbreytingu ef fram

kemur að forsendur okkar standist ekki.`` Hér er vægast sagt mjög einkennilega tekið til orða og niðurstaðan dálítið sérstæð.
    Dr. Guðmundur Alfreðsson þjóðréttarfræðingur og Björn Þ. Guðmundsson, prófessor í stjórnsýslurétti, skiluðu inn stórgóðri greinargerð þar sem þeir komust að þeirri niðurstöðu að stjórnarskráin heimilaði ekki það framsal valds sem um er að ræða í samningi um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er mjög fróðlegt að kynna sér betur niðurstöður og athuganir prófessors Björns Þ. Guðmundssonar og ætla ég aðeins að víkja að þeim nokkrum orðum, virðulegi forseti, en þar kemur m.a. þetta fram í áliti Björns Þ. Guðmundssonar:
    ,,Lögfræðilegt mat í þessum efnum er erfiðara fyrir þá sök að um er að ræða lögfestingu þjóðréttarsamnings en ekki venjulegs lagatexta. Það leiðir af eðli máls að ákvæði þjóðréttarsamninga byggjast að lokum á flóknu samkomulagi um orðalag og merkingu. Afleiðing þess verður að textinn er oft svo loðinn að erfiðara er að gefa honum nákvæmlega lögfræðilega merkingu en þegar um venjulegan lagatexta er að ræða. Þess vegna gerir t.d. fjórmenninganefndin margháttaða fyrirvara af sinni hálfu þrátt fyrir þá lokaniðurstöðu sem hún lætur frá sér fara.
    Ef litið er á stjórnarskrárviljann einan, þ.e. það sem vakti fyrir Íslendingum þegar þeir settu sér stjórnarskrá, þykir mér alveg ljóst að hann teldi valdaframsalið samkvæmt EES-samningnum óheimilt. Því til stuðnings nægir að nefna þær aðstæður sem Íslendingar bjuggu við þegar stjórnarskráin var sett. Það hefur varla hvarflað að nokkrum Íslendingi þá að við mundum framselja ríkisvald til erlendra aðila eða þjóðréttarlegra stofnana.
    Þjóðréttarlegar stofnanir eins og hér um ræðir eru ekki stjórnvöld í skilningi 2. gr. stjórnarskrárinnar samkvæmt gildandi stjórnskipunarrétti. Mat á EES-samningnum og ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar um framkvæmdarvald verður því ekki á því byggt.
    Stjórnsýsluhafar í landinu vinna verk sitt að viðlagðri ábyrgð á ákveðnum sviðum sem þeim ber bæði réttur og skylda til að rækja og mega ekki fela það öðrum. Í ráðuneytum viðgengst þó svonefnt innra framsal, þ.e. ráðherra felur öðrum starfsmönnum í ráðuneytinu framkvæmd valds síns. Sú ákvarðanataka er hins vegar ætíð á ábyrgð viðkomandi ráðherra rétt eins og hann hafi staðið sjálfur að verki. Framsal framkvæmdarvalds samkvæmt stjórnsýslurétti til utanaðkomandi aðila þegar lögbær aðili er til í landinu á því sviði er mjög sjaldgæft innan lands. Óþekkt er að slíkt framsal eigi sér stað til útlanda.
    Fjórmenninganefnd utanrrh. telur að þrátt fyrir ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar sé valdaframsal heimilt á vel afmörkuðum og takmörkuðum sviðum. Kemst hún að þeirri niðurstöðu að í þessu tilviki sé þeim skilyrðum fullnægt. En hver á að draga mörkin?`` spyr dr. Björn. ,,Hvenær er svið ekki svo nægilega vel afmarkað eða ekki nógu takmarkað til þess að um óleyfilegt valdaframsal sé að ræða? Mat í þessu efni tel ég svo vandasamt og afdrifaríkt að varhugavert sé að láta hinn almenna löggjafa um það.
    Með EES-samningnum er íslenskt refsivald framselt að hluta. Slíkt vald er svo mikilsvert að óverjandi er að það verði fengið öðrum en dómstólum og stjórnvöldum þeim sem getur nú í stjórnarskránni nema þá að breyta henni.
    Með því framsali ríkisvalds sem hér er til umræðu er ekki einasta þjóðréttarlegum stofnunum falið bindandi ákvörðunarvald á tilteknum sviðum gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum á Íslandi heldur afsala sömu aðilar sér þeirri réttarvernd sem þeir njóta samkvæmt íslenskum lögum og m.a. er fólgin í því að mega bera athafnir stjórnvalda undir umboðsmann Alþingis, undir æðra stjórnvald og að lokum dómstóla.
    Hér er um að ræða hluta ríkisvalds sem framselt er í hendur fyrirbrigðis sem er nýtt á alþjóðavettvangi og engin reynsla er fengin af. Stjórnskipun þess byggir á réttarhugmyndum og réttarhefðum sem eru í veigamiklum atriðum frábrugðnar þeim forsendum sem stjórnskipun okkar byggist á.
    Að lokum er rétt að ítreka að það sem nú hefur verið sagt um framsal framkvæmdarvalds á í veigamiklum atriðum við um framsal dómsvalds samkvæmt EES-samningnum.
    Varðandi dómsvaldið sérstaklega verður hér aðeins vikið að tveimur atriðum.
    Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt hjá fjórmenninganefndinni að túlka megi EES-samninginn þannig að dómar EB-dómstólsins séu einungis leiðbeinandi en ekki bindandi fyrir dómstóla og stjórnvöld hér á landi. Þrátt fyrir þá takmörkun sem gerð er í samningnum, þ.e. að dómarnir skipti máli og séu efnislega samhljóða, tel ég miklu líklegra að reynslan muni leiða í ljós að líta beri svo á að hér sé um bindandi fordæmi að ræða, enda segir skýrum stöfum að það beri að fara eftir þeim þegar svo stendur á sem í EES- og ESE-samningunum segir. Þessa skoðun byggi ég ekki síst á víðtækri túlkun EB-dómstólsins sjálfs og hlutverki sínu og valdsviði.
