Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 16:58:02 (4306)

     Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir að veita þau svör sem hann flutti hér áðan. Ég tel það satt að segja ágætt dæmi um það hvernig hægt er að eiga málefnalegar viðræður í þinginu um þennan samning og ber að virða það og meta við ráðherrann að taka þátt í umræðum hér með þeim hætti sem hann gerði. Án þess að ég ætli mikið í samanburð milli þeirra nafnanna, hæstv. utanrrh. og viðskrh., þá gæti hæstv. utanrrh. lært ýmislegt af hæstv. viðskrh. í þessum efnum. Það er kannski vænlegra að ræða málin á eðlilegan hátt eins og hæstv. viðskrh. gerði en vera í þessum sífelldu skylmingum við þingið eins og hæstv. utanrrh.
    Ég hlustaði með athygli á mat hæstv. viðskrh. á því hvaða áhrif þessar breytingar kynnu að hafa á stöðu íslenska bankakerfisins og gjaldeyrisvarasjóðinn. Það er út af fyrir sig rétt hjá honum að sumar af þessum breytingum tengjast sjálfstæðum lögum sem afgreidd voru í tíð síðustu ríkisstjórnar og hafa ekki að forminu til með EES-samninginn að gera. Þó er munurinn sá að þegar EES-samningurinn tekur gildi ber okkur skylda til þess að vera með skipan sem leyfir þetta allt saman en það er í sjálfu sér ekki skylda þegar EES-samningurinn er ekki í gildi.
    Ég vil hins vegar vekja athygli á því að frá því að ég bar upp spurningar mínar hefur það gerst

í fyrsta lagi að hæstv. viðskrh hefur viðurkennt vissar hættur í þessum efnum með því að láta ekki koma að fullu til framkvæmda þær breytingar sem áður hafði verið talað um. Hann heimilar ekki frá og með nýliðnum áramótum jafnmikil kaup á verðbréfum erlendis og ætlunin var. Það finnst mér sýna viðleitni í þá átt að hamla hér gegn. Enn fremur er komið í ljós að stærsti viðskiptabanki landsins, Landsbankinn, stenst ekki þær kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegrar bankastarfsemi og verður að óska eftir fjármagni frá ríkissjóði Íslands á nýbyrjuðu ári til þess að geta staði erlendum bönkum jafnfætis í samkeppninni. Þetta tvennt finnst mér vera viðurkenning í veruleikanum á því að hér þurfum við að fara mjög varlega.