Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 10:32:39 (4416)

     Halldór Ásgrímsson (frh.) :
    Herra forseti. Þegar ég lauk máli mínu í gær var ég að ræða þá óvissu sem fylgir loðnuveiðunum og ákvæði þess samnings sem gildir um þær veiðar milli Íslands, Noregs og Grænlands.
    Ákvæði þessa samnings og sú reynsla sem af honum hefur fengist er að sjálfsögðu hluti af mati af þessu máli. Evrópubandalagið er að framselja okkur réttindi sem það hefur keypt af Grænlendingum og verður að sjálfsögðu að meta það hvers virði þessi réttindi eru bæði í ljósi reynslunnar og líka að því er varðar framtíðina sem er mjög erfitt að leggja mat á. En verðmæti þessara réttinda helgast að verulegu leyti af því hvernig ástand loðnustofnsins kemur til með að verða og hvar hann verður veiðanlegur.
    Það er rétt að taka fram að á þeirri vertíð sem nú er hafin hafa samningsþjóðir okkar veitt utan lögsögu Íslands og hygg ég að það sé rétt að Norðmenn hafi veitt um 67 þús. lestir og Færeyingar veitt um 19 þús. lestir. Það voru bærilegar veiðar í örstuttan tíma á þessu svæði. En eins og vitað er hafa Norðmenn mjög öflugan flota sem þeir senda til þessara veiða og þeim tókst að ná þarna nokkru magni, en síðan var það ekki söguna meir. Og því miður hafa veiðar Íslendinga gengið mjög erfiðlega. Þrátt fyrir það er nokkur bjartsýni um að þetta muni allt breytast þegar loðnan kemur upp að landinu. Og við skulum vona að svo verði því ekki veitir af í okkar þjóðarbúskap. En það er eins og fyrri daginn að um það er mjög mikil óvissa og við vitum í raun aldrei fyrr en upp er staðið hvernig þessar veiðar fara.
    Það eru þessar staðreyndir sem gera það að sjálfsögðu mjög erfitt að leggja mat á virði þessara réttinda fyrir Ísland. Ég held að það sé hins vegar ekki hægt að draga í efa að á sl. ári hefðu þau ekki komið að gagni fyrir okkur og í reynd ekki á allra síðustu árum og mjög ólíklegt að það verði gagn að þeim á því ári sem nú er nýlega gengið í garð. Aftur á móti, eins og ég sagði hér í gær, látum við af hendi örugg fiskveiðiréttindi eins og best verður séð og er engin ástæða til að draga í efa að það muni breytast í náinni framtíð af þeirri einföldu ástæðu að karfinn er mjög langlífur fiskur en loðnan sveiflukenndur stofn.
    Þetta eru atriði sem að mínu mati er ekki hægt að deila um og hljóta að koma til mats þegar þessi samningur er metin af okkur. Jafnframt hljóta þessi atriði að verða til umræðu við hugsanlegar viðræður í framtíðinni hvort sem það varðar endurmat á samningi innan ársins eða hugsanlega framlengingu hans síðar meir.
    Ég hafði áður farið yfir verðhlutföll í þessu samhengi. Það hefur verið ríkt í málflutningi þeirra sem hafa mælt fyrir þessum samningi að vilja leggja á það megináherslu að nota þann verðsamanburð sem hefur verið hafður til hliðsjónar að því er varðar innbyrðis hlutföll í kvótakerfinu og vitna til laga í því sambandi. Það er alveg rétt að í 10. gr. laga um stjórn fiskveiða segir, með leyfi forseta:
    ,,Heimilt er að veiða umframúthlutað aflamark af tiltekinni botnfisktegund, allt að 5% af heidarverðmæti botnfiskaflamarks, enda skerðist aflamark annarra botnfisktegunda hlutfallslega miðað við verðmæti samkvæmt ákvörðun ráðuneytis í upphafi árs.``
    Það sem hefur verið miðað við frá upphafi í þessu sambandi hefur verið verðlag á innanlandsmarkaði samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar þó þar hafi orðið frávik, t.d. á árinu 1990 þegar þótti ástæða til að breyta því. Það var hins vegar ekki gert síðast þegar þessi stuðull var reiknaður 0,41 og ég held að það fari ekkert á milli mála að um þá lækkun sem varð þar á karfa og þessu hlutfalli má deila. Það er mjög auðvelt að halda því fram að þar hafi raskast nokkuð innbyrðis hlutföll í kerfinu.
