Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 11:05:35 (4419)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka þetta svar. Það staðfestir þá skoðun mína, sem ég setti fram í ræðu minni í gær um þetta mál, að það sé ekki rökrétt að álykta sem svo, eins og gert er af minni hluta utanrmn., að kolmunninn gæti uppfyllt þær kröfur sem menn gera þegar rætt er um gagnkvæmar veiðiheimildir. Það hefur aldrei verið litið þannig á. Það hefur verið litið á kolmunnan sem sameiginlegan stofn sem um þyrfti að semja sérstaklega og skipta á milli okkar og Evrópubandalagsins. Með þeim rammasamningi sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að það verði gert. Þar með er það mál úr sögunni og vonandi nást samningar um skiptingu á þeim stofni. Hitt er annað mál að það þarf einnig að semja um gagnkvæmar veiðiheimidir. Það hefur legið fyrir, eins og fram kom hjá hv. ræðumanni, og um það er ágreiningurinn nú hvort þetta séu jafngildar veiðiheimildir eða ekki. Um það getum við deilt og mismunandi hugmyndir eru uppi um það efni. En mér finnst að menn geri í þeim umræðum ákaflega lítið úr þeim þætti sem vikið var að í ræðu hv. ræðumanns varðandi eftirlitið og hinar ströngu kröfur sem við gerum til skipa Evrópubandalagsins og menn hafi ekki reiknað inn í það dæmi allt saman líkurnar á því að menn muni sækjast eftir því að koma hingað á þessum forsendum og leitast eftir því að veiða þennan karfa. Mér finnst að útreikningar á því og mat á því liggi alls ekki fyrir og hafi ekki verið nægilega reifað, hvorki af hv. síðasta ræðumanni eða öðrum sem gagnrýna þessa samningagerð á þeim grundvelli að ekki sé um jafngildar heimildir að ræða.