Brottvísun 400 Palestínumanna frá Ísrael

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 15:51:32 (4380)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er mjög þarft og hefði í rauninni átt að ræðast fyrr hér á þinginu, strax að loknu jólaleyfi. En ég ætla að byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með þau svör eða þau orð sem fram komu hjá hv. 3. þm. Reykv., formanni utanríkismálanefndar, og fannst mér þar kveðið mun skýrar að orði heldur en gerir í bréfum ríkisstjórnarinnar vegna þess að ríkisstjórnin hefur jú bara lýst áhyggjum sínum og sett fram von um að ákvörðun Ísraelsmanna verði tekin aftur, en formaður utanríkismálanefndar talaði þó um að við ættum að setja fram kröfuna af einurð, kröfuna um réttarríkið og um að þessir menn fái að snúa aftur, og halda henni til streitu. Fannst mér þar mun skýrar að orði kveðið heldur en hjá ríkisstjórninni.
    Vandamálið sem þarna er um að ræða er kannski ekki síst það að Ísraelsmenn viðurkenna ekki að þetta séu hertekin svæði heldur séu þetta svæði sem þeir hafi innlimað í Ísraelsríki. Vandamálið er vissulega líka það að Ísraelsríki er ekki venjulegt þjóðríki heldur ríki gyðinga. En mig langar, forseti, til þess að lesa hérna bréf sem Kvennalistinn sendi ríkisstjórn Íslands þann 30. des. sl. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Sífellt berast heimsbyggðinni fréttir af hatrömmum átökum Ísraels og Palestínumanna. Engum er hlíft, saklausir þjást og mannréttindi eru lítils virt. Átökin erfast milli kynslóða þar sem börnin alast upp við ofbeldi og hatur. Það er ofvaxið skilningi flestra að þjóð sem á rætur sínar í mikilli þjáningu skuli geta lagt þvílíkar þjáningar á aðra.
    Enn einu sinni hefur Ísrarelsstjórn ofboðið réttlætiskennd manna með hraklegri meðferð á 415 Palestínumönnum, sem hún hefur rekið frá herteknu svæðunum og hírast nú á berangri í Suður-Líbanon. Að áliti kvennalistakvenna bera Ísraelar fulla ábyrgð á hörmulegu ástandi þessara manna sem þurfa að þola kulda, hungur og vosbúð og ekki síst nagandi óvissu um örlög sín. Það er svo skelfileg og óskiljanleg ráðstöfun að neita Alþjóða Rauða krossinum um leyfi til að hlynna að þessum nauðstöddu mönnum.
    Íslendingar hafa undirritað mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna þar sem sú skylda er lögð á herðar þjóða sem hafa undirritað (Forseti hringir.) --- ég er að verða búin, forseti --- að standa vörð um mannréttindi hvar sem er í heiminum. Því skorar Kvennalistinn á íslensk stjórnvöld að fordæma aðgerðir Ísraela og beita sér með öllum tiltækum ráðum fyrir því að Palestínumennirnir fái þegar í stað að snúa aftur til heimkynna sinna.``
    Af þessu tilefni sendi Kvennalistinn ríkisstjórn Ísraels bréf um þetta sama efni og afrit sendist ríkisstjórninni.