    Það hefði að sjálfsögðu allt eins verið hægt að nýta stuðla samkvæmt heildarverðmæti í þessu sambandi. Aðalatriðið er að þetta raskist ekki innbyrðis frá ári til árs. Ef það hefði verið gert á undanförnum árum hefði það ekki skipt neinu meginmáli að því er varðar þessi innbyrðis hlutföll. En það er nauðsynlegt að nota þar sömu stuðla frá ári til árs og ekki að hringla með það fram og til baka. Á það get ég alveg fallist.
    Ég minni á það að alveg frá því árið 1987 hafa þessi hlutföll miðað við innanlandsmarkað verið nokkurn veginn 1 á móti 0,5, nokkru yfir 0,5, og milli áranna 1989 og 1990 lækkaði þetta úr 0,51 í 0,43 og þótti ástæða til þess að þar yrði ekki breyting því það var ekki í samræmi við það sem gengur og gerist í skiptum á veiðiheimildum á markaði. Þá var ákveðið að það skyldi vera sambærilegt áfram eða 0,5. En síðan lækkar þetta í 0,41. En ég hefði talið ástæðu til að það hefði verið það sama áfram. Ef hins vegar hefði frá upphafi verið miðað við heildarverðmæti er það í kringum 1 á móti 0,7 allan tímann, en fer að vísu árin 1989 og 1988 og 1990 upp í rúmlega og tæplega 0,8.
    Það er hins vegar alveg út í hött að mínu mati að þessir stuðlar, sem hafa verið notaðir af sjútvrh. að því er varðar innbyrðis skiptingu í kvótakerfinu, séu lagðir út á þann veg að þar sé um það mat á verðmætum okkar afla sem gildir í samningum við erlenda aðila að ræða. Ætli nokkrum dytti í hug að halda því fram að það ætti að nota flutningstaxta milli Reykjavíkur og Vestfjarða í samningum um flutninga milli Íslands og Evrópu? Þó þessi taxti hafi verið notaður innbyrðis í kvótakerfinu endurspeglar hann ekki þjóðhagslegt mat þessara veiðiheimilda. Og ég get ekki fallist á að hann fái slíkt vægi eins og virðist hafa verið í þessum samningi og í áliti meiri hluta sjútvn. Ég tel það ekki þjóna íslenskum hagsmunum að gefa þessu verðmætamati slíkt vægi. Og ég tel jafnframt að mat Evrópubandalagsins á hugsanlegum loðnuveiðiheimildum sé ekki til að taka mikið mark á einfaldlega af þeirri ástæðu að Efnahagsbandalagið hefur ekki veitt loðnu og eina loðnan sem þeir hugsanlega geta lagt mat á eru þau loðnuréttindi sem þeir hafa keypt af Grænlendingum. Það er e.t.v. eðlilegt að það sé nokkuð hátt mat á því því sannleikurinn er sá að Evrópubandalagið hefur borgað fyrir fyrir veiðiheimildir þær sem þeir fá frá Grænlendingum langt umfram það sem raunverulegt verðmæti þeirra er miðað við reynslu. Þetta er vitað mál. Það er hins vegar okkur algerlega óviðkomandi hvað Evrópubandalagið hefur greitt til Grænlendinga í þessu sambandi og er alveg óskylt þessu máli, enda hef ég í sjálfu sér ekki heyrt neinn blanda því inn í þetta.
    Að því er varðar önnur atriði þess sem nú er verið að leita eftir staðfestingu að af hálfu ríkisstjórnarinnar og biðja Alþingi að staðfesta, þá eru mörg atriði þess rammasamnings sem hér hefur verið gerður fullnægjandi að mínu mati. Ég tel t.d. að atriði að því er varðar eftirlit séu á margan hátt viðsættanleg og við verðum að láta á það reyna hvernig það kemur út. Ég held að það geti allir verið sammála um það, eins og við tökum fram í okkar áliti og líka kemur fram hjá minni hlutanum, að það eru heldur mörg skip sem þarna fá heimildir. Það er ótrúlegt að menn ætli sér að 18 skip stundi þessar veiðar. Þó að ég eigi ekki von á að það verði nýtt gæti svo farið. Það er líka bagalegt að það skuli vera þó þetta mörg, fimm, samtímis. En það er eins og gengur og gerist í samningum að það verður ekki á allt kosið og ég ætla ekki að fara að gera úr þessu atriði eitthvert stórmál þó ég búist við að allir geti verið sammála um að hér sé um of mörg skip að ræða.
    Að því er varðar eftirlitið er hér um samkomulag að ræða sem gerir ráð fyrir mjög mörgum löndunarhöfnum. Það er í sjálfu sér í samræmi við þennan fjölda skipa, en jafnframt er bagalegt að þær þurfi að vera svo margar og mun torvelda eitthvað eftirlit þó ég sé á engan hátt að halda því fram að það sé óyfirstíganlegt.
