Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:36:08 (4406)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ávallt þegar íslenska þjóðin hefur stigið umtalsverð skref í átt til aukins frjálsræðis og nýsköpunar, m.a. með auknu samstarfi við umheiminn, hefur það sætt ákafri andstöðu afturhalds- og kyrrstöðuafla í þjóðfélaginu. Þannig var það á 6. áratugnum þegar horfið var frá haftabúskap og pólitísku ráðstjórnarríki yfir til frjálsari viðskiptahátta og frjálsari verslunar. Þannig var það á 7. áratugnum þegar Ísland gerðist aðili að viðskiptasamstarfi EFTA-þjóðanna. Þannig var það einnig nokkrum árum síðar þegar Íslendingar efndu til samstarfs við erlenda aðila um nýtingu íslenskra auðlinda til nýsköpunar í atvinnulífi. Þannig er það einnig nú þegar þjóðin þarf á því að halda að skipa sér í samstarfshóp Evrópuþjóða til að auka atvinnu- og menntunartækifæri Íslendinga.
    Það er gæfa okkar Íslendinga að þessi afturhalds- og kyrrstöðuöfl hafa ávallt orðið undir í þessari baráttu. Það er gæfa Alþfl. að hann hefur ávallt heill og óskiptur stutt slíkar ákvarðanir sem reynst hafa gæfuspor. Með sama hætti stendur Alþfl. heill og óskiptur að þeirri þýðingarmiklu ákvörðun sem hér er verið að taka. Ég segi já.