Brottvísun 400 Palestínumanna frá Ísrael

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 15:49:10 (4379)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það var nöturlegt að á sama tíma og við héldum jólahátíð, sem byggist á hinu fræga barni sem úthýst var en komst þó a.m.k. í fjárhús, þá urðum við að hlusta á meðferðina á þessum 415 einstaklingum. Og það vakti nokkra undrun mína að allir þeir prestar landsins sem ég hlýddi á þessi jól virtust gjörsamlega búnir að gleyma meðferðinni á þessum umræddu einstaklingum og héldu sig við barnið sem komst þó í hús forðum í þessu landi.
    Það er auðvitað óþarfi að endurtaka það sem hér hefur verið sagt. Þetta er slík aðgerð, að menn skuli reknir úr landi og beinlínis dæmdir til að veslast upp án dóms og laga og er auðvitað þverbrot á öllum mannréttindasáttmálum sem þjóðir heims hafa undirritað, og ber auðvitað að fordæma það harðlega. Við skulum ekki gleyma því að saga þessa ríkis, Ísraelsríkis, er á ábyrgð okkar vestrænna þjóða. Það vorum við sem stofnuðum þetta ríki illa undirbúið og allir vita hversu miklar hörmungar það hefur leitt af sér. En á sínum tíma var það kannski skiljanlegt, Ísraelsmenn áttu auðvitað samúð heimsins. En ég verð að segja það alveg eins og er að mér hefur oft fundist nokkuð skorta á að þeir hafi verðskuldað þá miklu samúð eftir það sem síðan hefur gerst, sem er satt best að segja hvorki þeim né öðrum til sóma -- og undravert hversu Ísraelsríki hefur liðist að koma fram eins og þeir hafa gert á þessu svæði. Ég held að hér dugi ekkert minna til en að setja Ísraelsríki nú einu sinni stólinn fyrir dyrnar. Það eru ýmsar leiðir til, það er hægt að slíta stjórnmálasambandi við þá, það er hægt að vinna að viðskiptabanni, þetta gengur ekki. Og það er tilgangslaust og þýðingarlaust að vera að undirrita mannréttindasáttmála á ári hverju ef enginn tekur síðan minnsta mark á slíkum undirskriftum.