    Hitt atriðið sem ég vil vekja athygli á varðar 60. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að dómendur skeri úr öllum ágreiningi og embættistakmörk yfirvalda. Um þetta segir fjórmenninganefndin einungis: ,,Þessi regla varðar valdskiptingu milli hinna þriggja þátta ríkisvaldsins, en ekki lögverkanir þjóðréttarsamninga. Ef það sem segir í 2. gr. stjórnarskrárinnar heimilar gerð þeirra samninga sem hér er fjallað um hefur ákvæðið í 60. gr. ekki sjálfstæða þýðingu með þeim hætti að það geti leitt til annarrar niðurstöðu.``
    Það er rétt sem hér segir að ákvæðið hefur ekki sjálfstæða þýðingu varðandi þá spurningu hvort nú megi lögfesta EES-samninginn að óbreyttri stjórnarskrá, en þar með er ekki öll sagan sögð. Það er að mínu viti villandi að segja einungis að 60. gr. varði valdskiptinguna milli hinna þriggja þátta ríkisvaldsins.
    Það sem ég nefni dómstólaeftirlitið nær til þess aðhalds sem fólgið er í úrskurðarvaldi dómstóla annars vegar um stjórnskipulegt gildi laga og hins vegar um lögmæti stjórnsýslu. Þegar sagt er að dómstólar eigi úrskurðarvald um stjórnskipulegt gildi laga er átt við þá grundvallarreglu íslensks réttar að dómstólar skeri úr um það hvort lög séu í samræmi við stjórnarskrána og að ekki skuli farið eftir þeim lögum sem að efni til eru andstæð henni. Það er einnig meginregla í íslenskum rétti að dómstólar eigi úrlausn um allar ákvarðanir og athafnir stjórnvalda nema þær séu sérstaklega teknar undan dómsvaldi þeirra, annaðhvort samkvæmt settum lögum eða eðli máls, sbr. 2. gr. og 60. gr. stjórnarskrárinnar. Í þessari meginreglu felst að dómstólar eigi úrskurðarvald um það hvort stjórnvöld hafi verið bær eða hæf til þess að taka ákvörðun og hvort þau hafi gætt réttra lagareglna við meðferð máls, hvort heldur um er að ræða ákvarðanir almenns eðlis, eins og t.d. setningu reglugerða, eða ákvarðanir í einstöku máli. Almennt er þó viðurkennt að framangreind meginregla um úrskurðarvald dómstóla geti sætt takmörkunum. Réttarþróunin hefur hins vegar verið sú að dómstólar telja sig bæra til þess að dæma um athafnir framkvæmdarvaldsins í mjög ríkum mæli.
    Túlkun 60. gr. stjórnarskrárinnar er mikilsvert og vandasamt fræðilegt úrlausnarefni. Bæði ég og fjórmenninganefndin,`` segir Björn ,,hafa komist að þeirri niðurstöðu að með EES-samningnum sé dómsvald framselt að hluta til dómstóla EFTA og EB. Þegar af þeirri ástæðu hefði verið nauðsynlegt að víkja nánar að inntaki 60. gr. stjórnarskrárinnar vegna hinna bindandi réttaráhrifa ákvarðana þessara dómstóla.
    Varðandi þessi síðastnefndu álitaefni ber að leggja áherslu á að rannsóknum mínum á þeim er hvergi nærri lokið fremur en á hugsanlegu framsali íslensks löggjafarvalds með lögfestingu EES-samningsins.``
    Niðurstaða Björns Þ. Guðmundssonar er því þessi samandregin, virðulegi forseti:
    ,,Á grundvelli viðurkenndra lögskýringaraðferða stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar tel ég vafa leika á að framsal það á framkvæmdar- og dómsvaldi sem felst í EES-samningnum og hér um ræðir standist gagnvart gildandi réttarreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þennan vafa tel ég svo mikinn að ekki megi taka áhættu af að lögfesta EES-samninginn að óbreyttri stjórnarskrá.``
    Þetta er niðurstaða hins virta fræðimanns, Björns Þ. Guðmundssonar, prófessors í stjórnsýslurétti.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson fór mjög ítarlega yfir stjórnlagaþátt þessa máls er hann mælti fyrir áliti 1. minni hluta utanrmn. Hv. þm. gerði ítarlega grein fyrir stórgóðu áliti dr. Guðmundar Alfreðssonar þjóðréttarfræðings. Ég vil aðeins víkja að örfáum atriðum í hans greinargerð. Þar segir svo, virðulegi forseti:
    ,,Sérfræðinganefnd utanrrh. heldur því fram að það megi hugsanlega skýra fyrirmæli í 2. gr. stjórnarskrárinnar um framkvæmdarvaldið þannig að það geti verið í höndum alþjóðastofnana á vel afmörkuðum og takmörkuðum sviðum: ,,Ekki er tekið fram að þetta skuli vera alíslensk stjórnvöld.`` Þessi skoðun þeirra er algjörlega úr lausu lofti gripin og á sér enga stoð í íslenskum stjórnskipunarrétti. Þetta er ævintýramennska í lögfræði og það breytir engu hvort framsalið nær til milliríkjaviðskipta eingöngu eða til annarra málaflokka.``
    Hér er mikið sagt en ég dreg ekki í efa að dr. Guðmundur Alfreðsson hefur alla burði til að standa við það sem hann segir hér. Hann segir einnig:
    ,,Það er mín niðurstaða um framkvæmdarvaldsþátt EES-samningsins að yfirþjóðlegt framsal af þessu tagi fái ekki staðist skv. 2. gr. stjórnarskrárinnar sem felur tilteknum íslenskum aðilum þetta vald. Framsalið stangast líka á við 14. gr. stjórnarskrárinnar um ráðherraábyrgð því að hvorki ráðherrar né önnur innlend stjórnvöld mundu geta borið ábyrgð á ákvörðunum stofnana EFTA og EB þar sem þær heyra alls ekki undir innlenda aðila og enginn slíkur mundi því bera ábyrgð á athöfnunum. Hér vaknar því greinilega spurning um stjórnarskrárbrot.``
    Og dr. Guðmundur Alfreðsson segir einnig:
    ,,Að mínu mati stangast valdaframsal til EB greinilega á við 1. og 2. gr. stjórnarskrárinnar. Við stofnun lýðveldisins skipti stjórnarskrárgjafinn verkum milli íslenskra valdhafa. Ég held því fram í meginmáli þessarar greinargerðar að valdaframsal til yfirþjóðlegra stofnana sé óheimilt að óbreyttri stjórnarskrá en ég fullyrði að stjórnarskrárgjafinn hafi útilokað valdaframsal til yfirþjóðlegra stofnana sem við erum ekki aðilar að. Engu máli skiptir þótt framsalið sé afmarkað og takmarkað við ákveðna málaflokka á viðskiptasviðinu. Þetta er einfaldlega ekki hægt að óbreyttri stjórnarskrá.``
    Og að lokum segir dr. Guðmundur Alfreðsson: ,,Það er mín niðurstaða eftir nákvæma skoðun á þessum atriðum og dæmum öllum að breyta þurfi stjórnarskránni og beita til þess 79. gr. hennar þegar frv. til laga um EES kemur til afgreiðslu Alþingis og forseta.``
    Hér er skýrt talað.
