Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 13:13:20 (4361)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. 2. umr. mun nú vera um það bil að ljúka. Hún er orðin nokkuð löng, það skal svo sannarlega játað. Ég held að ég hafi hlustað á svo til hvert einasta orð sem hér hefur verið sagt og ég tel þetta síður en svo ómerkilega umræðu. Það hefur að minnsta kosti farið þannig fyrir mér að ég hef verið með hugann við þetta mál og helst ekki annað mánuðum saman. Þetta hefur komið upp nokkrum sinnum með hléum og við höfum öll verið dæmd til þess að reyna að læra okkar lexíu og voru þó sumir náttúrlega búnir að vera í þessum skóla í æðimörg ár og þá kannski ekki síst ég. Ég held að ekki sé ástæða til þess að harma að þetta mál hafi verið talsvert mikið rætt. Enda er það satt og sagt af öllum eða flestum talið að þetta sé langstærsta mál sem við Íslendingar höfum þurft að kljást við í áratugi. Ég held að ég hafi ekki heyrt neinn segja annað. Hvort sem menn eru sammála einu eða öðru í þessum málum þá eru þeir sammála um að málið sé veigamikið og gífurlega mikilvægt fyrir alla framtíð þjóðarinnar og ekki aðeins næstu árin heldur miklu lengur. Það er alveg ljóst í mínum huga.
    Stundum hefur gengið dálítið erfiðlega að fá skýr svör hjá hæstv. utanrrh. eins og

raunar núna þegar erfitt er að svara því hvenær raunverulega þurfi að taka einhverjar nýjar ákvarðanir í þessum málum. Ég get ekki séð að hann hafi svarað einu eða neinu í því skilmerkilega. Það eru a.m.k. mánuðir þangað til nokkra ákvörðun þarf að taka og það er af hinu góða. Ráðherrann ætti auðvitað að fagna því með okkur hinum að við fáum svigrúm til að reyna sættir í þessu máli og reyna að skoða stöðu okkar og annarra þannig að vel farnist. Þess vegna fagna ég því auðvitað mjög að alveg ljóst er að það getur ekki orðið um neina nauðsyn að ræða að við segjum nokkurn skapaðan hlut um málið a.m.k. þennan mánuðinn og ekki næsta eða þarnæsta. Ráðherra hefur líka haft ágæta menn í störfum fyrir sig og utanrmn. tilnefndi svo aðra fagmenn. Allt hefur þetta verið margrætt. Ég vil sérstaklega spyrja hæstv. ráðherra hvort Gunnar G. Schram sem var og er í fjórmenninganefndinni sé enn þá ráðgjafi ráðherrans og þeir þrír aðrir í fjórmenninganefndinni sem voru skipaðir á sínum tíma. Er Gunnar G. Schram ekki enn þá starfandi að þessum málum í umboði ráðherra? --- Er hann hættur? Hann var í þessari nefnd. ( Utanrrh.: Hann var í nefnd.)
    Gunnar G. Schram hefur í sjónvarpsþætti 8. jan. 1991 sent frá sér sjónarmið, sem ég ætla að sjálfsögðu ekki að láta ráðherrann bera ábyrgð á en þau eru þess eðlis að maður getur kannski skilið vilja annarra manna að hugsa eitthvað á annan veg en þessi fræðimaður gerir en ég held að það sé alveg nauðsynlegt, með leyfi forseta, að lesa örlítið úr þessu útvarpsviðtali. Útskriftin er komin frá Ríkisútvarpinu og er eins og ég sagði upptaka úr sjónvarpi 8. jan. 1991. Það er Gunnar G. Schram sem talar. Umræðan er að sjálfsögðu um Evrópumálin: ,,Það verður um að ræða mjög víðtækt framsal ríkisvalds.`` --- ef við ánetjumst Evrópska efnahagssvæðinu --- ,,það verður um að ræða mjög víðtækt framsal ríkisvalds og raunar hvort sem við gerumst aðilar að efnahagssvæðinu evrópska, sem nú er helst talað um, eða ef við gerumst aðilar, fullgildir aðilar að EB, Evrópubandalaginu.`` Það verður framsal ríkisvalds, hve mikið er ekki rætt enn þá.
