Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:58:49 (4323)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá síðasta ræðumanni og kom raunar skýrt fram í ræðu minni að það er enn ágreiningur um stjórnarskrármálið. En ég tel engu að síður að aðilar hafi nálgast hver annan. Alla vega ákveðnir talsmenn stjórnarandstöðunnar. Ég ætla ekki að vitna hér í sérstök ummæli en þau ummæli eru til vegna þess að ég hef kallað þessa afstöðu fram hér í umræðum á þingi.
    Það sem skiptir mestu máli er það að fullyrðingar um að verulegt valdaframsal sé fólgið í EES-samningnum, að það sé verið að framselja fullveldi íslenska lýðveldisins og það sé vegið að sjálfstæði þjóðarinnar, slíkar fullyrðingar tel ég ekki samræmast því sem fram kemur í brtt. við frv. til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þar sem tekið er fram að það sé heimilt að gera alþjóðlega samninga svo fremi sem það sé meiri hluti Alþingis sem samþykkir þá og að vald það sem framselt er sé vel afmarkað og á takmörkuðu sviði. Og það liggur einnig fyrir að menn telja að EES-samningurinn sé innan þessara marka. Auðvitað hefðu menn ekki farið að gera tillögu um þessa stjórnarskrárbreytingu ef þeir hefðu talið að þar með væri verið að framselja íslenskt fullveldi og vega að sjálfstæði þjóðarinnar.