Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:30:31 (4403)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Lögfesting þessa samnings í því formi sem hann er nú er markleysa. Endanlegur búningur málsins verður óhjákvæmilega annar en hér er á þingskjölum og því er þessi afgreiðsla í sjálfu sér gildislaus. Þar að auki er þetta samningur sem er efnislega óhagstæður Íslendingum. Við afsölum okkur með samningnum frumburðarrétti Íslendinga til landsins og auðlinda þess. Með samningsgerðinni leiðum við mikla erfiðleika yfir margar greinar okkar atvinnulífs. Í samningnum felst mjög mikið fullveldisafsal. Íslendingum hefur reynst fullveldið heilladrjúgt. Fullveldi er kannski mikilvægara smáþjóðum en stærri þjóðum og því er það óheillaspor að skerða það. Ég er andvígur aðild Íslands að Evrópubandalaginu og þessi samningsgerð leiðir okkur innan skamms inn í Evrópubandalagið.
    Síðast en ekki síst samrýmist þessi samningur ekki hinni íslensku stjórnarskrá. Ég hef unnið drengskaparheit að því að halda stjórnarskrána og því hlýt ég að segja nei.