Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:08:38 (4391)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Í þessu máli er tekist á um það hvers konar framtíð við viljum búa komandi kynslóðum vinnufúsra Íslendinga. Viljum við geta boðið ungum Íslendingum sambærileg lífskjör, menntunartækifæri og félagsleg réttindi eins og nágrannar þeirra í Evrópu búa við eða viljum taka áhættuna af því að missa allt okkar besta fólk úr landi? Viljum við að íslenskir atvinnuvegir verði samkeppnisfærir við það sem best gerist með öðrum þjóðum til að þeir geti staðið undir óskum landsmanna um bættan þjóðarhag? Viljum við skipa okkur í sveit með þeim þjóðum sem hraðast vilja sækja fram á við á grundvelli frjálsræðis, lýðræðis og markaðsbúskapar eða viljum við taka áhættuna af að einangrast fjarri helstu straumum samtímans? Um þessi atriði snýst þetta mál í hnotskurn. Og um þetta snýst spurningin um aðild Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Ég er sannfærður um að hér er ekki um neitt stjórnarskrárbrot að ræða. Það mál hefur verið rannsakað til þrautar í nefnd hér í þinginu. Ég er sannfærður um að aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði gefur Íslendingum tækifæri til að skipa sér áfram á bekk með þeim þjóðum sem við best lífskjör búa. Hún mun gera okkur kleift að skapa tækifæri fyrir börn okkar og barnabörn þannig að þau geti búið við bætt og batnandi lífskjör sambærileg við það sem best gerist annars staðar. Ég segi já, virðulegi forseti.