Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 11:44:27 (4424)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Þá þáltill. sem við erum að ræða ber að með nokkuð sérkennilegum hætti, þ.e. málatilbúnaðurinn í kringum hana er allsérkennilegur. Það má segja að hérna sé á ferðinni hvort heldur sem er tvíþættur samningur eða þá tveir samningar sem eru órjúfanlega tengdir saman.
    Í fyrsta lagi er um að ræða gagnkvæm skipti á veiðiheimildum til eins árs sem felast í 3.000 karfaígildistonnum annars vegar og 30 þús. tonnum af loðnu hins vegar og síðan er í öðru lagi gerður tíu ára samningur, rammasamningur um fiskveiðimál og lífríki hafsins, en þessi tíu ára samningur er í rauninni forsenda þess að hægt sé að vera með gagnkvæm skipti á veiðiheimildum til árs í senn. Hér er þá um annaðhvort það sem við getum kallað tvíþættan samning að ræða eða tvo órjúfanlega tengda samninga.
    En ég sagði að málið hefði borið að með sérkennilegum hætti hér í þinginu og það sem ég á við með því er að báðir þessir samningar eru gerðir í tilefni af og í tengslum við EES-samninginn. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og fiskveiðisamningurinn, bæði rammasamningurinn og árssamningurinn um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum, eru órjúfanlega tengdir af hálfu Efnahagsbandalagsins sem sést best á yfirlýsingum bandalagsins í þá veru og þessum yfirlýsingum var ekki mótmælt af hálfu íslensku samningamannanna með sérstakri yfirlýsingu og bókfærðri.
    Þessir tveir samningar, fiskveiðisamningurinn og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, hafa líka verið órjúfanlega tengdir í allri umræðu hér á landi á undanförnum mánuðum og við getum sagt árum því að það má nú fara að telja þessa umræðu í árum eða þetta samningaferli. Þessir tveir samningar, þ.e. samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði og fiskveiðisamningurinn, hafa líka verið tengdir saman af hálfu ríkisstjórnar Íslands sem sést best á erindaskiptum sem áttu sér stað milli ríkisstjórnar Íslands og Evrópubandalagsins, en þar segir, með leyfi forseta, þ.e. í fskj. 1 með þáltill.:
    ,,Samningur í formi bréfaskipta milli Efnahagsbandalags Evrópu og lýðveldisins Íslands um sjávarútvegsmál.``
    Í þessum samningi segir, og þetta er bréf frá Íslandi undirritað fyrir hönd ríkisstjórnar lýðveldisins Íslands:
    ,,Undirritun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hefur gefið Íslandi og bandalaginu tækifæri til að kanna viðeigandi leiðir til að styrkja samvinnu sín á milli á sviði sjávarútvegs.
    Í þessu samhengi hafa aðilar ákveðið að gera með sér samning um sjávarútvegsmál og lífríki hafsins.``
    Með öðrum orðum, það er talað um að tilefnið er auðvitað samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði og í því samhengi hafa menn ákveðið að gera slíka samninga.
    Þetta er sem sagt önnur hliðin á málinu. Hins vegar er því líka mjög sterklega haldið á loft í allri umræðu hérna að engin formleg tengsl séu á milli viðskiptasamningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og fiskveiðisamningsins. Þar sé um það að ræða eingöngu að binda endahnút á deilur sem staðið hafi yfir við Efnahagsbandalagið frá 1972 þegar fríverslunarsamningurinn var gerður og þegar bókun 6 var gerð. Íslendingar séu með öðrum orðum að uppfylla gamalt loforð sem þeir hafi þá gefið um að gera slíkan samning. Þessi samningur um fiskveiðimál sé síðan í innbyrðis jafnvægi og verði að metast á forsendum hans sjálfs, ekki þá í tengslum við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði.
    Þetta kemur m.a. fram í niðurstöðu meiri hluta utanrmn. í nál. þeirrar nefndar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ástæðulaust er nú á lokastigi málsins að tengja ákvörðun Alþingis í málinu við gildistöku EES-samningsins. Með því væri í raun brotið gegn þeirri 20 ára gömlu meginstefnu Íslendinga að ekki skuli blanda saman tollaívilnunum og fiskveiðiheimildum í samskiptum EB og Íslands um viðskiptamál.`` Og síðan segir: ,,Niðurstaðan, sem liggur fyrir í samningaviðræðum milli Íslands og EB um fiskveiðimál og lífríki hafsins, er í samræmi við íslenska hagsmuni.``
    Það er sem sagt verið að fara fram á að menn tengi ekki gildistöku EES-samningsins og hins tvíhliða fiskveiðisamnings nú á lokastigi málsins.
