Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:11:34 (4393)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er verið að fullgilda samning sem Alþingi Íslendinga hefur engin áhrif haft á og engan rétt til að breyta í einu eða neinu. Slíkt er auðvitað skilyrðislaust brot á stjórnarskrá þar sem lagagerð hefur verið færð út fyrir veggi Alþingis.
    Í öðru lagi er hér verið að fullgilda samning sem gerður var milli tveggja aðila sem ekki eru þeir sömu lengur og þeir voru þar sem eitt aðildarríki að samningnum hefur fellt hann. Einnig það tel ég brot á stjórnarskránni. Ég vil ekki bera ábyrgð á að færa forseta lýðveldisins slíkan samsetning til undirskriftar sem lög frá hinu háa Alþingi. Ég segi að sjálfsögðu nei.