Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 11:13:02 (4423)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Eftir því sem tíminn líður kemur betur í ljós hversu rétt við, sem myndum minni hluta sjútvn. og utanrmn., höfum fyrir okkur er við höldum því fram að ekki sé um gagnkvæmni í veiðiheimildum að ræða í þessum samningi. Það kemur jafnvel stundum upp sú staða að maður hefur ekki við því að trúa. Það hefur vissulega lengi verið ljóst að pappírsloðnan sem okkur er ætluð samkvæmt þessum samningi og karfinn sem við látum í staðinn, þessi veiðanlegi karfi, eru ekki jafngildar veiðiheimildir. En þið ykkar sem hafið horft á kvöldfréttir á annarri sjónvarpsstöðinni í gær hafið væntanlega heyrt eins og ég að forsvarsmaður LÍÚ á þessu sviði heldur því blákalt fram að verðmæti loðnunnar sé ekki nema þriðjungur verðmætis karfans sem við látum í staðinn. Það staðfestir ekki einasta viðvörunarorð okkar, sem höfum varað við þeim skrípaleik sem hér virðist vera settur upp, heldur hlýtur það líka að vekja spurningar um það hve lengi LÍÚ getur staðið í því að mæla slíkum óskapnaði bót. Ég veit að þeirra aðstaða er vissulega hvorki auðveld né komin til af góðu. Hjá öllum hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og fiskvinnslu hefur verið mikið átakamál afstaðan til Evrópsks efnahagssvæðis og þar á bæ víla menn ekki fyrir sér að tengja samninginn um Evrópskt efnahagssvæði þeim samningi sem við erum hér að ræða þótt allir hafi gætt þess að formlega séð væri þar ekki um nokkra tengingu að ræða. Þetta er einfaldlega staðreynd og þar af leiðandi, þegar áður hefur verið mjótt á mununum hjá þessum aðilum um hvort stuðningur við Evrópskt efnahagssvæði hefur verið í raun eða ekki, þá hljóta að vakna spurningar.
    Ég vitna í nokkur þau atriði sem fram hafa komið hjá forsvarsmönnum útgerðar og fiskvinnslu á fundum með sjútvn. og utanrmn., a.m.k. með sjútvn. Þar hefur í fyrsta lagi komið fram að til þess samnings hafði á þeim tíma sem við hittum forsvarsmenn LÍÚ ekki verið tekin formlega afstaða. Hins vegar hafði honum ekki verið mótmælt og við vitum að þarna eru menn í mjög erfiðri stöðu að reyna að vinna við mjög þröngar aðstæður og það er fátt um svör þegar spurt er um hvort þessi samningur, eins og hann lítur nú út af hálfu Íslendinga og Evrópubandalagsins, standi sem slíkur. Ég vil líka benda á að í ályktun sem ég hef áður vitnað til frá Sambandi fiskvinnslustöðva í haust kemur fram að það er ekki talið ásættanlegt að semja um neinar veiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu, ekki um neinar veiðiheimildir, og hjá Fiskifélaginu er staðan sú að þar var mjög naumlega, með 17 atkvæðum gegn 15, samþykkt að mæla með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Þar er ég að tala um þann samning, aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu með öllum tollaívilnunum sem vissulega er óumdeilanlega langskástur hluti þessa samnings, ekki

sá hagnaður sem gert hefur verið ráð fyrir, en samt sem áður sá mesti ávinningur sem fortakslaust fæst með þessum samningi.
    Nú erum við hér að ræða þennan fiskveiðisamning og er vissulega hryggilegt að sá texti sem við okkur blasir skuli vera til umfjöllunar sem sjálfstæður óháður samningur því hann er gjörsamlega óviðunandi og það er líka hryggilegt að við skulum hafa látið teyma okkur svona langt.