    Þetta kemur líka fram í áliti meiri hluta sjútvn. oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, en þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Um það hefur verið fullkomin samstaða á millum allra stjórnmálaflokkanna og jafnframt að tengja aldrei saman tollfríðindi og veiðiheimildir. Það er hins vegar afar mikilvægt að rugla ekki saman skiptum á veiðiheimildum og viðskiptafríðindum annars vegar og hins vegar skiptum á takmörkuðum, jafngildum veiðiheimildum.``
    Og svo segir hér síðar: ,,EB hefur frá upphafi reynt að tengja tvíhliða samninginn um sjávarútveg við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. M.a. lagði bandalagið fram sérstaka einhliða bókun í tengslum við samninginn um EES þar sem þess var freistað að hnýta saman gildistöku samningana. Íslendingar hafa hins vegar alla tíð lagt gríðarlega áherslu á að ekkert samband sé þar á milli. Engum blandast hugur um að samskipti Íslands og EB munu fara vaxandi á næstu árum og samningar um margvísleg málefni, sem varða hag beggja, eiga eftir að fara fram. Af þeim sökum er ekki hægt að undirstrika nógsamlega mikilvægi þess að hafna öllum tengingum á milli viðskiptafríðinda EB annars vegar og samningum sem varða samstarf á sviði sjávarútvegs hins vegar.``
    Hér er mjög rík áhersla lögð á að þetta sé ekki tengt, þ.e. samningur um hið Evrópska efnahagssvæði og fiskveiðisamningurinn.
    Ég verð að segja að mér finnst um ákveðinn tvískinnung að ræða í þessum málflutningi öllum, en ég segi jafnframt: Gott og vel. Við erum beðin um að meta tvíhliða fiskveiðisamninginn á forsendum hans sjálfs og það er gert með tilvísun til framtíðarhagsmuna Íslendinga, það þjóni best framtíðarhagsmunum Íslendinga að skoða þennan samning sjálfstætt og einangrað og á forsendum hans sjálfs. Ég hef ekki hugsað mér að ganga gegn áratuga hefð í þessum efnum þó að mér finnist hún orka tvímælis og ekki vil ég stuðla að því að skerða hagsmuni Íslands í framtíðinni. Ég ætla þess vegna að verða við þessari bón og

skoða þennan samning alveg sjálfstætt og á forsendum sín sjálfs, líta svo á að hann sé hér lagður fram vegna þess að menn telji að hann sé í ákveðnu jafnvægi.
    Að þessu sögðu þarf ég út af fyrir sig ekki að hafa mörg orð um samninginn séðan í þessu ljósi því að mér finnst einfaldlega ekki eftir neinu að slægjast í honum. Mér finnst þessi samningur ekki vera í jafnvægi. Mér sýnist sem við látum meira af hendi við þessa samningsgerð en við fáum. Við látum af hendi raunverulegan fisk, þ.e. veiðiheimildir sem allar líkur eru á að menn nái að veiða upp í, en við fáum pappírsfisk í staðinn, a.m.k. ef miðað er við stöðuna eins og hún er í dag í loðnumálunum. Ég viðurkenni fúslega að þessar forsendur kunna að breytast ef Grænlendingar ákveða sjálfir að nýta sinn loðnukvóta, en ýmsir telja blikur á lofti um það og að þeir séu farnir að fá sér skip til þeirra veiða, eða ef þeir ákveða að selja hann t.d. Norðmönnum þegar samningurinn við EB rennur út árið 1994. Þá er staðan einfaldlega sú að við fáum enga loðnu í stað pappírsloðnu. Ef Grænlendingar selja annaðhvort Norðmönnum þennan kvóta eða nýta hann sjálfir hefur EB einfaldlega enga loðnu til ráðstöfunar. Það er því eftir litlu sem engu að slægjast fyrir okkur þegar loðnan er annars vegar.
