Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 19:01:53 (4337)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Enn einu sinni stendur hv. 4. þm. Austurl. upp og talar út frá þeim hugarheimi sem honum er væntanlega frá fyrri tíð hugleikinn, að það sé bara til ein skoðun. Það sé hin rétta skoðun og allir sem kunna að hafa einhver, þó ekki sé nema blæbrigði við hana, eigi ekki rétt á sér.
    Umhyggju hv. þm. fyrir Framsfl., sem hér hefur margsinnis komið fram í ræðustól, hlýt ég að þakka sérstaklega, þó ég efist reyndar um að þar sé mælt af heilum hug. Það er hins vegar, hv. þm., alveg ljóst að innan Framsfl. hafa verið og eru deildar meiningar um þetta mál. Yfir það hefur aldrei verið dregin fjöður. Það var hins vegar gert í Alþb. því það er jafnljóst að þar eru ekki allir á einu og sama máli eða einni skoðun. Mér þætti til að mynda gaman að vita það hvar skoðanir hv. þm. og formanns Alþb. falla saman í þessu máli.
    Virðulegi forseti. Ég tel að öflugum stjórnmálaflokki, eins og Framsfl., sé það frekar til framdráttar að þar geti fleiri en ein skoðun á þessu máli átt heima. Ég bendi einnig hv. þm. á það að frá því að fyrirvararnir voru settir á miðstjórnarfundi sl. vor hefur ýmislegt breytst í málinu þótt að hv. þm. virðist vera fyrirmunað að horfa á þetta mál öðruvísi en sem fasta og óbreytanlega staðreynd. Mín afstaða byggist á því að við eigum að vinna að því að ná samstöðu um það að snúa EES-samningnum upp í tvíhliða samning okkar við það Evrópubandalag sem verður þegar þar að kemur. Hún byggist líka á þeirri trú minni að um þetta sé í raun veruleg samstaða meðal þingmanna og reyndar meðal íslensku þjóðarinnar.