Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 19:08:58 (4340)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér finnst það ekki sanngjörn árás á hæstv. utanrrh. að bera það á hann að hann sé aðalóvinur þess samnings sem hér er að ná landi. Ungir jafnaðarmenn fagna sigri í Alþýðublaðinu í dag og segja, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við ungir jafnaðarmenn teljum nú sem fyrr inngöngu Íslands í EB óumflýjanlega ýmissa hluta vegna. Hins vegar er EES góður millileikur í stöðunni því þar mundi Íslendingum gefast kærkomið tækifæri til að aðlagast verunni í EB.`` ( Gripið fram í: Hver skrifar þetta?)
    Svo einföld eru þau orð og vissulega verður að óska hæstv. utanrrh. til hamingju með það hversu langt hann hefur komist með lítinn flokk jafnaðarmanna að ná árangri til að koma hugsjónamálum þeirra í framkvæmd. ( ÖS: Hann hefur náð inn í raðir Framsfl.) Hann hefur náð það miklum árangri að mig undrar það vissulega hve langt hann hefur náð.
    Varðandi annað atriði sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, að Íslendingar mundu gera sömu kröfu til lífskjara og Evrópubúar. Það stendur nú þannig að ef við tökum meðallífskjör í Evrópu í þessu 350 milljóna samfélagi, þá má reikna það út samkvæmt öllum leikreglum að lífskjör á Íslandi eru betri en þar. Þannig standa málin.
    Hitt er einfaldlega draumóramynd manns sem vill bera sig saman við bestu löndin á þessu svæði. Þau standa betur en Ísland, það er rétt, en við höfum aðeins haft fullveldi um skamma hríð.