    Ég hef ákveðnar áhyggjur af samningsstöðu okkar Íslendinga sem eigum nú að fara að standa í árlegu samningabrölti við Evrópubandalagið. Fulltrúar Evrópubandalagsins hafa sýnt okkur hörku og óbilgirni í þessum samningum og af þeim sökum og þeim sökum einum stöndum við nú uppi með þennan ótrúlega vonda samning. Ég kenni ekki samningamönnum okkar um, þeim var ætlað hið ómögulega, að koma saman góðum samningi við Evrópubandalagið sem fjallaði um það sem Evrópubandalagsþjóðirnar ágirnast mest af því sem við höfum fram að færa, fiskinn innan fiskveiðilögsögu okkar. Kostirnir af hálfu Evrópubandalagsins eru skýrir. Engar tollaívilnanir nema á móti veiðiheimildum. Það er útlátalaust af hálfu Evrópubandalagsins að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir ef gagnkvæmnin felst í því að láta okkur fá fisk sem þeir hvort eð er ætla ekki að veiða og hefur raunar ekki gengið að ná. Þennan fisk megum við veiða innan okkar eigin lögsögu þar sem við hefðum hvort sem er mátt veiða hann. Og ef hann fæst --- ég segi ef hann fæst --- er verðmæti hans 2 / 3 hlutum minna en af er látið. Fyrr má nú vera gagnkvæmnin. Þessu er samningamönnum okkar í þokkabót gert að hespa af hvað sem það kostar og við höfum nú lesið verðmiðann.
    Ég held að það sé rétt að virða fyrir sér það sem fram kemur í nál. minni hluta hv. utanrmn. varðandi þetta á bls. 2 þar sem rifjuð er upp afstaða Evrópubandalagins, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,, . . .  tvíhliða samningar um fiskveiðar milli Efnahagsbandalags Evrópu og Svíþjóðar, Efnahagsbandalags Evrópu og Noregs og Efnahagsbandalags Evrópu og Íslands, séu hluti af heildarniðurstöðu samningaviðræðnanna og grundvallarþáttur í samþykki þess á EES-samningnum, enda þótt þessir samningar séu aðgreindir lagalegir gerningar.
    Bandalagið áskilur sér rétt til að fresta gerð EES-samningsins uns hlutaðeigandi EFTA-ríki hafa tilkynnt bandalaginu um fullgildingu ofantalinna tvíhliða samninga. Bandalagið áskilur sér enn fremur rétt til að taka afstöðu gagnvart afleiðingunum séu samningar þessir ekki fullgiltir.``
    Það kemur fram í þessu nál. að okkur ber að sjálfsögðu að harma að ríkisstjórn Íslands hefur ekki í yfirlýsingu með EES-samningnum lýst öndverðri skoðun. Við þessar samningaaðstæður er ekki nema von að við sitjum uppi með þennan samning. Það er alveg ljóst að það var annar aðilinn, Evrópubandalagið, sem tvímælalaust hafði miklu betri samningsstöðu og það er von að samningamönnum okkar þyki að þeim hafi orðið nokkuð ágengt þar sem þeir voru að vinna vonlaust verk. En við sem komum að þessu og verðum að dæma út frá útkomunni einni saman erum ekki bundin af því hvernig stappið hefur staðið og hvernig framtíðarhorfurnar eru í augum samningamanna okkar. Við verðum að líta á það hvaða samning við erum að ræða og hvernig hann lítur út. Það erum við að gera og það er ekki falleg sjón.
    Ég tek undir þá gagnrýni sem hefur komið fram á samninginn sjálfan og það sem kannski veldur mér enn meiri áhyggjum er að ég sé ekki hvernig það verður að setjast að samningaborðinu á næsta ári með þessar staðreyndir fyrir framan sig. Þetta er staða sem ég vona að við munum aldrei þurfa að setja okkar samningamenn í. Ég dreg mjög í efa að í raun sé þingmeirihluti fyrir þessum samningi. Þetta byggi ég einfaldlega á því að það er mjög skýrt, það er mjög auðsætt hversu slæmur hann er. Það er hægt að fela ýmislegt í hinum flókna EES-samningi og verðmætamat fólks er óneitanlega mjög misjafnt, sumum er t.d. ekki eins annt um orð eins og lýðræði og fullveldi og það sem bak við þau stendur og ýmsum öðrum og þetta er alltaf ákveðið matsatriði. En þessi samningur er skýr, hann er skilmerkilegur og það er alveg augljóst hvað hann færir okkur ekki. Hann færir okkur ekki gagnkvæmar veiðiheimildir.