    Eftir að hafa íhugað þessi mál og kynnt mér þau eftir bestu samvisku liggur það fyrir að niðurstaða mín er sú að samningurinn standist ekki stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem ég hef svarið eið að. Til viðbótar er svo að endanleg gerð þessa samnings verður ekki í því formi sem Alþingi er ætlað að samþykkja nú. Það liggur alveg ljóst fyrir eftir að Sviss hafnaði samningnum. Það er því vægt til orða tekið og fáránlegt að gera þá kröfu til alþingismanna að þeir verði við þeirri ósk og reyndar kröfu hæstv. utanrrh., Jóns Baldvins Hannibalssonar, að afgreiða slíkan samning nú.

    Markmiðið með hinu Evrópska efnahagssvæði er að efla ríkjasamsteypur og treysta frelsi fjármagnseigenda og auðhringa. Möguleikar þeirra skulu auknir á kostnað hins frjálsa framtaks einstaklingsins. Það blandaða kerfi velferðarþjóðfélaga sem við þekkjum skal nú ýtt til hliðar. Það er þetta umhverfi sem hin nýja sveit sem nú hefur tekið völdin í Sjálfstfl. hefur því miður villst inn á. Morgunblaðið --- málgagn Jóns Baldvins Hannibalssonar --- hefur hamrað á því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði muni rífa íslenskt atvinnulíf upp úr þeim öldudal sem það er nú komið í og auka hagvöxt á næstu árum. Hér er vægast sagt allt of sterkt til orða tekið. Ég viðurkenni samt að það eru atriði í þessum samningi sem okkur er ávinningur að. Því neita ég ekki, en sá ávinningur er hvergi nærri því sem af okkur er krafist. Ýmsar leikfléttur til að fegra þennan samning í augum fólks eru hafðar uppi og fullyrt að um verulegan ávinning verði um að ræða. Ef grannt er skoðað er atvinnu- og efnahagsávinningur okkar af þessum EES-samningi falskur og tálsýn ein.
    Í Evrópu er atvinnuleysi að verða eitt alvarlegasta vandamál þjóðríkjanna. Þar er nú að vaxa upp ótrúlega stór hópur fólks sem aldrei hefur og mun aldrei hafa atvinnu sér og sínum til framfærslu. Þetta er það umhverfi sem Evrópa í dag býður upp á. Þetta er sú lífssýn sem blasir við.
    Ríkisstjórnin hefur talað mikið um sölu ríkisfyrirtækja frá því að hún kom til valda og er með ýmis áform uppi í þeim efnum, misjafnlega skynsamleg svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Eitt áformið er það að breyta ríkisbönkunum í einkabanka. Það er einn liður Evrópukrata til að opna þá möguleika að erlendir bankar eða fjármálastofnanir geti aukið hér umsvif sín og eignast þessar stofnanir og rekið þær sem sín útibú á Íslandi. Nú er hæstv. viðskrh. svo sem ekki reynslulaus í að afhenda banka en þó við vægast sagt vafasaman ávinning. Hér og nú horfir þetta öðruvísi við. Nú skulu dyr Evrópu opnaðar og erlendum aðilum opnuð leiðin til umráða yfir peningastofnunum okkar. Nú passar þetta vel samhliða samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ríkisstjórnin ætlar sér meira en að selja ríkisbankana. Hún hefur einnig ákveðið að einkavæða orkufyrirtækin í landinu. Hún hefur einnig áform um það. Þær dyr verða því einnig rifnar upp á gátt fyrir útlendinga til að hasla sér þar völl. Hæstv. iðnrh. hefur vegna glataðra tækifæra í stóriðju talað mjög mikið um þann möguleika okkar að flytja út raforku í gegnum sæstreng. Ég er sammála því að hér er um mjög mikið mál að ræða en mikið verk er samt enn óunnið hvernig að skuli staðið hvað varðar eignarhald og framkvæmd alla. Það væri fróðlegt að spyrja hæstv. iðnrh., sem ekki er hér staddur að vísu og ekki nýtt. Ef við gæfum okkur að þetta gengi nú fram þannig að arðsemisútreikningar yrðu mjög jákvæðir á því að selja raforku út eftir sæstreng yrði þá ekki fyrsta verkefni væntanlegra kaupenda þeirrar orku að tryggja sér sjálfum virkjunar- og framleiðslurétt orkunnar á Íslandi og losna þannig við óþarfa millilið sem héti Ísland til framleiðslu og sölu orkunnar eftir að möguleikar erlendra aðila til orkuöflunar hafa verið opnaðir eins og áform ríkisstjórnar eru um. Það væri fróðlegt að fá skoðun hæstv. iðnrh. á þessu sjónarmiði. Af hverju skyldu þessir erlendu aðilar, sem eru tilbúnir til að kaupa orkuna hvort sem er við strönd Englands, ekki byrja á að fjárfesta og tryggja sér orkuréttinn á Íslandi þegar búið væri að opna fyrir slíkt? Af hverju ætti að hafa milliliðinn hér uppi á Íslandi? Auðvitað er verið að rífa hér allar dyr upp á gátt. En er kannski engin hætta á ferðum, ágætu þingmenn?
