Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:28:14 (4402)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Íslenska þjóðin hefur haft af því bitra reynslu að blanda saman viðskiptasamningi og samningi um réttindi á erlendri grund og afsal í sjálfstæðismálum. Yfir því tafli sat á sínum tíma mikilhæfasti, greindasti og harðdrægasti stjórnmálamaður sem Ísland átti og hann var ekki landráðamaður. Hann unni þessari þjóð. Það efa ég ekki. Hann náði engu að síður í þeim samningi ekki þeim árangri sem hann vonaðist til því að við bárum ekki gæfu til að halda þeim styrkleika sem við þóttumst hafa gagnvart þeim samningsaðila sem þá var samið við.
    Ég el með mér enga draumóra um að Ísland leggi undir sig Evrópu. Ég óttast það ekki að mikilhæfasti hluti þjóðarinnar fari af landi brott þó þetta verði fellt. Ég vil ekki standa að því að reynsla sögunnar verði svo forsmáð að nú blöndum við saman viðskiptasamningi og hagsmunasamningi á öðrum sviðum. Ég vil ekki standa að því, hvorki lítið né mikið, að fullveldi Íslands verði afhent sem útflutningsbætur með íslenskri framleiðslu.
    Ég vil undirstrika það að ég tel að þetta sé dapur dagur í sögu þjóðarinnar. Einn sjálfstæðismaður sagði við mig að hann ætlaði að flagga í hálfa stöng þegar þessi samningur yrði staðfestur á Alþingi Íslendinga. Ég segi nei.