Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:14:20 (4315)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst um Íslandsbanka. Þótt hann sé laustengdur þessari umræðu vil ég leyfa mér

að vísa til skýrslu, sem lögð var fram í þinginu á síðasta fundi fyrir jól, um sölu hlutabréfa ríkisins í Útvegsbanka Íslands hf. sem var undirstaðan undir myndun Íslandsbanka. Þar er m.a. svarað þeirri staðhæfingu hv. 1. þm. Norðurl. v. að bréfin í bankanum hafi verið seld þannig að ríkið hafi haft skaða af. Þvert á móti voru þetta skynsamleg og hagfelld viðskipti þótt jafnan megi um það deila hvort menn hefðu getað fengið eitthvað meira fyrir bréfin.
    En þarna var líka um annað að tefla, að ná fram skipulagsumbótum í okkar íslenska bankakerfi sem beðið hafði áratugum saman en loksins tókst, ekki eingöngu fyrir tilverknað þess sem hér stendur heldur tilverknað þeirrar ríkisstjórnar sem við báðir studdum, hv. 1. þm. Norðurl. v. og sá sem hér talar.
    Um virkjunarrétt fallvatna vil ég endurtaka það sem ég sagði hér áðan. Ég tel að ég hafi svarað spurningu hv. 4. þm. Norðurl. v. svo sem unnt er á þessu stigi máls. Ég ítreka að það er ákaflega mikilvægt að búa svo um hnúta að almenningur fái endurgjald fyrir virkjunarrétt fallvatna, að fallvötnin og virkjunarréttur á þeim séu, allt sem ekki eru skýlaust í einkaeigu, almenningseign. Um þá hnúta ætlum við að búa vel. Ég endurtek að það er ekkert í EES-samningnum sem hindrar að Alþingi haldi áfram þeirri reglu að veita ekki meiri háttar virkjunarrétt til annarra en íslenskra ríkisaðila eða opinberra fyrirtækja.