    Í dag nýtum við Íslendingar aðeins um 10% af virkjanlegri orku. Það er alveg ljóst að í orku landsins felast alveg gífurlegir möguleikar. Því þarf að ganga hér um með mikilli gát. Í virkjanlegum möguleikum eigum við trúlega um 30--40 milljarða í árstekjur í orkusölu. Það er ekkert lítið sem hér er í húfi. Það er því alveg ljóst að viðsemjendur okkar í EES-samningnum munu gera allt til að koma í veg fyrir að hömlur verði settar á erlenda aðila til að geta komið að þessum auðlindum okkar. Þeir vita nákvæmlega hvað hér er um að tefla.
    Í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið vantar því skýr ákvæði sem tryggja Íslendingum sjálfum fullt forræði til orkuvinnslu. Verði það ekki gert verður hér óbætanlegt slys. Ég trúi ekki öðru en hv. alþm. átti sig á þeirri hættu eða gildru sem í þessum samningi felst. Það er algert grundvallarmál og sjálfsögð krafa að engir endar verði hafðir lausir við þessa samningasmíð þannig að öllum megi ljóst vera að það sé Íslendinga einna að eiga og reka orkuöflunar- og dreifingarfyrirtæki.
    Nákvæmlega sömu kröfu verður að setja fram hvað viðkemur landinu sjálfu. Það verður að stöðva þau áform að auðlindir lands og hafs verði notuð sem skiptimynt í viðskipum milli þjóðríkja.
    Óhjákvæmilega mun EES-samningurinn snerta íslenskan iðnað eins og aðra þætti þjóðlífs okkar. Því miður er það svo að iðnaður okkar á í miklum erfiðleikum. Og ég leyfi mér að draga stórlega í efa að hann sé nægilega vel í stakk búinn til að mæta þeim breytingum sem verða með samþykkt EES-samningsins. Þrátt fyrir fríverslunarsamninginn við EFTA og EB frá árinu 1972, þar sem samið var um að koma á fullri fríverslun með iðnaðarvörur, hefur honum ekki tekist að ná þeirri markaðshlutdeild sem vonir stóðu til. Það vill nefnilega furðuoft gleymast að fríverslun verkar í báðar áttir. Þar er um gagnkvæmni að ræða. Það fer ekki á milli mála að á liðnum árum höfum við mátt horfa upp á hlutdeild erlends iðnvarnings vaxa ótrúlega mikið á íslenskum markaði samfara miklum samdrætti í okkar eigin framleiðslu. Heilu greinarnar hafa nánast horfið og aðrar hafa dregist stórlega saman. Stórkostleg fækkun í mannafla hefur átt sér stað í þessum greinum. Allt þetta hlýtur að valda okkur áhyggjum.
    Síðan núv. ríkisstjórn komst til valda fyrir rúmu einu og hálfu ári hafa meira en 1.500 störf tapast úr íslenskum iðnaði. Frá því að þessi ríkisstjórn komst til valda hefur hún klúðrað 1.500 störfum í íslenskum iðnaði. Það sýnir okkur betur en flest annað þá uppgjöf sem orðið hefur um íslenska atvinnustefnu.
    Það sem hefur gerst m.a. er að erlendir framleiðendur iðnvarnings hafa nýtt sér út í æsar þá möguleika sem fríverslunin gaf þeim en íslenskum iðnaði hefur ekki tekist nægilega að fóta sig á hinum evrópska markaði. Sá markaður sem hefur gefið íslenskum iðnaði hvað mest nú um sinn er ekki í þeim hluta Evrópu sem nú er leitað lags við. Sá markaður liggur miklu fremur í Bandaríkjunum, Kanada, Rússlandi, Japan og jafnvel í Asíu.
    Það var mjög athyglisvert að lesa grein eftir Jóhann J. Ólafsson sem birtist í Morgunblaðinu ekki fyrir löngu síðan. Þar var mjög ítarlega fjallað um risamarkaðinn í vestri, sem hann nefndi svo, og þá möguleika sem þar eru. Það er alveg ótrúlegt að lesa slíkt og hugleiða hversu mikla möguleika við Íslendingar eigum á þessum mörkuðum. Það er tálsýn að með samþykkt samningsins um Evrópskt efnahagssvæði leysist vandamál íslensks iðnaðar. Það er mikil blekking af ráðamönnum að halda slíku fram.
    Forsvarsmenn íslensks iðnaðar hafa jafnan öðrum fremur hvatt okkur þingmenn til þess að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verði samþykktur. Ég hef spurt sjálfan mig oftsinnis þegar ég hef lesið bréf þessara samtaka hver hugsunin raunverulega væri. Ég hef satt að segja ekki komist að niðurstöðu. En ég veit að það getur vissulega verið notalegt að láta sig dreyma. En reyndin er sú að það kemur að því að menn hrökkva upp af draumum sínum og veruleikinn blákaldur blasir þá við. Og ég held að það eigi íslenskur iðnaður því miður eftir að reka sig á.
    Nú þarf öðru fremur hvað viðkemur iðnaðinum okkar að koma upp ákveðinni og skilvirkri iðnaðarstefnu sem eitthvað stendur á bak við og menn meina eitthvað með. Það getur ekki orðið sátt um að möguleikar íslensks iðnaðar nýtist ekki betur en raun ber vitni. Um það getur ekki orðið sátt. Ríkisstjórnin verður að átta sig á því áður en lengra er gengið hverjir og hvar séu bestu möguleikar íslensks iðnaðar.
    Útspil ríkisstjórnarinnar nú að hækka tolla á vörum frá Bandaríkjunum og Japan er ekkert annað en tollvernd til ríkja EB. Ekkert annað. Þetta sýnir okkur hvað er mikið að marka útreikninga um fjárhagslegan ávinning þessa samnings. Mikil og sterk villuljós hafa leitt menn til þessarar samningsgerðar. Íslenskur iðnaður átti svo sannarlega annað og betra skilið.
    Fróðlegt hefði verið að fjalla um atvinnu- og réttindamál þeirra er hingað kunna að koma í atvinnuleit. Sá þáttur samningsins hefur allt of lítið verið ræddur á Alþingi og reyndar víðar og á örugglega eftir að valda hér ýmsum erfiðleikum svo ekki sé fastar að orði kveðið. En það er eins og svo margt annað sem órætt er. Ef menn vilja tala ítarlega um þessi mál þá kveður við úr stólum hæstv. ráðherra: Málþóf, málþóf, málþóf. Og það er hart að þurfa að búa við slíkt. Auðvitað eiga þingmenn þann rétt að taka sér allan þann tíma sem þarf til að ræða jafnyfirgripsmikið mál og hér um ræðir. Ég trúi því að margt eigi enn eftir að ræða í þessum málum þó síðar verði.