     Það er líka nokkuð augljóst að með því einu að hleypa skipum inn í okkar landhelgi erum við að taka áhættu. Þar með tel ég að það verði mjög erfitt að mæla honum bót þótt vissulega hafi ákveðin atriði tekist býsna vel hjá okkar samningamönnum eins og ég kem að á eftir því mér dettur ekki í hug að fara að tíunda einungis gallana, ég sé kostina líka og mér þykir fullljóst að við þurfum að meta þá. Þeir munu hins vegar gefa okkur betri samningsstöðu í framtíðinni, þeir kostir sem við samninginn eru, og því hefði verið mjög æskilegt, en kannski ekki hægt, að fá betri samning.
    Ég verð að viðurkenna að mér sýnist að við stjórnarandstæðingar höfum verið alveg sérlega hófsöm í öllu mati okkar á gagnkvæmninni því jafnvel sá maður sem opnaði þá umræðu um gagnkvæmnina sem hörðust hefur verið, hv. 1. þm. Austurl. Halldór Ásgrímsson, hefur ekki gengið lengra en það að fullyrða að loðnan væri varla nema helmingur af verðmætis karfans sem Evrópubandalagið fær innan okkar lögsögu og þetta ítrekaði hann seinast í grein í Morgunblaðinu í gær. En hann hefur samt þurft að sæta því að fá á sig ósmekklegar glósur hæstv. utanrrh.
    Ég treysti því raunar að hæstv. ráðherra reyni ekki áfram að telja okkur trú um að við höfum 20% ávinning af fiskveiðisamningnum í verðmæti veiðiheimilda talið, ég trúi því að því máli muni alla vega linna, en ég býst við að eftir því sem fleiri blanda sér í umræðuna muni staðreyndir málsins verða ljósari. Ég ítreka enn að mat þess forsvarsmanns LÍÚ sem fer með þessi mál er að verðgildi loðnunnar sé varla meira en um þriðjungur af verðgildi karfans. Auðvitað hlýtur maður að spyrja hvaða athugasemdir muni falla um hans mat fyrst hann hefur enn síður en við Halldór Ásgrímsson skoðun sem er sumum valdhöfum þessa lands þóknanleg.
    Ég leyfi mér að benda á nokkrar staðreyndir um samninga næstu ára við Evrópubandalagið. Ekki er langt í að samningur Evrópubandalagsins við Grænlendinga renni út og ef sá samningur verður ekki endurnýjaður getur Evrópubandalagið ekki einu sinni boðið okkur að veiða á útsölu loðnu í okkar eigin landhelgi. Það kann að fara svo að það gerist eða um einhverjar breytingar verði að ræða. Það hefur verið bent á að Grænlendingar voru að koma sér upp fyrsta loðnubátnum nýverið og okkur er það vel kunnugt, enda höfum við komið þar nálægt máli.
    Það vefst fyrir mönnum og það er skiljanlegt að geta í það hvað Evrópubandalagið muni vilja láta í staðinn. Fram til þessa hefur glöggt komið fram að það er í rauninni helst ekki neitt og t.d. hefur ekkert gengið að fá verðmætari tegundir sem við höfum þó sóst eftir. Það mál hefur einfaldlega ekki gengið lengra og ég efa að með samning af því tagi sem við erum með stöndum við vel að vígi í þessum samningum, en auðvitað vona ég það. Ég á hins vegar þá von heitasta að við höfnum þessum samningi einfaldlega. Þannig er hagsmunum okkar vissulega best borgið.
