Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 15:24:29 (4293)

     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Auðvitað hefði ég getað lesið upp allt álit Björns Þ. Guðmundssonar en gerði það ekki. Ástæðan fyrir því var kannski sú að ég áleit að menn hefðu lesið það. En það eru fleiri sem fylgjast með þessum umræðum en þeir sem hafa þessi þingskjöl undir höndum. Meginniðurstaðan í áliti Björns Þ. Guðmundssonar er dregin saman á lokasíðunni og ég skal lesa það aftur fyrir hv. þm. og aðra sem Björn Þ. Guðmundsson segir:
    ,,Á grundvelli viðurkenndra lögskýringaraðferða stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar tel ég vafa leika á að framsal það á framkvæmdar- og dómsvaldi sem felst í EES-samningnum og hér um ræðir standist gagnvart gildandi réttarreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þennan vafa tel ég svo mikinn að ekki megi taka áhættu af að lögfesta EES-samninginn að óbreyttri stjórnarskrá.``
    Sem óbreyttur þingmaður hef ég lagt vinnu í það í sumar og frá því við skildum í vor að reyna að lesa mér til og kynna mér sem best þessi mál. Eftir að hafa skoðað þau grannt hef ég komist að þeirri niðurstöðu að með því að samþykkja þennan samning þá er ég að brjóta það heit sem ég gaf þegar ég sór eið að stjórnarskrá lýðveldisins og við það stend ég.