    Eitt af því alvarlegasta við þennan samning eru svik við þau áform að heimila ekki veiðar skipa frá Evrópuríkjum innan íslenskrar lögsögu. Ríkisstjórnin hefur gefið eftir í þessu máli og samþykkt að gefa veiðiheimildir fyrir tollaívilnanir. Hver hefði trúað því að Sjálfstfl. mundi einhvern tímann geta fallist á slíkt? Trúir virkilega einhver hér inni því að Sjálfstfl. hefði getað fallist á slíkt? Örugglega eru margir hér inni sem hefðu trúað því að Alþfl. hefði getað gert það. En ég held að það geti ekki verið margir hér inni sem hefðu trúað því að Sjálfstfl. gæti slíkt. Og því verður fróðlegt að fylgjast með atkvæðagreiðslu í þessu máli. Er nema von að við þessar aðstæður spyrji sjálfstæðismenn vítt og breitt um landið: Hvar er gamli flokkurinn okkar? Hvað hefur komið fyrir forustu Sjálfstfl.?
    Íslenskur sjávarútvegur á í erfiðleikum í dag. Núv. ríkisstjórn hefur engan skilning á málefnum þessarar undirstöðuatvinnugreinar. Því er nú svo illa komið að hriktir í sjálfri undirstöðunni. Miklar vaxtahækkanir og margvíslegar nýjar skattaálögur ásamt miklum kostnaðarhækkunum eru hreint og beint að sliga þessa undirstöðuatvinnugrein.
    Það er akkúrat við þessi starfsskilyrði sem sjávarútvegurinn er ákaflega illa í stakk búinn til að verjast þeim boðaföllum sem fylgja munu samþykkt þessa samnings. Sjávarútvegurinn er á engan hátt nægilega búinn til að mæta þeim margvíslegu hættum sem að honum steðja við gerð þessa samnings. Það þarf kjark til að halda því fram að með samþykkt EES-samningsins muni sjávarútvegurinn komast á réttan kjöl að nýju eins og talsmenn ríkisstjórnarinnar halda fram. Málflutningur sumra forustumanna sjávarútvegsins í þessu máli er vægast sagt torskilinn, a.m.k. fyrir mig. Hvaða hagsmunaaðilar, ef við skoðum það, í íslenskum sjávarútvegi kalla svo hátt eftir afgreiðslu samningsins? Skyldu það vera þeir sem eru að byggja upp fiskvinnslufyrirtæki í þessum Evrópulöndum til að flytja út og vinna hráefni af Íslandsmiðum sem fremur ættu að vinnast af íslenskum höndum hér heima þannig að íslenska þjóðin gæti sem best notið margfeldisáhrifa vinnslunnar hér heima? Skyldu það vera þeir? Skyldi það geta verið að þarna væru hagsmunatengsl á milli? Skyldi það svo vera, hæstv. ráðherra utanríkismála, að íslenskum sjávarútvegi sé ætlað að keppa á jafnréttisgrundvelli að þessum samningi gerðum?
    Auðvitað var hopað líka af þessum vígstöðvum samningsins. Auðvitað hopuðu kratarnir af þessum vígstöðvum líka. Er nema von að spurt sé hvort ríkisstyrkir til sjávarútvegs í Evrópulöndum verði lagðir af. Nei, aldeilis ekki. Styrkir sem Evrópubandalagið greiðir til útgerðar og fiskvinnslu koma til með að skekkja mjög samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Árið 1990 námu beinir styrkir um 65 milljörðum kr.

Til að bæta samkeppnishæfni þessara sjávarútvegsfyrirtækja vegna ýmissa aðgerða, svo sem vegna hollustuhátta, bætir EB við um 85 milljörðum. Til viðbótar þessum 150 milljörðum kr. í ríkisstyrki koma til mjög há framlög sem þeir kalla byggðastyrki. Þarna er verið að búa samkeppnisaðila okkur betur í stakk í vaxandi samkeppni.
    Styrkur EB jafngildir því að íslenskum sjávarútvegi væri veittur styrkur sem næmi trúlega um 20 milljörðum ísl. kr. Auðvitað dettur engum í hug að slíkt verði gert fyrir íslenskan sjávarútveg. Það þarf mikið að gera til að standast þá samkeppni sem hér um ræðir. Þetta er rekstrarumhverfið og gagnkvæmnin sem íslenskum sjávarútvegi er ætlað að keppa við í draumalandi Evrópukratanna. Við þessar aðstæður mun hráefni fara í vaxandi mæli úr landi og atvinnan vissulega með. Það er heillandi verkefni eða hitt þó heldur sem hér er unnið að af núv. ríkisstjórn á sama tíma og atvinnuleysi hefur aldrei verið meira á Íslandi. Það er heillandi verk. Með þessari þróun er mikil hætta á að við munum í vaxandi mæli verða hráefnisútflytjendur og það er vissulega uggvænleg þróun fyrir okkur Íslendinga.
    Ég sá það í Morgunblaðinu ekki fyrir löngu að greint var frá ráðstefnu um EES og ný tækifæri í útflutningi. Mig minnir að ráðstefnan hafi verið haldin úti í Viðey. Það kom fram hjá tveimur fyrirlesurum á ráðstefnunni að samkeppnisstaða okkar gagnvart Norðmönnum muni --- batna eins og menn hafa verið að segja? Nei, samkeppnisstaða okkar gagnvart Norðmönnum að gerðum þessum samningi, segja þessir fyrirlesarar, mun versna. Annar fyrirlesarinn sagðist einnig binda miklar vonir við ávinninginn af sölu sjávarafurða --- hvert? Til Evrópu? Ávinningurinn var glæstastur hjá honum til Bandaríkjanna. Þar voru mestu möguleikarnir að hans áliti.
