Brottvísun 400 Palestínumanna frá Ísrael

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 15:56:43 (4382)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur ekki dulist neinum að af hálfu þeirra sem nú fara með völdin á Íslandi hefur Ísraelsstjórn --- með þeirri afstöðu sem hún hefur sýnt fyrr og síðar gegn palestínsku þjóðinni --- átt ákveðna hauka í horni. Og það er það sem er að koma hér fram við þessa umræðu með mjög skýrum og nöturlegum hætti. Það gildir jafnt um hæstv. utanrrh. og formann utanrmn. því að ég les nú ekki mikinn mun úr þeirra málflutningi. Það er ekki tekið undir fordæmingu heimsbyggðarinnar á þeim verkum sem verið er að vinna gegn fólki sem verður að líta á sem saklaust á meðan sekt þeirra er ekki sönnuð. Það liggur fyrir og er auðvitað búið að koma nóg fram um það að Ísrael getur ekki talist í hópi réttarríkja í heiminum. Framferði þeirra gegn palestínsku þjóðinni er með þeim hætti að það er fjarstæða að líta á Ísraelsríki, sem fótumtreður rétt palestínsku þjóðarinnar og hunsar margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna gegn framferði þeirra, í hópi réttarríkja heimsins og væri hægt að rekja um það mörg dæmi.
    Alþingi Íslendinga reyndi að reka slyðruorðið af stjórnvöldum með samþykkt á þingsályktun um deilur Ísraels og Palstínumanna 18. maí 1989. Tillögumenn ásamt mér að þeirri tillögu, sem leiddi til þessarar samþykktar, voru hv. þm. Kristín Einarsdóttir og Páll Pétursson. Þetta er tiltölulega einörð samþykkt þó að þáv. utanrrh. reyndi að veikja orðalag hennar. Ég tel að það sé tími til kominn fyrir Íslendinga að sýna annan lit heldur en

stjórnvöld landsins hafa gert að undanförnu í þessu efni og taka á máli, t.d. með svipuðum hætti og lagt var til í ályktun útifundar --- sem hefði mátt vera fjölmennari --- hér fyrir jólin þar sem fjallað var um þessi efni og skorað m.a. á stjórnvöld að Íslendingar beiti sér fyrir refsiaðgeðrum gegn Ísraelsstjórn, fordæmdi voðverkin og krefðist alþjóðlegrar verndar á vegum Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínumenn á herteknu svæðunum. Það væru viðbrögð af því tagi sem ættu að koma fram af hálfu íslenskra stjórnvalda.