Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 19:04:35 (4338)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Sá munur er á afstöðu Alþb. og Framsfl., eins og hún birtist okkur í þingsölum þessa dagana, að Alþb. mælir einum rómi í afstöðu til þessa samnings, þessa stóra máls sem er hér til meðferðar og er samstiga í því efni. En hér koma þingmenn Framsfl., hluti þeirra, og tala þvert gegn þeirri stefnu sem flokkurinn hefur sameiginlega túlkað á flokksþingi sínu fyrir skemmstu. Hv. þm. túlkaði það svo í sínu máli að við yrðum ætíð að verja fullveldi okkar í takt við það sem er að gerast og hann telur að takturinn sem sleginn er sé þannig að við Íslendingar eigum að ganga til samninga sem skerða okkar fullveldi með þeim hætti sem þessi samningur gerir, til þess sérstaklega, ef ég met efnisatriði ræðunnar, að lenda í eitthvað lakari stöðu markaðslega með fiskafurðir gagnvart Norðmönnum. Ja, er það nú stórhugur. Fyrir utan það að ég er ekki sammála þessu mati efnislega. Hvar hefði þessi hv. þm. verið staddur árið 1970 þegar tekist var á um það á Alþingi Íslendinga hvort við ættum að ganga gegn nauðungarsamningnum við Breta og Vestur-Þjóðverja og færa út landhelgi okkar með langtímahagsmuni þjóðarinnar í huga? Ætli þeir sem hefðu viljað vera í takt og láta hræða sig með markaðsstöðu okkar útflutningsafurða og annað þess háttar, hefðu allir þeir sömu verið þá þeim megin sem þjóðin tók undir í alþingiskosningum 1971? Nei, það er satt að segja hörmulegt að horfa upp á það að menn á besta skeiði, nýlega komnir inn á Alþingi sem fulltrúar Framsfl., skuli tala með þeim hætti sem þessi hv. þm. gerir. Ég er satt að segja aldeilis undrandi á því vegna þess að ég tel mig þekkja til hugarheims þess fólks sem stutt hefur Framsfl. til áhrifa í þessu þjóðfélagi. Það er það sem máli skiptir, hvort menn hlusta á þann slátt eða ekki eða hlaupa yfir allt aðra stöðu og túlka mál með allt öðrum hætti.