    Utanrrh. hefur látið reikna út fyrir sig það sem hann kallar fjárhagslegan ávinning vegna tollalækkana sem kæmu til framkvæmda árin 1993 og 1997 miðað við útflutning 1990. Lækkunin átti samkvæmt þessu að vera, ef ég man rétt, um 1,9 milljarðar. Það er villandi og trúlega ekki tilviljun að taka árið 1990 sem viðmiðunarár þar sem samdráttur í útflutningi á ferskum fiski var um 40% á árinu 1991 og samdrátturinn er mikill á þessu ári. Því gefur þetta alranga mynd af þeim ávinningi sem hér er talað um. Hér er margt fleira sem þarf að taka tillit til en látið hefur verið ógert af hæstv. ráðherra.
    Ég veit ekki nákvæmlega hversu mikið hefur verið flutt út til Bretlands af ferskum fiski á sl. ári. En síðast þegar ég skoðaði þessi mál stefndi það í að verða um 30 þús. tonn sem við áttum að flytja út til Englands. Það er innan við helmingur þess útflutnings sem var fyrir fjórum árum síðan. Menn sjá því hver þróunin hefur orðið. Vissulega grípur hér mikið inn sú ákvörðun sem menn hafa tekið með stjórnun fiskveiða. En þetta sýnir okkur hvað sú tala er fölsk sem menn eru að tala um með þennan mikla ávinning.
    Eitt enn ber að athuga sem hefur gleymst í þessum útreikningum. Það er það, sem kennt er í öllu venjulegu bókhaldi, að færa þarf í tvo dálka. Það þarf að færa í báða dálkana. En í öllum þessum útreikningum hefur það gleymst og aðeins verið fært í annan dálkinn og hann lagður saman. Ávinningurinn af þessum samningi í krónum talið er því ekki ljós og langt frá að hann sé sá sem talsmenn samningsins halda fram. Það er augljóslega um lægri fjárhæð að ræða sem nemur hvorki meira né minna en hundruðum milljóna króna.
    Í samningnum er einnig kveðið á um að fyrirtæki megi ekki vera það sem kallað er markaðsráðandi. Það væri mjög fróðlegt --- en því miður eru engir ráðherrar við enn þá og víst vonlaust að biðja um slíkt --- ef ráðherrar heyrðu mál mitt að þeir gæfu okkur aðeins stikkorð um það sem hér er verið að tala um. Hvernig víkur þessum þætti við t.d. hvað viðkemur Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna? Telst Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna markaðsráðandi fyrirtæki? Telst Hagkaup eftir að hafa keypt sig inn í Bónus markaðsráðandi fyrirtæki? Það væri fróðlegt að fá svör við því. Og einnig hverjir það eru sem munu úrskurða í slíkum tilvikum. Munu íslenskir aðilar kveða upp þann dóm eða einhverjir aðrir? Þá væri fróðlegt að fá að vita hverjir þessir aðrir eru.
    Evrópubandalagið setti í upphafi samningsviðræðnanna fram þá kröfu að Íslendingar heimiluðu veiðar innan fiskveiðilsögu okkar gegn tollalækkun sjávarafurða okkar á EB-markaði. Þessi krafa á ekki að koma Íslendingum á óvart. Þetta hefur okkur ætíð staðið til boða að semja um frá því að við færðum út landhelgi okkar en ætíð hefur því verið hafnað. Um það hefur verið full samstaða þar til nú.
    Íslendingar börðust við þessi ríki um réttinn til hafsins með málstaðinn einan sem hið beittasta vopn. Sigurinn var okkar og nú viðurkenna allar þjóðir 200 mílna, eða hvorki meira né minna en 758 þús. ferkílómetra efnahagslögsögu okkar nema EB sem enn hefur ekki staðfest Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta eru þjóðirnar sem að sögn talsmanna EES-samningsins eru fullar af samstarfsvilja í garð okkar Íslendinga þrátt fyrir að nú tíu árum eftir samþykkt Hafréttarsáttmálans sé Ísland eina ríki EFTA sem samþykkt hefur þennan sáttmála. Segir það okkur ekki heilmikla sögu? Ætti þetta ekki að verða til þess að við gætum dregið einhvern lærdóm af?
    Því er óskiljanlegt að nú árið 1992, eða réttum 18 árum eftir að sigur var unninn í landhelgismálinu, skuli vera þeir menn á Alþingi og utan þess sem falla að fótum þessarar ríkjasamsteypu og leggja til að rjúfa þau heit sem íslenska þjóðin stóð sameinuð að að setja.
    Með þeim samningum sem ríkisstjórnin ætlar að ná fram og lúta að sjávarútvegi er vikið frá grundvallarsjónarmiðum Íslendinga í landhelgismálum. Að samningnum samþykktum munu fiskiskip Evrópubandalagsins geta fiskað innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og ásóknin í auknar heimildir mun vissulega vaxa.

Með þessu hefur verið fallist á að gefa eftir veiðiheimildir gegn tollaívilnunum, þ.e. auðlindir hafsins fyrir markaðsgengi. Það er hörmuleg staðreynd í dag. Og að hæstv. utanrrh. skuli hæla sér af góðum árangri ætti eitt og sér að nægja til að svipta hann því umboði sem hann hefur fengið frá stjórnarflokkunum til að semja í þessum málum.
    Hæstv. sjútvrh. sagði dapur í bragði að með þessum samningi hefðu Íslendingar náð fram ýmsum ýtrustu kröfum nema þeirri kröfu að jafnræði verði að vera varðandi veiddan afla. Hæstv. utanrrh. greip auðvitað orðið og sagði hins vegar hnakkakerrtur að vanda að það hafi verið eins og alltaf hafði verið búist við. Það ætti ekki að koma neinum á óvart. Það sést hver hefur beitt línuna í þessu máli.
    Það er áhyggjuefni að hér er hopað frá grundvallarstefnu hvað varðar gagnkvæmni í veiðiheimildum. Með þessum samningi ríkisstjórnarinnar er mikið óhappaverk unnið. Fiskveiðilögsagan verður opnuð fyrir skipum Evrópubandalagsins sem valda munu íslenskri þjóð óbætanlegu tjóni. Því verður að lýsa ábyrgð á hendur ríkisstjórninni í þessum málum.