    ,,Í báðum tilfellunum verður þá að fylgja veruleg takmörkun eða framsal, það er kannski betra eða skiljanlegra að kalla þetta takmörkun, á fullveldi landsins og þá sjálfsforræði. Og ég held að Íslendingar almennt hafi ekkert áttað sig á því að það er svo, hvað hér hangi raunverulega mikið á spýtunni að þessu leyti. Ef við tökum sem dæmi lögin, að jafnvel þó við gerumst bara aðilar að þessu Evrópska efnahagssvæði þá verðum við að lögtaka rétt eða lagasafn Evrópubandalagsins. Og það er nú engin smáræðis lagatexti. Hann er upp á 11.000 síður eða fjórum sinnum meiri að vöxtum heldur en allt íslenska lagasafnið.`` Þetta segir Gunnar G. Schram prófessor og einn af þremur aðaltrúnaðarmönnum hæstv. utanrrh. í þessum málum. Gunnar heldur áfram:
    ,,Nú, það er unnið hér dag og nótt við að þýða þessi lög Evrópubandalagsins vegna þess að við verðum að samþykkja þau. Og það verður þá að gerast væntanlega á næstu einu eða tveimur missirum. Þannig að það sýnir að þarna tökum við erlend lög og gerum þau á einu bretti, mjög umfangsmikil, að íslenskum lögum. Annað dæmi er það að íslenska dómsvaldið verður náttúrlega miklum mun takmarkaðra á þeim sviðum sem Evrópubandalagið tekur til, þ.e. á sviði efnahags- og viðskiptamála, verslunar, tolla, umhverfis- og félagsmála o.s.frv. Evrópudómstóllinn í Lúxemborg verður í öllum þessum málaflokkum æðsti dómstóll Íslands.`` Ég endurtek því ég held að menn þurfi að heyra þetta tvisvar eða þrisvar: Evrópudómstóllinn í Evrópu verður í öllum þessum málaflokkum æðsti dómstóll Íslands, ekki lengur Hæstiréttur eða aðrir íslenskir dómstólar. Þó kemur hér: ,,Hæstiréttur er náttúrlega æðsti dómstóllinn. Íslendingar geta skotið máli sínu til þessa Evrópudómstóls og lög Evrópubandalagsins ganga fyrir íslenskum lögum, þau eru rétthærri ef þarna er ósamræmi á milli. Meira að segja geta lög Evrópubandalagsins vikið til hliðar stjórnarskrá Íslands eins og annarra ríkja. Um það dæmir þessi dómstóll bandalagsins sem situr í Lúxemborg en ekki Hæstiréttur.``
    Þetta er ekki búið þó nóg sé nú komið til þess að allir alþingismenn ættu að vakna og sjá að þeir geta ekki greitt atkvæði með því að brjóta stjórnarskrána á bak aftur þannig að ekkert standi eftir af henni. Það er það sem verið er að boða og þetta er árið 1991 í janúarmánuði, fyrir tveimur árum. ,,Aðild að efnahagssvæðinu, þ.e. það sem talað er um nú sem næsta skref fyrir Norðurlöndin, fyrir EFTA-ríkin, er að mörgu leyti áþekk aðild að

Evrópubandalaginu sjálfu. Á því er ekki neinn eðlismunur heldur aðeins stigsmunur. Munurinn er hins vegar fyrst og fremst sá að EFTA-ríkin og aðildarríkin að þessu svæði koma ekki til með að geta haft nein áhrif á ákvörðunartöku Evrópubandalagsins. En þau verða að undirgangast þessar takmarkanir á fullveldinu engu að síður. Og að því leyti til er hagur þeirra verri sem þátttakendur í efnahagssvæðinu en ef þeir væru fullgildir meðlimir bandalagsins vegna þess að það eiga þau þó, hvert ríki, eitt atkvæði af --- ja, í dag af tólf, eða eitt atkvæði af sextán þegar fram í sækir. Enda hafa menn nú litið á efnahagssvæðið sem eins konar biðsal eða millispil í þessari stóru sinfóníu.``
    Ég held að þetta sé nærri nóg fyrir þingmenn og helst þyrfti öll þjóðin að heyra þetta. Undir þessum formerkjum hefur verið starfað í tvö ár. Vitandi vits að það eigi að vera að brjóta niður öll ákvæði stjórnarskrárinnar íslensku í bókstaflegri merkingu, allt saman í bak og fyrir. Undir þessum formerkjum og þessu leiðarljósi starfar hæstv. ráðherra og hefur gert. Ég ætla ekki að ræða þetta öllu lengur. Þetta skilur hver einasti Íslendingur, hvert mannsbarn. Og um brot á stjórnarskránni, inntak 2. gr. stjórarskrárinnar, að það sé einhver maður hér inni sem ekki viti hvað það þýðir? Það þýðir að ekki einu sinni sé hægt að flytja tíunda part af því sem boðað er að sé þegar að koma til útlandanna stóru, mundu krakkarnir syngja. Það er kominn tími til þess að við hættum þessari vitleysu. Við getum lokið umræðunni og síðan eigum við að setjast niður, hægja á okkur og hugsa hvert við erum að fara. Við þurfum að minnsta kosti að fá gleggri svör og gleggri ráð en þessi eru. Þau eru að vísu tveggja ára gömul en ég held nú frekar að vald þessa ,,batterís`` hafi vaxið á þessum tveimur árum en hið gagnstæða þannig að þetta verður kannski enn þá svartara ef svart getur orðið svartara.
    En mergurinn málsins er sá að ég fyrir mína parta hef ekkert við það að athuga að málið geti gengið til 3. umr. Það væri eðlilegast og ég athuga það kannski fram eftir deginum hvort það ætti hreinlega að greiða atkvæði með því að hafna því að málið fari yfirleitt nokkuð lengra. En ég held að það geti verið að meinalausu að menn láti það liggja á milli hluta því að þá getur málið allt við 3. umr. verið tekið upp og vonandi með góðu samstarfi við a.m.k. hæstv. utanrrh. Ég orðaði reyndar það í gær, ég held að það hafi verið við hæstv. forsrh., að hann tæki beinlínis að sér forustu um það að allir flokkar reyndu að ræða saman og reyndu að koma einhverri vitglóru í þennan óskapnað sem er á ferðinni. A.m.k. er ég fús til að leggja mitt litla lóð á þá vogaskál að menn geti sett niður deilur og náð efnislegri niðurstöðu á einhvern annan veg en þann að allt fullveldi Íslands meira og minna sé fyrir bí. Það má nú ekki segja þetta í lok ræðunnar með þessum hætti. En að því sé hætt fullveldi landsins og þá auðvitað til frambúðar en ekki tímabundið. Það getum við sem höfum svarið eið að stjórnarskránni ekki gert og það gerir vonandi enginn.