Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 13:10:54 (4433)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég endurtek að mér þykir leitt ef ég hef komið svona illilega við einhverjar taugar í hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni. Ég vil taka það fram svo öllu sé til haga haldið að í ræðu minni áðan orðaði ég það svo að mér fyndist stjórnarandstaðan seilast um hurð til lokunnar þegar hún er að koma fram með útreikninga sína á innbyrðis verðmætavægi karfa og loðnu. Ég orðaði það svo að ég vildi leyfa mér að hugsa upphátt líka. Þess vegna kom ég með þetta dæmi. Það kann vel að vera að það sé ágreiningur á milli mín annars vegar og hins vegar hv. þm. og Hafrannsóknastofnunar um hvort nóg sé af djúpkarfa. Ég er þeirrar skoðunar að það sé miklu meira af djúpkarfa en við erum að nýta. Ég veit að það eru einstakir starfsmenn Hafrannsóknastofnunar sömu skoðunar, e.t.v. ekki allir, ég veit það ekki.
    Að því er varðar þá verðmætastuðla sem hafa mjög komið hv. þm. úr jafnvægi finnst mér málflutningur hans vægast sagt skrýtinn. Hann segir að ég og aðrir hefðum að sjálfsögðu átt að gera okkur grein fyrir því að þeir verðmætastuðlar sem hann gaf út ár eftir ár væru ekki gefnir út með hliðsjón af alþjóðaviðskiptum. Ég hefði talið, virðulegi forseti, að það væri skylda þeirra manna sem eru að puðra út þessum verðmætastuðlum á annað borð að sjá svo um að þeir endurspegli rétt markaðsverð. ( HÁ: Svo að Jón Baldvin þurfi ekki að hugsa?) Það vill svo til, hv. þm. Halldór Ásgrímsson, að Jón Baldvin ræður ekki enn þá sjútvrn., en kannski erum við sammála um að það verði hægt að gera einhverja bragarbót á því.