    Síðar á Alþingi munum við svo ræða þau áform ríkisstjórnarinnar sem nú eru uppi að opna fyrir það að erlendir aðilar geti farið að fjárfesta hér í veiðum og vinnslu og eignast og reka sína eigin fiskmarkaði. Við eigum eftir að ræða þann þátt málsins. Hvað hefur eiginlega gerst? Hvernig má það vera að fulltrúar sjávarútvegsins skuli hvetja til að slíkir samningar skuli samþykktir? Annaðhvort eru siglingatækin vitlaus eða þeir sem í brúnni standa þekkja alls ekki á þau því hér er svo augljóslega um glæfrasiglingu að ræða og menn eru óðfluga að nálgast brimgarðinn í þessum málum.
    Menn velta því nú fyrir sér hvert þessari ferð er heitið sem hér er lagt upp í. Sumir stuðningsmenn þessa samnings halda því fram að ekki sé ætlan að lengra verði gengið en að fordyri Evrópubandalagsins með samningsgerðina. Ef það er rétt, því þá ekki fremur að velja þann kost að taka þegar upp viðræður við Evrópubandalagið með tvíhliða samningum þar sem þegar er ljóst að öll EFTA-ríkin hafa nú lokið upp dyrum að biðsal EB og ætla sér þangað beinustu leið? Með tvíhliða viðræðum okkar nú við Evrópubandalagið tryggðum við hagsmuni okkar betur án þess að fórna sjálfstæði þjóðarinnar í eigin málum, áunnum rétti til hafsins, landi og auðlindum þess. Því fagna ég vissulega fram kominni till. til þál. frá þeim Steingrími Hermannssyni og Halldóri Ásgrímssyni að taka nú upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið sem fyrst og fremst væru byggðar á viðskiptahluta þessa samnings sem fyrir liggur um Evrópska efnahagssvæðið. Ef menn vilja ekki taka upp tvíhliða viðræður nú miðað við hvert aðrar þjóðir EFTA stefna gef ég mér þá vísbendingu að stefna ríkisstjórnarinnar sé sú sama og hinna þjóðanna að ná alla leið til EB.
    Mjög margir telja sig sjá að ekki verði staðar numið við gerð þessa samnings og það verði ekki aftur snúið á þeirri leið sem liggur til Evrópubandalagsins. Ég viðurkenni hér að ég er einn þeirra sem hef áhyggjur af að svo verði. Ummæli ýmissa ráðamanna og samþykktir stjórnmálahreyfinga gefa það svo sterklega til kynna að leiðin sé hafin til hins fyrirheitna lands sem þeir kalla svo og er Evrópubandalagið. Það er fróðlegt að lesa ritstjórnargrein í Alþýðublaðinu sl. haust þar sem fjallað var um ummæli Thorvalds Stoltenbergs, utanríkisráðherra Noregs og hugleiðingar málgagns utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar í framhaldi af þessu. Í Alþýðublaðinu segir:
    ,,Norðurlandaþjóðirnar nema Ísland virðast nú á hraðleið inn í Evrópubandalagið. Þróun Evrópubandalagsins og innlimun EFTA-landanna í EB hefur rutt stórfelldu og heillandi samstarfi evrópskra þjóða braut.``
    Þetta er málgagn utanrrh. sem talar. Eru menn virkilega enn að velkjast í vafa? Hér hefur úlfurinn svo sannarlega leyft sér að líta undan sauðargærunni. Það getur enginn velkst í vafa um hvað Alþfl. er að kynna og hvert þeir ætla að stefna. Það sem þeir segja nú, að stefnan sé ekki á Evrópubandalagið, er vísvitandi sett fram til að blekkja nægjanlega marga á Alþingi til að ná þessu máli í höfn.
    Í hef áður vitnað til viðtals við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hv. þm. Kvennalistans, sem birtist i Morgunblaðinu þar sem hún segir frá niðurstöðum sínum eftir að hafa farið mjög gaumgæfilega yfir samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. En Ingibjörg Sólrún hefur látið svo ummælt að Evrópubandalagið sé skömminni skárra en Evrópska efnahagssvæðið --- þótt hvorugur kosturinn sé góður, bætti hún við. Aðspurð hvort hún hefði nú tekið EES fram yfir EB svaraði hún neitandi. Mér er alveg ljóst, hélt Ingibjörg Sólrún áfram, að ef við förum í Evrópska efnahagssvæðið, þá er EB inni í þeirri mynd. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þetta sé bara EES og síðan ekki söguna meir. Ég held að þeir stjórnmálamenn sem það fullyrða séu annaðhvort að blekkja sjálfan sig eða aðra. Ingibjörg Sólrún svaraði því játandi er hún var spurð hvort hún teldi að leiðin til EB lægi um EES. --- Hv. þm. svaraði því játandi.
    Hér er vissulega alveg skýrt og tæpitungulaust talað eins og hv. þm. er lagið. Það er Evrópubandalagið sem stefnan hefur verið tekin á með öllu því framsali fullveldis og afsali valds sem því mun fylgja. Það mætti kalla mjög marga fram við þessa umræðu sem mundu tjá sig á svipaðan hátt. Málin hafa verið að skýrast og æ fleiri átta sig nú á því hvert sé áform núv. ríkisstjórnar í þessu máli.
    Í kosningastefnuskrá Alþfl. 1991 sagði m.a. að Alþfl. útilokaði ekki aðild að Evrópubandalaginu. Ungkratar hafa lýst vilja sínum til inngöngu í Evrópubandalagið. Skoðanir ungra sjálfstæðismanna eru augljósar og öllum kunnar í þessum málum. Vitað er um mjög mikinn og vaxandi þrýsting í Sjálfstfl. til þess sama og ákveðinna afla sem tengjast honum og þekkt eru að öðru fremur en að gefast upp. Þessi hópur leggur áherslu á að eftir að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði hefur verið samþykktur verði frekari umræður teknar upp um aðild að Evrópubandalaginu. Þetta er öllum ljóst hverju svo sem ráðherrar Sjálfstfl. neita í þessum málum.
