Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 20:49:11 (4439)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Málflutningur fylgjenda samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði hefur einkennst af fögrum lýsingum á þeim möguleikum og tækifærum sem samningurinn gefi fyrir atvinnulífið. Þar hefur mest verið talað um sjávarútveginn og bent á þær tollalækkanir sem tókst að semja um við þessa samninga. Sjálfur EES-samningurinn snýst ekki um fisk. Því var hafnað af hálfu EB að aðalatvinnuvegur Íslendinga yrði metinn gildur til jafns við aðalatvinnuvegi viðsemjendanna sem er iðnaður. EB mun því halda áfram að moka styrkjum í sinn sjávarútveg og til að standa jafnfætis í samkeppninni við þann sjávarútveg þyrfti íslenskur sjávarútvegur að fá yfir 20 milljarða á ári í beinum fjárframlögum. Samningurinn um tollaniðurfellingar, sem er raunverulega utan EES-samningsins, snerist um að EB lækkaði sína tolla af sjávarafurðum gegn því að fá aðgang að fiskimiðum við Noreg og Ísland.
    Hæstv. utanrrh. fullyrðir að Norðmenn hafi borið hluta af fórnarkostnaði sem annars hafi átt að falla í okkar hlut. Það getur verið að það sé hans skoðun, en ég hef hvergi séð að Norðmenn séu á sömu skoðun. Við komumst ekki fram hjá þeirri staðreynd að við værum að færa verulegar fórnir ef við staðfestum EES-samninginn og sjávarútvegssamninginn sem EB gerir kröfu um að við staðfestum áður en EES-samningurinn taki gildi. Þar telja þeir að þeir fái nokkuð fyrir sinn snúð og það fá þeir sannarlega.
    Þeir eru að hafa það í gegn að EB-flotinn fái að fara á ný inn í íslenska landhelgi sem við ætluðum aldrei að láta gerast. Þeir fá skuldbindingu okkar um að semja á hverju ári við þá við aðgang að fiskimiðunum hér. Þeir fá samning um skipti á veiðiheimildum, fá karfa hjá okkur en við fáum loðnu frá þeim sem er af stjórnarsinnum talið vera í jafnvægi og þeir verja hér með oddi og egg, en það er í raunveruleikanum þannig að ef íslenskum útgerðarmönnum yrði boðið að kaupa þessar heimildir og nýta þær á sömu forsendum og Grænlendingar hafa, þá mundu þeir ekki treysta sér til þess að borga nema örfáa aura fyrir. Það hefur enginn fengist til þess að reyna að veiða þessa grænlensku loðnu allt frá árinu 1986. Við höfum þess vegna fengið hana ókeypis og værum með þessum samningi að gera þeim stofninn nýtilegan á okkar kostnað.
    Við erum að gefa þeim 3 þús. tonn af karfa, hleypa þeim inn í landhelgina og lofa því að semja upp á nýtt við þá á hverju ári um aðgang þeirra að landhelginni næstu tíu árin. Forsmekkurinn liggur fyrir í fyrsta samningnum sem ég hef verið hér að lýsa. Það er reisn eða hitt þó heldur yfir þeirri ríkisstjórn og þeim sjútvrh. sem ganga fram hér á hv. Alþingi og segja að sjávarútvegssamningurinn sé í jafnvægi, standi undir sér, sé góður fyrir Íslendinga. Ef þessi fyrsti samningur er góður, hvernig verða þá hinir níu? Sjávarútvegurinn mun líklega njóta einhvers arðs af niðurfellingu tolla sem samið var um til hliðar við EES-samninginn, en á móti kemur að stjórn á útflutningnum mun tapast og verð fyrir afurðir mun lækka af þeim ástæðum. Og það er áhyggjuefni að flest sjávarútvegsfyrirtæki sem segjast vera að undirbúa sig undir EES-markaðinn ætla að fara að flytja út fersk flök. Sams konar fréttir berast frá Noregi.
    Um iðnaðinn er það að segja að við vitum af eigin reynslu hvaða árangri hann hefur náð á frjálsum markaði. Síðan 1970 höfum við haft aðgang að EFTA-markaðnum. Þar höfum við litlum árangri náð. Við höfum raunar hjakkað í sama farinu allan tímann. Það mun ekki skipta öllu fyrir hina örsmáu iðnaðarhlutdeild Íslendinga hvort markaðurinn er 80 eða 400 millj. manna. Þetta er markaður risafyrirtækja og við eigum einfaldlega engin slík fyrirtæki. Það er ábyrgðarlaus blekkingaleikur að mikla möguleika íslensks iðnaðar fyrir fólki. Það er ekkert sem bendir til þess að hér séu að rísa upp fyrirtæki sem geti keppt þar með árangri.

    Hitt sjáum við aftur á móti strax að einhver atvinnutækifæri glatast úr okkar framleiðslu og þjónustu fyrir innanlandsmarkað. Það má benda á áburðarframleiðslu sem mun leggjast af, hjólbarðasólun, tengivagnaframleiðslu og bílayfirbyggingar sem fá á sig 15% vörugjald. Það er líka ástæða til að benda mönnum á að atvinnuleysið vex stöðugt á EB-svæðinu og nýjustu tölur gefa þá vísbendingu að þar séu 12--15 millj. manna atvinnulausar. Og ekki nóg með það. Því er spáð að atvinnuleysið muni aukast áfram vegna tilkomu innri markaðarins í þessu fyrirheitna landi og halda áfram að aukast fram yfir aldamót.
    Sannleikurinn um þessar samningaviðræður í heild er sá að forsvarsmenn EB sömdu ekki um að gera eina einustu breytingu á sínum lögum eða reglugerðum eða stefnu sinni í sjávarútvegs- eða landbúnaðarmálum. Eingöngu var samið um undanþágur til skamms tíma og örfáar varanlegar undanþágur handa EFTA-ríkjunum. Þannig má raunar segja að ekki hafi verið um eiginlegar samningaviðræður að ræða af hálfu EB heldur námskeið handa EFTA-þjóðunum til að kenna þeim hvaða reglur gildi á EES-svæðinu. Tilgangur EFTA-þjóðanna var að tryggja sérhagsmuni sína hvert og eitt og að fá aðgang að mörkuðum EB án þess að láta reyra sig í þær viðjar sem EB-þjóðirnar hafa játast undir. EES-samningurinn er tilraun sem mistókst. Hvert ríkið af öðru hefur viðurkennt það með umsókn að aðild að EB.
    Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.