Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:03:19 (4308)

     Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þótt það sé alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að þessi ákvæði um fjármagnsstreymi milli Íslands og annarra landa og um eiginfjárhlutfall bankanna sé í íslenskum lögum, þá hafa þau lög eðli málsins samkvæmt verið sett í tengslum við þær breytingar sem með einum eða öðrum hætti tengjast hinu almenna markaðskerfi Evrópu sem hér gengur undir heitinu EES. Það er vissulega tilefni til umhugsunar í þingsalnum að frestun á gildistöku EES gerir okkur kleift að fresta framkvæmd á frjálsu fjármagnsstreymi hvað snertir verðbréfakaup milli Íslands og annarra landa. Hvers vegna eru menn að fresta því núna um áramótin? Það er vegna þess að menn óttuðust áhrifin á gjaldeyrisvarasjóðinn og peningalega stöðu milli Íslands og annarra landa. Ef allt hefði gengið samkvæmt áætlun hefðu íslensk stjórnvöld varla haft þennan möguleika. Sama gildir reyndar um Landsbankann að þær alþjóðlegu reglur sem hér er verið að festa í lög gera það hugsanlega nauðsynlegt fyrir Alþingi að flytja peninga úr ríkissjóði inn í Landsbankann á þessu ári í stað þess að reikna með peningum inn í ríkissjóðinn við sölu hlutabréfa viðskiptabankanna eins og gert er í núverandi fjárlagafrv.