    Það var líka merkilegt og fróðlegt að lesa ítarlegt viðtal sem birtist í Morgunblaðinu fyrir ekki mjög löngu. Viðtal var við forstjóra dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV 2 þar sem hann var spurður m.a.: Ótti Norðurlandabúa gagnvart Evrópubandalaginu og jafnvel samkomulaginu um Evrópskt efnahagssvæði er ekki síst tengdur spurningunni um sjálfstæði. Menn óttast það að missa hluta sjálfstæðis úr landi. Það er augljóst hvað EB varðar en það varðar að afhenda völd til yfirþjóðlegrar stofnunar. En er ótti af þessu tagi einnig á rökum reistur hvað EES varðar? spyr fréttamaðurinn. Svarið var skýrt frá forstjóranum. Hann sagði, með leyfi virðulegi forseti: ,,Ég er meðvitaður um að forsrh. Íslands er nýbúinn að segja að EES sé lokaskrefið hvað Íslendinga varðar og síðan ekki meira. Þetta er aftur á móti nákvæmlega það sama sem danskir stjórnmálamenn hafa sagt og síðan þurft að éta ofan í sig á ný. Poul Schlüter sagði fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um einingasáttmálann 1986 að ef menn greiddu honum atkvæði þá væri hugmyndin um Evrópubandalagið úr sögunni. Það liðu ekki nema sex ár þangað til hann þurfti að biðja kjósendur um stuðning við sáttmála um pólitískan samruna. ,,Því fyrr``, heldur forstjórinn áfram, ,,sem hér er rætt um hvað felst í sjálfstæðishugtakinu í hinum raunverulega heimi, því betur verðum við undir næsta skref Evrópuþróunarinnar búin því að það get ég fullvissað ykkur um, sama hvað á dynur, EES-umræðan nú er ekki síðasta umræðan sem mun eiga sér stað á Íslandi. Það væri líka bjánaskapur af hálfu Íslendinga að senda ekki rétt boð til Brussel þannig að þið verðið a.m.k. á réttum stað í biðröðinni, þ.e. með hinum Norðurlandaþjóðunum en ekki Austur-Evrópuþjóðunum. Þið ættuð því ekki að bíða meira en ár í viðbót.``
    Hér er alveg ótrúlega skýrt talað af manni sem fylgst hefur mjög nákvæmlega með þróun þessara mála, ekki hvað síst á Norðurlöndunum. ( Gripið fram í: Hver talaði svona?) Það var forstjóri TV 2 stöðvarinnar. Það er alveg á kristaltæru hvaða álit hann hefur á framþróun þessara mála. Hann veit að Ísland er með gerð þessa samnings á leið inn í Evrópubandalagið.
    Ríkisstjórnin hefur tekið sína ákvörðun í kyrrþey. Vegagerðarmenn hennar og brúasmiðir eru víða að verki að leggja brautina. Það veldur áhyggjum ef stefnan hefur verið tekin á Evrópubandalagið með öllum þeim fórnarkostnaði sem það mun hafa fyrir íslenska þjóð. Sá samningur sem hér er fjallað um er aðeins áningarstaður á fyrir fram ákveðnu ferli. Og það er alvarlegast að farþegarnir hafa ekki verið spurðir. Þeir verða bara einfaldlega fluttir.
    Einn af öflugustu forstjórum landsins var í umræðuþætti í Ríkisútvarpinu fyrir fáum dögum. Hann spurði hvort við ætluðum að einangrast hér uppi á köldum klaka. Undir þessum orðum forstjórans var mér hugsað til þess að sem barn var manni sagt að Ísland lægi á mörkum hins byggilega hluta jarðar. En nú árið 1993 hélt ég að við ættum að vita miklu betur. Nú er svo komið í breyttum heimi að Ísland liggur á krossgötum nýrra leiða og tækifæra. Það er því vissulega orðið meira en tímabært að við áttum okkur á því hvar og hverjir möguleikar okkar eru.
    Virðulegi forseti. Ég ítreka þá skoðun mína að með framsali á valdi til yfirþjóðlegrar stofnunar sem samningurinn kveður á um er brotið á stjórnarskrá Íslands. Því geta alþingismenn ekki samþykkt þann samning sem hér er til umræðu.
    Ég vék einnig að því hér fyrr í máli mínu, virðulegi forseti, að enn nýttum við aðeins um 10% af virkjanlegum orkumöguleikum landsins. Í þessum möguleikum eigum við um 30--40 milljarða kr. í árstekjur í orkusölu. Þau áform að gefa erlendum aðilum rétt til orkuöflunar og sölu verður að stöðva áður en lengra er gengið. Sá auður og ráðstöfun hans verður án alls vafa að vera okkar Íslendinga sjálfra.
    Þó svo að þjóðin þurfi nú um sinn að búa við minni afla en áður vitum við nú betur en fyrr að hafið er ekki óendanleg uppspretta auðs. Gæfa okkar er sú og nú er það okkar sjálfra að sjá til þess að stofninn vaxi að nýju. Við getum ráðið því sjálfir. Gífurleg verðmæti liggja enn vannýtt eða ónýtt í hafinu umhverfis landið. Forðabúr fiskveiðilögsögu okkar er sá auður sem aldrei má framselja. Slík áform verður að koma í veg fyrir að nái fram. Landið með gögnum þess og gæðum getur enn um langa framtíð búið þessari þjóð betri lífsskilyrði en flestar aðrar þjóðir geta boðið þegnum sínum. Það hefur ekkert komið fram sem bendir til að svo geti ekki orðið áfram. Það sem á hefur skort er fremur hvernig á málum lands og þjóðar hefur verið haldið. Þjóð með þennan auð er ekki á flæðiskeri stödd og þaðan af síður upp á einhverjum köldum klaka eins og forstjórinn sagði.
    Þótt hæstv. utanrrh. endurtaki í sífellu að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði færi okkur allt fyrir ekkert þá vitum við það nú að það er fals eða fávísi nema hvort tveggja sé. Efnahags- og atvinnulegur ávinningur þessa samnings er tálsýn ein.
    Virðulegur forseti. Í dag undir þessum umræðum er stjórnmálamönnum og reyndar allri þjóðinni nauðsynlegt að átta sig á því að til eru þau verðmæti sem ekki verða metin og mæld á vog peningahyggjunnar. Fullveldi lands og þjóðar og réttur til að ráða sjálf gæðum hafs og lands get ég aldrei fallist á að verði sett á þá vog. Því mun ég, virðulegi forseti, greiða atkvæði gegn þessum samningi.