Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 11:25:43 (4348)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég heyri að hv. þm. er mikið í mun að nálgast okkur, þannig að hann langar mikið til þess að vera á sama máli og við og ég bara býð hann velkominn og tel að hann eigi bara að koma alla leið og vera ekkert að þessu. Og það ( Gripið fram í: Það er samviskan.) er greinilegt, að já, honum er mjög órótt út af þessu máli. ( TIO: Ég er þakklátur hv. þm. fyrir það hvað hann stígur stórt skref.) Þingmaðurinn hefur stigið það stórt skref og það er langt síðan hann steig það skref að vera andvígur samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég heyrði líka að hv. 5. þm. Norðurl. e. var andvígur samningnum hér fyrir síðustu kosningar að mjög verulegu leyti, þar sem hann taldi að í honum fælust atriði sem ekki væri hægt að samþykkja. Ég er honum líka algjörlega sammála í því. En eftir stendur, og það er alveg rétt, ég sagði það hér áðan, og ég sagði það hérna einhvern tímann fyrr í vetur, að ég teldi að með samþykkt stjórnlagafrv. væri hægt að samþykkja samninginn og það er líka mat færustu sérfræðinga. Hins vegar telur hv. þm. að samningurinn eins og hann er núna standist stjórnarskrána. Því er ég hins vegar ekki sammála. Og það tók hann reyndar fram líka. Samningurinn felur í sér valdaframsal í efnahags- og atvinnumálum, sérstaklega efnahagsmálum. Mjög mikilvægt. Mér finnst það vera mikilvægast að við höfum yfirráðarétt á þessu sviði. Ég er ósammála því að við afsölum okkur þessu valdi, eins og gerist með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Það vil ég endurtaka. En ég er líka ósammála því að Alþingi samþykki lagafrumvarp sem eru miklar líkur á að standist ekki stjórnarskrá.