Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 18:09:42 (4331)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hélt því fram úr ræðustól að það hefði verið lagst á mig og ég hefði ekki fengið að tala í málinu. Það var að vísu þannig að ég strikaði mig út af mælendaskrá til að rýma fyrir stjórnarandstöðunni þannig að hún gæti komið sínum ágætu sjónarmiðum á framfæri. Ég hafði alltaf hugsað mér að tala í málinu og gerði það hér og nú. Það er því mesti misskilningur að það hafi verið lagst á þingmanninn og allra síst má kenna hæstv. utanrrh. um það því að hann er alsaklaus af öllu slíku.
    Hv. þm. segir að ég gangi í kringum málið eins og köttur í kringum heitan graut. Ég býst við að þetta sé hans háttur á að orða það að ég hef ekki í þessu máli þá einföldu hugmyndafræði sem hv. þm. virðist hafa gripið sig í. Hann sér þessum samningi allt til foráttu. Ég sé hins vegar marga kosti við þennan samning og ég sé ýmsa galla á honum, einkum galla sem hafa komið fram í samningaferlinu og ég hefði viljað sjá öðruvísi. Engu að síður er niðurstaðan sú að ég held að það sé alveg ljóst að við eigum að samþykkja þennan samning þrátt fyrir ágallana sem á honum eru.