    Við segjum í okkar áliti að það þurfi að ganga vel frá verkaskiptingu milli Landhelgisgæslunnar og veiðieftirlitsmanna. Ég ætla ekki á þessu stigi að taka afstöðu til þess hvernig á að skipuleggja veiðieftirlitið. Það vill þannig til að hæstv. sjútvrh. er jafnframt dómsmrh. þannig að ég á ekki von á að það sé neinum erfiðleikum bundið að finna það skipulag þar á sem hentar best okkar hagsmunum. Þar þarf að koma til gott samstarf Landhelgisgæslunnar og veiðieftirlitsins. Þótt það komi vissulega til greina að Landhelgisgæslan annist þetta að öllu leyti ætla ég ekki að setja fram þá skoðun mína hér persónulega. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það þarf að nýta þá sérþekkingu sem er fyrir hendi í veiðieftirlitinu og það þarf líka að nýta þá sérþekkingu sem er fyrir hendi hjá Landhelgisgæslunni. Og það er mjög mikilvægt að samstarf þessara aðila sé sem best. Það hefur því miður borið við að það hafi orðið einstaka sinnum lítils háttar árekstrar þar á milli. Ég lít svo á að það sé gott tækifæri til þess nú, þegar hæstv. sjútvrh. er jafnframt dómsrh., að reyna að bæta það eftir því sem kostur er. Ég reyndi það líka þann stutta tíma sem ég var jafnframt sjútvrh. og dómsmrh., en tel að þar megi betur gera eins og alltaf er. --- En á þetta bendum við. Ég vil ekki taka jafndjúpt í árinni að því er varðar þetta atriði og meiri hlutinn, að þetta beri að öllu leyti að vera í höndum Landhelgisgæslunnar. Það er byggt á samtali við fulltrúa frá Landhelgisgæslunni, en það vannst ekki tími til að ræða það við yfirmenn veiðieftirlitsins sem nú er í höndum Fiskistofu þannig að ég vil á þessu stigi ekki hafa uppi fullyrðingar um það.
    Það kom jafnframt fram að það væri mikilvægt að nýta það kerfi sem nú er að ryðja sér til rúms og ég hygg að svo sé líka innan Efnahagsbandalagsins, þ.e. kerfi sem hægt er að nýta til að fylgjast nákvæmlega með ferðum allra skipa á miðum. Þessi fullkomnu staðsetningartæki hljóta að ryðja sér til rúms um alla Evrópu að því er varðar eftirlit með fiskveiðum. Það er stefna Evrópubandalagsins að nýta slíka staðsetningartækni í sambandi við eftirlit því að satt best að segja hefur það verið í molum og þeir lítið ráðið við að hafa gott eftirlit með þeim stóra flota sem er að berja á evrópskum miðum. Þetta er atriði sem sjálfsagt er að benda á og enginn ágreiningur er um í áliti því sem kemur fram bæði af hálfu meiri hluta og minni hluta sjútvn.
    Síðan er hér ákvæði um viðræður þar sem segir að það sé gert ráð fyrir að tafarlaust sé brugðist við til að koma á jafnvægi vegna ófyrirsjáanlegra líffræðilegra ástæðna. Það er vissulega eitthvað teygjanlegt hvað eru líffræðilegar ástæður en ég lít svo á að öll hegðan loðnunnar sé líffræðilegar ástæður og því beri að líta þannig á að ef hegðan hennar er með þeim hætti að það minnki gildi á nýtingu úr þessum stofni, þá hljóti íslenskir aðilar að fara fram á viðræður. Ef svo fer að þessi samningur verði staðfestur af Alþingi, sem ég tel að eigi ekki að gera, vænti ég þess að það verði farið fram á viðræður vegna líffræðilegra ástæðna sem upp kunna að koma og ég tel að megi óttast að verulegu leyti. Þótt ég sé á engan hátt ánægður með þessi ákvæði og telji þau ófullnægjandi og tryggi ekki að það jafnvægi náist sem er viðunandi, þá ber að sjálfsögðu að fara fram á slíkar viðræður og halda þar fram rétti Íslands af fullum krafti því að það verður ekki við unað fyrr en kemst á jafnvægi í sambandi við þessar veiðar. Það hefur ávallt verið okkar stefna og hlýtur að verða það til frambúðar.
