Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 15:22:22 (4292)


     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Í athyglisverðri ræðu sem hv. 4. þm. Norðurl. v. flutti um hið Evrópska efnahagssvæði las hann langa kafla úr álitsgerð prófessors Björns Þ. Guðmundssonar sem í sjálfu sér er ekki athugavert ef menn tengja það á einhvern hátt efnislegri umfjöllun um afmarkaða þætti í máli sínu. Það

fannst mér hins vegar hv. þm. Stefán Guðmundsson ekki gera og er þá í raun og veru ekki tilgangsríkt að lesa upp úr slíkum álitsgerðum vegna þess að þetta er hluti af þingskjölum og öllum aðgengilegt og allir vita að hv. þm. er læs og svo er einnig um aðra þingmenn á þessari samkundu.
    Þetta vekur líka athygli vegna þess að í þeim kafla í greinargerð prófessors Björns, sem hv. þm. vitnaði í, er að finna atriði sem ég held að megi leggja áherslu á að þingmaðurinn sjálfur og allir helstu þingmenn stjórnarandstöðunnar eru ekki á sama máli og prófessor Björn Þ. Guðmundsson. Þá á ég einkum og sér í lagi við það er hv. þm. undraðist að fjórmenninganefndin svokallaða skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að framselja vald sem er á takmörkuðu sviði og vel afmarkað. En prófessor Björn hefur einmitt dregið í efa að slíkt væri hægt og hann hefur spurt sjálfur og spurði einmitt í þessum kafla sem hv. þm. vitnaði í: Hver á að draga mörkin? Þess vegna vil ég nú spyrja hv. þm.: Telur hann að Alþingi geti dregið slík mörk? Er hann sammála eða ósammála Birni Þ. Guðmundssyni í þessu afmarkaða atriði sem hann vitnaði sérstaklega í?