    Þá er rétt að hafa í huga að EB getur ekki gert sér neinn pening úr loðnunni miðað við núverandi aðstæður, þ.e. þá loðnu sem þeir hafa keypt af Grænlandi. Þeir fá ekki að veiða hana í íslenskri lögsögu eins og þeir þyrftu í rauninni ef þeir ætluðu að ná henni. Norðmenn fengju væntanlega heldur ekki að veiða hana í íslenskri lögsögu ef þeir keyptu hana af EB vegna þess að þó að Norðmenn séu aðilar að þessum samningi um nýtingu loðnustofnsins geta þeir einungis veitt innan íslenskrar lögsögu hluta af því sem þeir fá úthlutað í samræmi við þann samning eða framselt af hálfu samningsaðila, en EB er ekki aðili að þessum samningi þannig að loðnukvóta sem EB mundi láta Norðmönnum í té væri ekki hægt að veiða innan íslenskrar lögsögu miðað við þá túlkun sem við Íslendingar höfum haft á þessum samningi. EB er því að láta Íslendinga fá veiðiheimildir sem eru þeim verðlausar miðað við aðstæðurnar í sjónum eins og þær eru í dag. Okkar 3 þús. tonn af karfa hafa hins vegar fullt verðgildi hér á landi.
    Af nál. meiri hluta sjútvn. má líka sjá að nefndin á í rauninni í mestu brösum með þetta mál og ég fæ ekki betur séð en hún lendi stundum í mótsögn við sjálfa sig. Það kemur fram í nál., með leyfi forseta:
     ,,Þegar staðhæft er að Íslendingar geti veitt óveiddan kvóta Grænlendinga án endurgjalds, eftir að loðnan gengur yfir íslenska lögsögu, er um misskilning að ræða. Í 5. gr. þríhliða samningsins um veiðar á loðnu er skýrt mælt fyrir um að veiði Grænlendingar eða Norðmenn ekki hlutdeild sína á tiltekinni vertíð skuli Íslendingar leitast við að veiða magnið sem á vantar.`` --- Þar er hins vegar tekið afdráttarlaust fram að Íslendingar bæti viðkomandi þjóð þegar á næstu vertíð með sama magni af loðnu svo fremi þjóðin hafi ekki getað notfært sér veiðiheimildina af óviðráðanlegum orsökum.
    ,,Í þessu ljósi``, segir meiri hluti sjútvn., ,,er fráleitt að halda því fram að sú loðna sem Íslendingar veiða af kvóta Grænlendinga sé ókeypis.``
    Engu að síður segir nefndin svo: ,,Þegar Grænlendingar framseldu veiðiheimildir sínar til EB með 10 ára samningi gátu þeir ekki samhliða framselt þeim rétt sinn til að veiða innan lögsögu Íslendinga ef breyting á göngu loðnunnar leiddi til þess að hún yrði óveiðanleg við Grænland. Þá áhættu varð EB að bera sjálft. Síðustu árin hefur sú óskastaða komið upp fyrir Íslendinga að loðnan hefur aðeins verið veiðanleg við Ísland. Íslendingar gátu því veitt loðnuna án þess að þurfa að greiða bætur skv. 5. gr. tvíhliða samningsins því ástæður Grænlendinga fyrir að hafa ekki veitt hana sjálfir voru augljóslega viðráðanlegar.``
    Í fyrri málsgreininni kemur fram að það sé fráleitt að halda því fram að sú loðna sem Íslendingar veiða af kvóta Grænlendinga sé ókeypis. Í síðari málsgreininni kemur fram að ekki þurfi að bæta þessa loðnu vegna þess hvernig þessir samningar eru. Ég fæ ekki betur séð en nefndin sé hér í mótsögn við sjálfa sig.
    Þá má eins halda því til haga að í nál. meiri hluta sjútvn. er bent á að það séu ýmsir gallar á þessum tvíhliða samningi um skipti á veiðiheimildum og nefndin telur að það þurfi að fá frekari endurskoðun á þessum samningum að ári og það er ýmislegt nefnt í því sambandi. Það segir m.a. að það sé skoðum meiri hluta sjútvn. að við árlega endurskoðun megi undir engum kringumstæðum ljá máls á að fjölga skipum sem heimilt er að verði við veiðar í einu. Fremur væri æskilegt að fækka þeim, segir meiri hluta sjútvn., og telur þau ekki ættu að vera fleiri en fjögur í hvert sinn í stað fimm eins og nú er. Þetta telja þeir að þurfi að endurskoðast. Svo segir hér líka, með leyfi forseta:
    ,,Hins vegar er nauðsynlegt að samningurinn kveði á um aðgerðir af hálfu Íslendinga ef í ljós kemur að upplýsingar annaðhvort reynast rangar eða óhófleg töf verður á að þær berist``, þ.e. upplýsingar um aflabrögð togara EB. ,,Að því þarf að hyggja við árlega endurskoðun samningsins.`` --- Þetta er einn galli sem nefndin sér á samningnum.
