Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:25:31 (4401)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í upphafi var það ætlunin að Evrópska efnahagssvæðið yrði varanleg skipan í viðskiptakerfi í Evrópu og það var markmið Íslendinga að ná fram grundvallarhagsmunum okkar í efnahagsmálum og sjávarútvegi og gera samning sem á engan hátt bryti gegn stjórnskipun lýðveldisins eða grundvallarlýðræðisreglum á Íslandi.
    Nú blasir við sú niðurstaða að það ríki í EFTA sem er tvímælalaust sterkast efnahagslega séð, Sviss, hefur hafnað að gerast þátttakandi í Evrópska efnahagssvæðinu. Meiri hluti svissnesku þjóðarinnar ákvað að ganga ekki þá braut. Önnur ríki EFTA en við hafa síðan ákveðið að yfirgefa Evrópska efnahagssvæðið og sækja beint um inngöngu í Evrópubandalagið. Færustu lögfræðingar þessa lands hafa lýst því með skýrum hætti að samningurinn brjóti grundvallarákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Síðan þeir settu það sjónarmið fram hefur enginn málsmetandi íslenskur lögfræðingur treyst sér til þess að setja fram greinargerð sem hrekur þær röksemdir.
    Með EES er Ísland að tengjast innri markaði Evrópubandalagsins. Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins lýsti því sjálf fyrir nokkrum dögum síðan að með innri markaðnum, sem Ísland er að tengjast með þessu frv., mundi atvinnuleysi í Evrópu aukast um milljónir manna á næstu árum. Þessi tenging felur þess vegna í sér aukið atvinnuleysi.
    Ég vil við þessa atkvæðagreiðslu á Alþingi lýsa niðurstöðu Alþb. í samræmi við samþykkt þingflokksins, framkvæmdastjórnarinnar og miðstjórnar flokksins. Þar kemur fram sú skýra afstaða að Alþb. hefur lagt til að gerður verði sjálfstæður tvíhliða viðskiptasamningur milli Íslands og Evrópubandalagsins í stað samningsins um EES. Það var líka tillaga þessar stofnana Alþb. að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn og tryggt yrði að hann bryti ekki stjórnarskrána. Það er einróma afstaða þingflokks Alþb. í samræmi við þessar samþykktir flokksins að greiða atkvæði gegn því frv. sem hér kemur til atkvæða. Ég segi nei.