Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:12:46 (4394)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Ef samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verður lögfestur á Alþingi Íslendinga er verið að stíga stórt skref til þess að taka frumkvæði í löggjafarmálum frá þessari stofnun, stærsta skref sem nokkurn tíma hefur verið stigið frá því að Íslendingar öðluðust fullveldi. Það er verið að færa frumkvæði í löggjafarmálum á flestum sviðum þjóðmála til fámennisveldis 17 manna framkvæmdastjórnar í Brussel. Það er verið að taka stórt skref í áttina að fullri aðild að Evrópubandalaginu. Það er verið að lögfesta hér reglur Evrópubandalagsins að 3 / 4 hlutum og gera það að íslenskum lögum ef samningur þessi verður lögfestur.
    Þeir sem stuðla að þessu máli hvort sem er með að greiða atkvæði með samningnum eða sitja hjá bera ábyrgð á því að það er verið að stíga stórt skref til baka frá þeim áföngum sem Íslendingar hafa náð í sjálfstæðisbaráttu sinni, heimastjórn 1904, fullveldi 1918 og stofnun lýðveldis 1944. Það er fásinna að ætla að njörva Ísland innan múra efnahagsbandalags í Evrópu. Heimurinn er stærri en Evrópa. Möguleikar Íslands byggja á því að halda utan um íslenskar náttúruauðlindir og um sjálfsstjórn Íslendinga. Ég segi nei.