    Ég ætla ekki að geta mikið í hvað næst kemur upp á borðið hjá okkur, ég heyrði einn mann í hálfkæringi benda mér á að það geti vel verið að næst yrði okkur boðin 30.000 tonn af fjörfiski og sel ég það ekki dýrara en ég keypti. En fyrst búið er að bjóða okkur verðlitla pappírsloðnu gegn veiðanlegum karfa og kalla það gagnkvæmar veiðiheimildir er það auðvitað ákveðin hugmynd.
    Ég vil einnig benda á í þessu sambandi að enginn þeirra sem komu á fund þeirrar nefndar sem um þetta mál fjölluðu gat bent á fordæmi fyrir því að gerðir væru milliríkjasamningar sem byðu þjóðum upp á að þær veiddu í eigin lögsögu. Það er alveg furðulegt að vera að tíunda þetta hér. Þetta er engu að síður staðreynd því verði sú loðna sem okkur er boðið upp á veiðanleg er allt eins víst og raunar líklegast að hún náist þar og bendi ég þar á margtíunduð gögn fiskifræðinga og upplýsingar sem komu fram á fundi utanrmn. og sjútvn. með Jakobi Jakobssyni og fleiri.
    Við sem tengjumst minni hluta sjútvn. höfum varað við afleiðingum þess að gera svona málamyndasamning sem færir okkur í versta falli ekki neitt. Þetta er einfaldlega hættulegt fordæmi í samningagerð við Evrópubandalagið um fleiri atriði og það gerir ekki annað en benda okkur á hversu langt leidd við erum undir svipu EB. Þetta segi ég sérstaklega vegna þeirrar umræðu sem varð fyrir jól um það hvað mundi gerast ef við drifum ekki í því að samþykkja þennan fiskveiðisamning. Nú er ljóst að allar fullyrðingar um tímasetningar eru meira og minna út í loftið og kom okkur svo sem ekki á óvart, en það er alveg ljóst að Evrópubandalagið hefur stöðu sem minnir mest á hótanir. Og það er alveg klárt að það eru ýmsir samningamenn sem hafa áhyggjur af þessum hótunum og hafa áhyggjur af því að fara ekki alveg að því sem talið er að Evrópubandalagið vilji. Nú er hvergi sagt afdráttarlaust að það þurfi að ganga frá þessum fiskveiðisamningi á ákveðnum tíma heldur bara að það verði látið vita þegar búið er að fullgilda hann. Sú tenging sem ég rakti úr nál. er í rauninni sú tenging sem við erum að fjalla um.
    Við fyrri umr. málsins var talsvert rætt um hvernig bregðast skyldi við ef nú kæmi klárlega í ljós að við fengjum litla eða enga loðnu í okkar hlut. M.a. lýsti ég eftir því hvernig það sjálfvirka ferli yrði til að koma á réttlæti sem getið var um í fréttatilkynningu sem gefin var út í utanrrn. í tilefni þessa samnings er hann var gerður um mánaðamótin nóvember/desember. Það er ekkert slíkt sjálfvirkt ferli til. Auðvitað kom það á daginn og það lá alltaf ljóst fyrir. Það er ekki einu sinni trygging fyrir því að neitt sé skylt að gera annað en taka upp viðræður í þeim tilgangi að leitast við að koma á jafnvægi. Ef sömu orðskýringasnillingar komast í það mál og þeir sem hafa túlkað gagnkvæmar veiðiheimildir í verki býð ég ekki í það jafnvægi. Við eru berskjölduð fyrir slíkum túlkunum meðan orðalag er óljóst. Það er alveg ljóst hvers menn vænta af þessu, en við höfum ekki annað í hendi en þann texta sem gengið er frá og sá texti gefur okkur enga tryggingu. Hann gefur okkur möguleika, en hann gefur okkur enga tryggingu. Þetta hefur út af fyrir sig ekki verið hrakið. Ég hélt kannski miðað við þær fullyrðingar sem voru í þessari fréttatilkynningu að það væru einhverjir baksamningar fyrir hendi, eitthvað sem ekki hefði verið ljóst af okkar hálfu, en það kom í ljós að slíkt er ekki. Það er bara það orðalag sem þarna er, það er það sem við höfum og við höfum ekki annað.
