Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 19:07:13 (4339)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nú féll hv. þm. í þá gryfju að staðfesta orð mín í svari mínu við andsvari hans áðan. Hans djúpu hryggð, svo ég hafi nú ekki stærri orð, yfir því að einhver skuli leyfa sér að hafa aðra

skoðun en þá einu og sönnu sem hv. þm. hefur tileinkað sér.
    Ég vil benda hv. þm. á það að hann þarf ekkert að óttast um það hver afstaða mín var til landhelgismálsins á sínum tíma og í því máli getur Framsfl. borið höfuðið hátt í öllum þáttum. Að bera það síðan saman við að það sé mín skoðun að okkur sé nauðsynlegt að eiga góða viðskiptasamninga við Evrópu í dag og ganga til þeirra með fullri reisn, þó mér finnist á stundum að hæstv. núv. utanrrh. hafi ekki fylgt því eftir eins og ég vildi, að bera það síðan saman við landhelgismálið og hugsanlegar viðskiptaþvinganir þar, það er vægast sagt ekki stórmannlegur málflutningur. Svo ég taki mér í munn læriföðurtón þingmannsins: Það er ekki sæmandi þingmanni sem hefur setið á þingi svo lengi sem hann hefur gert.