Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 18:05:00 (4328)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :

    Herra forseti. Ég vil líka þakka fyrir það að hann hefur fullyrt að sjónarmið stjórnarandstöðu og stjórnarsinna hafi færst saman varðandi þann þátt sem snýr að stjórnarskránni. Ég veit það eitt um afstöðu stjórnarandstæðinga að þeir hafa staðið í stað með sitt álit og ekki haggast. Þetta verður því ekki skilið á annan veg en þann að hann upplýsi það hér að stjórnarsinnar hafi fært sig mjög nær okkur í skoðunum. Það sýnir þá árangurinn af því að hafa haldið uppi umræðum um þetta mál.
    Varðandi þær ábendingar sem fram komu að öðru leyti hjá hv. ræðumanni vil ég vissulega taka það til athugunar, en teldi rétt að hann tíndi það saman til þess að á mig kæmi þá aðeins það hlutverk að sjá um sendinguna.