    Þá vil ég jafnframt koma að því að það eru ekki ákvæði í þessum samningi að Ísland geti látið EB í té hugsanlegar veiðiheimildir sem við gætum samið um í lögsögu annarra ríkja. Nú er það svo að við höfum engar slíkar veiðiheimildir á hendi í dag, en ég minni á að við höfum samning um fiskveiðisamstarf við Færeyinga og reyndar líka við Norðmenn og þess vegna er ekki ólíklegt að það gæti hugsast hægt væri að skipta á veiðiheimildum í Barentshafi við Norðmenn og þeir fengju loðnu á móti og það væri jafnframt hægt að semja þannig við Færeyinga að við fengjum einhverjar veiðiheimildir í þeirra lögsögu. Það er staðreynd að floti EB er bæði inni í norsku lögsögunni og þeirri færeysku og að mínu mati hefði átt að láta á það reyna hvort við gætum losnað við að fá þessa togara inn í okkar landhelgi en reynt að skipta út við aðrar þjóðir.
    Um þetta höfum við talað í stjórnarandstöðunni fyrir daufum eyrum mjög lengi og hæstv. utanrrh. annaðhvort ekki svarað því eða gert heldur lítið úr því. En ég fagna því að hv. þm. Björn Bjarnason, formaður utanrmn. og frsm. meiri hluta, hefur tekið undir þessi sjónarmið og ég vænti þess að þeim verði haldið til skila í framhaldi málsins.
    Það er út af fyrir sig rétt að það er ekkert sem bannar slíka niðurstöðu á milli aðila í samningnum og þótt það sé ekki tekið fram með jákvæðum hætti, sem ég teldi eðlilegt, útilokar þessi samningur ekki slíka niðurstöðu.
    Að þessu sögðu er það okkar niðurstaða að það beri að hafna þessum samningi. Því hefur verið haldið fram að ef það væri gert væri samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði settur í verulega hættu. Ég ætla ekki að leggja endanlegt mat á það. Það hefur ávallt verið ljóst í þessum samningum eins og öllum öðrum að það þarf að taka áhættu og ef einhvers staðar á að taka áhættu, þá er það í þessu máli því að hér er um óréttmætar kröfur að ræða á okkur. Þótt þessum samningi væri hafnað er ég ekki farinn að sjá það að Evrópubandalagið mundi beita því að útiloka okkur frá hinu Evrópska efnahagssvæði. Það yrði að sjálfsögðu að reyna á pólitískt samkomulag um það einn ganginn enn. Miðað við þau ummæli sem hafa verið höfð í gegnum tíðina tel ég að það sé út í hött að ganga út frá því sem vísu að það mundi leiða til þess að sá samningur tæki ekki gildi. Það er eðlilegt að þessi samningur sé lagður fyrir Alþingi og hann metinn og ef það er mat Alþingis að í honum sé ekki jafnræði er ekkert athugavert við það þó að utanrrh. landsins sé sendur með þau skilaboð til nýrra samninga. Það er ekki komin niðurstaða um Evrópskt efnahagssvæði og ég tel ekkert athugavert við það þótt utanrrh. landsins þurfi að fara með þetta mál á ný samkvæmt því mati sem hér hefur verið lagt á málið. Þetta samkomulag er undirritað með fyrirvara um samþykki Alþingis og ég tel það vera svo augljóst að það er ekki jafnræði í þessum samningi að það beri að hafna því.
    Í ljósi þessa alls getur minni hluti sjútvn. ekki mælt með samþykki hans og leggur til að hann verði felldur. Ég vil í því sambandi vísa til þess sem ég hef sagt. Hér er ekki um jafngildar veiðiheimildir að ræða, alveg sama hvernig það er metið, hvort sem það er metið út frá verðmæti eða leigu á innlendum markaði að því er varðar aflaréttindi, og ég tel mig hafa sýnt fram á það með fullgildum rökum.
    Það er jafnframt alveg ljóst að hér er um ójafnræði að ræða að því er varðar öryggi í veiðunum. Við látum af hendi öruggar veiðiheimildir en fáum í staðinn veiðiheimildir sem ekki er hægt að reiða sig á með sama hætti og að því er varðar karfann. Ég vil jafnframt ítreka þær athugasemdir sem ég hef lýst hér að því er varðar önnur atriði þessa samnings.
    Undir nál. minni hluta sjútvn. rita sá sem hér talar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Stefán Guðmundsson og Jóhann Ársælsson. Fulltrúi Samtaka um Kvennalista hv. þm. Anna Ólafsdóttir sat fundi sjútvn.

sem áheyrnarfulltrúi og hún er jafnframt sammála þessu áliti. Það er alveg ljóst að stjórnarandstaðan á Alþingi stendur sameinuð um þetta álit og leggur til að þessum samningi verði hafnað og viðræður verði teknar upp að nýju í ljósi þess um þetta mál.