    Í dag blasir sú staðreynd við að það er ekki sjálfgefið að EES-samningurinn verði að veruleika hvað sem þingmeirihlutanum líður hér á landi. Því miður er borin á borð fyrir okkur sú firra að sá samningur sem hér er í umfjöllun sé svo ágætur að hann geti staðið sjálfur. Ég verð að viðurkenna að það eru ekki margir sem hafa hætt sér í að halda þessu fram, en þeir eru til og það er miður. Við vitum alveg að það hentar að mörgu leyti vel vegna þess að menn kappkosta að tengja ekki fiskveiðiheimildirnar við EES-samninginn að tala svona, en þetta er tvíeggjað og þetta gæti allt eins vel orðið til að spilla fyrir okkur. Við getum illa gagnrýnt með sanni galla þessa samnings ef við ætlum jafnframt að halda því fram að hann standist sem slíkur og sé góður, enda hefur það auðvitað aldrei hvarflað að hagsmunaaðilum í sjávarútvegi að þessi samningur út af fyrir sig standi einn og sér sökum eigin ágætis. Þetta hefur verið staðfest rækilega á fundum og þetta hefur komið fram í mörgum ummælum. Samt sem áður er verið að halda í þessa hugsun og þessa skýringu og fyrir því eru auðvitað gildar ástæður. En hvar stöndum við ef við sitjum nú uppi með að knúið er á um að samþykkja þennan samning án þess að við vitum hvernig EES-samningurinn er eða hvort hann verður gerður yfir höfuð? Ég er ein þeirra sem hafa ekki sóst eftir því að hann verði samþykktur. Hins vegar veit ég það ósköp vel að í honum felast bæði kostir og gallar og það vill

svo til að þarna eru þær tollaívilnanir sem menn horfa til er þeir eru að fjalla um nákvæmlega þetta. Þarna er í rauninni hugsanlega verið í tvígang að kokgleypa ýmislegt sem okkur er ekki beint geðfellt út á það sama, þ.e. tollaívilnanir, bæði þennan samning og þá galla sem eru á EES-samningnum sjálfum. Þetta finnst mér ekki klókt.
    Ég er ein þeirra sem hafa lýst áður áhyggjum af fleiri atriðum þessa samnings. Eins og fram kemur í nál. minni hluta sjútvn., sem birt er með nál. minni hluta hv. utanrmn., teljum við að fiskiskipin sem hleypt er inn í landhelgina séu allt of mörg og einnig að löndunarhafnirnar séu svo margar að vandkvæði geti verið á því að hafa fullnægjandi eftirlit með þeim. Við skulum minnast þess að jafnvel landanir okkar eigin skipa erlendis sæta stundum gagnrýni og henni rökstuddri og við skulum ekki blekkja okkur á því að við séum að eiga við neina sérstaka engla í fiskveiðiflota Evrópubandalagsins. Það eru fordæmi fyrir því að alls konar brögðum sé beitt til að fiska meira en leyft er og við þurfum ekkert að halda að miðin við Ísland verði þar einhver undantekning. Með sífellt meiri skerðingu kvóta skipa innan Evrópubandalagsins eykst þrýstingurinn á okkur í tvennum skilningi. Það mun án efa verða knúið á um meira magn veiðiheimilda í framtíðinni og jafnframt verði þrýstingurinn af landhelgi okkar vaxandi eftir því sem þrengist að annars staðar. Um leið og við erum búin að hleypa Evrópubandalagsskipunum inn í lögsögu okkar verðum við að taka ákveðna áhættu. Hins vegar vil ég taka skýrt fram að ákvæði um eftirlit um borð má vel telja viðunandi eins og við höfum getið.