    Þá segir líka hér, með leyfi forseta: ,,Rétt þykir að við árlega endurskoðun verði freistað að ná því fram að einungis skip sem búin eru þessum tækjum [þ.e. sérstökum staðsetningartækjum], fái að nýta veiðiheimildir EB innan lögsögunnar.``
    Þetta er þriðja atriðið sem þeir nefna að þurfi endurskoðunar við í sambandi við þennan samning. Og þeir segja líka að samningurinn sé ekki nægilega skýr um það atriði, þ.e. ef Íslendingar ná ekki að veiða kvótann sé samningurinn ekki nægilega skýr um það atriði, enda vitað, eins og segir hér, ,,að kröfur Íslendinga um að kvóti EB skerðist þá að sama marki náðu ekki fram að ganga. Málamiðlun tókst sem

fólgin er í 1. mgr. 2. gr. Viðauka A. Þar er kveðið á um að komi upp ófyrirséðar aðstæður geti annar aðili óskað viðræðna.``
    Og þeir segja að þetta sé ekki nógu skýrt. Þetta er fjórða atriðið sem þeir gera athugasemdir við í samningnum. Þannig er ljóst að meiri hluti sjútvn., þó hann leggi til að samningurinn verði samþykktur, hefur ýmislegt við hann að athuga. Þegar það bætist við að það má líta svo á að hann sé ekki í jafnvægi hvað varðar fiskveiðiheimildir, þá er fátt um fína drætti í þessum samningi.
    Mönnum hefur orðið tíðrætt um það á þinginu hvort bráðliggi á því að veita ríkisstjórninni heimild til að staðfesta þessa tvo samninga. Meiri hluti sjútvn. telur svo vera, það sé mjög brýnt að ríkisstjórnin fái þessa heimild, og rökin sem meiri hlutinn færir fyrir því eru í fyrsta lagi þau að með því bjóðist tækifæri til, eins og ég segi, að klippa á milli EES-samningins og tvíhliða samningsins um fiskveiðimál. Það sé alveg rakið tækifæri til þess og það tækifæri beri að nýta.
    Í öðru lagi segja þeir að ef ríkisstjórnin fái ekki heimild til að staðfesta þessa samninga sé hætta á því að EB geti veitt karfann en við fáum enga loðnu vegna þess að við getum ekki tekið loðnuna fyrri hluta ársins en EB geti tekið karfann síðari hluta ársins. Mér finnst að þessi rök vegi ekki mjög þungt og það sé ekki mikil hætta á ferðum fyrir okkur. Það eru afskaplega litlir hagsmunir í húfi ef litið er á þennan samning sjálfstætt. Ef við tökum samninginn eins og hann liggur hér fyrir eru mjög litlir hagsmunir í húfi. Ef EB nær ekki að veiða þessi 30 þús. tonn af loðnu sem þeir hafa keypt af Grænlendingums, sem ekkert bendir til, þá fellur hún í hlut Íslendinga og við þurfum ekki að bæta það á næsta ári þar sem EB er ekki aðili að samningnum um nýtingu loðnustofnsins. Í því tilviki tel ég að hagsmunir séu afskaplega litlir og lítil hætta á ferðum.
    Þessi rök um að nauðsynlegt sé og þarna sé rakið tækifæri til að klippa á milli gildistökudags EES-samningsins og fiskveiðisamningsins eru að mínu mati síðari tíma tilbúningur. Og mér finnst það bera vott um að í þessu máli sé krafsað eftir rökum og allt hirt sem hönd á festir. Það er því miður ekki nýtt í umræðum um Evrópska efnahagssvæðið á þinginu að þannig málflutningur sé hafður uppi.
    Eina hættan sem ég get séð mögulega í þessu er sú að EES-samningurinn fari í uppnám. Þetta er teórískur möguleiki. Ég held að það sé afskaplega fátt sem bendir til þess að hann fari í uppnám þó að við mundum fresta þessum fiskveiðisamningi eitthvað fram eftir árinu vegna þess að ef samningurinn verður samþykktur við 3. umr. í næstu viku eins og flest bendir til er engin ástæða til þess að ætla að þó að fiskveiðisamningurinn dragist eitthvað fari EES-viðræðurnar í uppnám.
    Eftir að hafa velt þessu máli fyrir mér og skoðað þennan samning á forsendum hans sjálfs fæ ég ekki séð að það séu nein fagleg eða pólitísk rök fyrir því að styðja þennan samning og eiginlega vil ég segja þvert á móti. Þar af leiðandi er ég aðili að því nál. sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur kynnt og legg til að samningurinn sé felldur.