Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 11:24:57 (4347)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að eftir standi sú yfirlýsing þingmannsins að með því að

breyta 21. gr. stjórnarskrárinnar væri hægt að framselja vald á mjög takmörkuðu og afmörkuðu sviði. Þetta stendur eftir. Og það stendur jafnframt eftir að með þessari breytingu hefði verið hægt að samþykkja Evrópska efnahagssvæðið. Með öðrum orðum, að Evrópska efnahagssvæðið hefur í sér fólgið framsal á valdi að mati hv. þm., á mjög takmörkuðu og afmörkuðu sviði, þetta stendur eftir. Og þetta tel ég að hafi leitt til þess að við erum þó að nálgast hvort annað í skilningi okkar á þessum samningi.