Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 11:03:36 (4418)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég skal ítreka það og ég get líka vitnað til þess hv. þm. til upplýsingar að ég fjallaði um þetta mál í ræðu sem ég flutti hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna nóvember 1989, en ég ætla ekki að fara að endurtaka það hér. Þar er í fyrsta lagi fjallað um nauðsyn þess að semja um sameiginlega stofna. Kolmunninn er sameiginlegur stofn Íslands og Evrópubandalagsins. Þar mundu koma til gagnkvæm réttindi úr þeim stofni. En þegar við stunduðum kolmunnaveiðar síðast þurftum við að hætta þeim vegna þess að við höfðum ekki rétt til að fylgja kolmunnanum inn í bresku lögsöguna. Það var fiskiskipið Eldborg sem þurfti að hætta þeim veiðum sem trúlega hefðu getað haldið áfram á þeim tíma ef samningar hefðu verið um málið eins og eru t.d. milli Efnahagsbandalagsins og Færeyinga.
    Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. að ég hef gert ráð fyrir því að þar að auki þyrfti að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir sem væru báðum aðilum hagstæðar. Ég hef hins vegar haft þá trú að það væri mjög erfitt að finna leið til að koma á gagnkvæmum veiðiheimildum sem yrðu hagstæðar báðum aðilum, enda hefur það komið í ljós. Og það er mín niðurstaða þótt hv. þm. sé því ekki sammála að hér sé ekki um neitt jafnræði að ræða og að hér sé ekki um jafngildar veiðiheimildir að ræða og því vil ég hafna þessu. En það er rétt hjá honum að það má ekki líta með sama hætti á kolmunnan því að þar er um sameiginlegan stofn að ræða og það ber að sjálfsögðu að staðfesta.