Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 13:09:14 (4432)


     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég endurtek það enn einu sinni vegna þess að það virðist vera að hv. þm. skilji það alls ekki að þessir stuðlar voru ekki ætlaðir sérstaklega til samninga í alþjóðaviðskiptum. Þeir eru ekki gefnir út í því augnamiði. Það er alveg með eindæmum að menn skuli ekki skilja þetta, festa sig í þetta og hlusta ekki á nokkur rök sem koma fram.
    Að því er varðar karfann eru það góð tíðindi og ég kannast við þau að þessi rannsóknaleiðangur tókst vel. En það sem upp úr stendur er tillaga Hafrannsóknastofnunar og þeir kvótar sem eru gefnir út af sjútvrn. og við erum að nýta þá kvóta í þessum tegundum að fullu. Það má vel vera að þessar jákvæðu rannsóknir geti orðið til þess að kvótarnir verði auknir enn þá meira á næstu árum. Ég býst við því að núv. ríkisstjórn hefði notfært sér það í því slæma ástandi sem nú er ef það hefðu verið aðstæður til þess, en þær voru ekki uppi, hv. þm. Þess vegna er út í hött að vera að tala um þennan stofn þannig að þarna sé nóg af fiski.