Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:12:06 (4314)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég er að sjálfsögðu ánægður með það þó að það komi mér ekki á óvart að hæstv. viðskrh. er í meira jafnvægi en hæstv. utanrrh. Það er hægt að eiga við hann orðastað með eðlilegum hætti án þess að hann skýli sér á bak við hálfsannindi eða þaðan af verra.
    Hæstv. viðskrh. talaði um árangur Íslandsbanka. Íslandsbanki, eða Útvegsbankinn, var einkavæddur fyrir tilverknað hæstv. viðskrh. með gífurlegum fórnarkostnaði af almannafé. Árangurinn erum við að sjá þessa dagana þar sem Íslandsbanki hækkar vexti framar öðrum og hefur þar forustu um.
    Hæstv. ráðherra svaraði ekki þeirri spurningu sem hv. 4. þm. Norðurl. v., Stefán Guðmundsson, bar fram varðandi útflutning á raforku. Mergurinn málsins er sá að verði orkuver einkavædd, eins og hæstv. ríkisstjórn hefur á stefnuskrá sinni, þá er engin leið eftir að við erum orðnir aðilar að Evrópsku efnahagssvæði að halda þeim orkuverum alfarið í eigu Íslendinga.
    Auðvitað felur brotthvarf Sviss frá Evrópsku efnahagssvæði í sér gerbreytingu á öllu málinu. Sviss er öflugasta EFTA-ríkið og samningurinn hlýtur að breytast bæði að formi og efni í grundvallaratriðum. Nú veit ég að hæstv. viðskrh. telur sig hafa gott vit á efnahagsmálum, en ég held að hann ætti að hlífa sér við því að kenna Svisslendingum hvernig þeir eigi að sjá fyrir sínum hag.