Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:21:52 (4398)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það leikur vafi á því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið standist íslensku stjórnarskrána og þjóðinni var neitað um að fá að segja álit sitt á þessu mikilvæga máli. Verði það frv. sem hér er til afgreiðslu samþykkt er að mínum dómi verið að tengja og aðlaga íslenskt samfélag reglugerðar- og tilskipunarveldinu mikla, EB, á mjög óæskilegan hátt. Verði samningurinn um EES að veruleika þýðir það valdaafsal af okkar hálfu til stofnana EES og Íslendingar munu ekki lengur geta mótað eigin stefnu í veigamiklum málaflokkum.
    Þá dreg ég mjög í efa að samningurinn um EES færi Íslendingum þá björg í bú sem stjórnvöld láta í veðri vaka og hef ástæðu til að halda að honum fylgi verulegur kostnaður fyrir íslenskt samfélag.
    Einnig er það mín skoðun að samningurinn verði baráttu kvenna fyrir frelsi og aðstæðum til að velja sér eigin lífsfarveg ekki til framdráttar. Miklu fremur verði hann konum til trafala á leiðinni til betra þjóðfélags. Ég er þess fullviss að við getum skapað okkur góða framtíð utan EES. Ég segi nei.