Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 11:07:27 (4420)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hef litið svo á að Evrópubandalaginu muni reynast kleift að veiða þennan karfa þrátt fyrir eftirlit. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það beri að nýta öll ákvæði eftirlitsins til aðhalds, þar með talið að senda skip þess á önnur veiðisvæði ef einhver meðafli er með karfanum, t.d. eins og þorskur. Ég viðurkenni fúslega að það er mikilvægt ákvæði og ber að nota það til hins ýtrasta. En hins vegar háttar þannig til að karfinn er djúpsjávarfiskur og það er yfirleitt ekki mikið um að þorskur komi með í vörpuna vegna þess að hann er veiddur á slíku dýpi og á annarri slóð. Það er hægt að veið karfann án þess að mikill meðafli sér þar með. Og miðað við þá reynslu sem er þar tel ég að ströng eftirlitsskilyrði muni ekki standa í vegi fyrir því að þessi afli náist. Það er mitt mat. Ég get ekki lagt neitt annað mat á það, hv. þm., og tel að það muni á engan hátt geta komið í veg fyrir að Evrópubandalagið nái þessum afla og því miður séu litlar og nánast engar líkur til að þarna verði um eitthvert jafnræði að ræða.