    Við höfum hins vegar, sem höfum komið nálægt minni hluta sjútvn., bent á að það vekur furðu og eykur manni ekki trú á þessari samningagerð að ekki var leitað álits Landhelgisgæslunnar. Það kom fram á fundi sjútvn. með fulltrúum Landhelgisgæslunnar að þeir höfðu ekki verið spurðir hvernig þeir vildu sjá þetta eftirlit. Þetta er ekki bara óheppilegt og gáleysislegt heldur er þetta hreinlega praktískt bagalegt því að þar á bæ þekkja menn málið vel og vita betur en nokkrir aðrir hvaða tæknibúnaðar menn hefðu frá upphafi átt að krefjast um borð í þeim skipum sem fá veiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu. Þarna hefur m.a. komið fram að frá upphafi hefði verið nauðsynlegt að Íslendingar krefðust þess að hafa INMARSAT-staðsetningarkerfi í þeim erlendu fiskiskipum sem koma á Íslandsmið. Það hefur verið bent á að þessi tækni sé að ryðja sér til rúms núna, en það er alveg klárt að hversu mikið sem hún mun ryðja sér til rúms hefur ekki verið sett fram krafa af hálfu Íslands, sem hefði þurft að liggja fyrir frá upphafi og með fullum þunga, um það að krafist sé nákvæmlega þessara staðsetningartækja.
    Eftirlitsmenn og hlutverk þeirra er mál sem hefur verið svolítið vandræðagangur í kringum. Menn hafa annars vegar verið að tala um að eftirlitsmenn þurfi að hafa staðgóða þekkingu á fiskveiðum og það er vissulega fullgilt sjónarmið. Hins vegar að þarna þyrftu að vera menn með hálfgert löggæsluhlutverk. Það er í rauninni mat ýmissa að það sé alveg nauðsynlegt og ég er ekki farin að sjá að þetta muni sameinast í þeim eftirlitsmönnum sem gert er ráð fyrir. Það hefði óneitanlega verið betra að hafa frá upphafi gert réttar kröfur. Til þess þarf að afla sér réttra upplýsinga og tala við rétta aðila. Allt þetta er til. Upplýsingarnar eru til. Það er ljóst hvert þær var að sækja og það er ljóst að það var ekki gert. Þetta gefur manni enn og aftur dálítið slæma tilfinningu fyrir þessari samningagerð allri saman.
    Ég verð að segja að Evrópubandalagsþjóðirnar, sem telja að Íslendingar hafi skuldað sér fiskveiðisamning í 20 ár eins og einn ágætur samningamaður okkar komst að orði, hljóti að vera dálítið kampakátar núna og mér þykir slæmt að það skuli vera á okkar kostnað vegna þess að það er alveg klárt að ef við samþykkjum þennan fiskveiðisamning gefum við þeim fulla ástæðu til að kætast. Hins vegar eigum við auðvitað fleiri kosta völ. Við getum hafnað þessum samningi og það er ekki hægt að ásaka einn eða neinn, hvorki samningamenn né íslenska ráðherra, ef svo verður. Sú ákvörðun mun liggja hjá Alþingi og engum öðrum og það er á ábyrgð Alþingis að taka þá ákvörðun sem er í samræmi við hagsmuni Íslendinga.
    Þessi fiskveiðisamningur þjónar ekki hagsmunum Íslendinga og þar af leiðandi er brýnt að við öxlum þá ábyrgð að taka afstöðu til hans eins og hann lítur út, eins og hann er settur fram, taka tillit til þeirra gagnrýniradda sem eru, taka tillit til þeirra sem segja að þessi samningur sé í raun marklaus eins og hann stendur en hugsanlega nauðsynlegur fylgifiskur þeirra EES-samninga sem við vitum ekki einu sinni hvert framhald verður á. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við að þetta er samningur til tíu ára. Í honum eru klárlega ákvæði um að það er ætlast til þess að samið sé á hverju ári. Það er ætlast til að samið verði um fiskveiði og fordæmi sem við höfum sett nú þegar með því að samþykkja að fá einhverjar sýndarheimildir gegn klárlega öruggri veiði Evrópubandalagsins hafa gefið tóninn og sá tónn er bæði falskur og getur jafnvel orðið skaðlegur. Við vitum að sumir tónar eru með þeim hætti að þeir geta brotið gler. Ég vona að þessi tónn þurfi ekki að hljóma því að ég veit ekki hvað hann mundi brjóta.