Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 20:55:15 (4440)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Eftir fjögurra mánaða málþóf gegn þessum EES-samningi er dapurlegt um að litast á stjórnarandstöðubekkjunum. Formaður Alþb. heldur sig fjarri og lætur vígvöllinn eftir þeim manni, Hjörleifi Guttormssyni, sem hann lýsti sem fulltrúa fortíðarinnar í sínum eigin flokki og sagðist mundu hlekkja auðveldlega ef það kynni að takast að mynda ríkisstjórn með Alþfl. og þyrfti þá ekki að hafa áhyggjur af því að EES-málið kæmist fram. Steingrímur Hermannsson, formaður Framsfl., boðar það að hann tali hér einn vegna þess að hann treystir orðið engum og allra síst varaformanni sínum. Fulltrúar Kvennalistans tala allar vegna þess að það er ekki hægt að láta sérfræðing flokksins í EES, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, tala máli skynseminnar í þessu máli. Og skoðanakannanir sýna að þeim mun meira sem þeir tala, þeim mun ráðvilltari og ruglaðri verður almenningur sem er hættur að botna upp eða niður í því hvað þetta fólk er að fara.
    Þetta er alvörumál. Við skulum spyrja einnar spurningar í upphafi. Hverjar yrðu afleiðingarnar fyrir Íslendinga ef við, einir EFTA-þjóða, höfnuðum Evrópska efnahagssvæðinu en hinar EFTA-þjóðirnar, þar á meðal keppinautar okkar, samþykktu, sem þær hafa reyndar þegar gert? Við erum öll sameiginlega þeirrar skoðunar að það er eitt mál öðru fremur sem veldur okkur áhyggjum. Það er vaxandi atvinnuleysi og erfiðleikar í okkar efnahagslífi. Flestir eru sammála um að ástæðurnar eru þrjár. Aflabrestur sem hefur keðjuverkandi áhrif; lægð í heimshagkerfinu, sem hefur m.a. þýtt frestun á álverssamningum og virkjanaframkvæmdum og þar með frestun á 2.500 hálaunastörfum, sem við ella hefðum gert okkur vonir um. Þriðja ástæðan er skuldabyrði vegna skulda frá fyrri tíð, m.a. frá 20 ára valdatíð Framsfl. Þessi skuldabyrði hvílir svo þungt á okkur að hún er helmingi meiri en allar greiðslur allra einstaklinga til allra sveitarfélaga á landinu. Við þurfum að tvöfalda þá upphæð svo hún samsvari afborgunum og vöxtum af skuldum okkar á ári.
    Við ráðum ekki við heimshagkerfið og skuldabyrðin er orðinn hlutur. En ef við hugsum til fólksins úti á landi, ef við hugsum til kreppu sjávarútvegsins, þá getum við a.m.k. velt einni spurningu fyrir okkur. Hvað getum við gert til þess að skapa okkur meiri verðmæti úr minni afla? Um það snýst von þessa fólks úti á landi sem starfar við sjó, sem starfar í fiskvinnslunni. Á því byggjast vonir þeirra um atvinnu á komandi mánuðum og missirum.
    Um hvað er þetta EES? Við lifum á fiski. Lítum á það út frá hagsmunum sjávarútvegsins. 80%, 4 / 5 hlutar af okkar sjávarvöruafla fara á þennan markað. Ef við ætlum að gera meiri verðmæti úr minni afla, þá er okkur lífsnauðsyn að njóta a.m.k. sömu viðskiptakjara og keppinautar, að þurfa ekki að borga hærri tolla vegna þess að það lækkar okkar verð, að fá tækifæri til nýsköpunar, fá tækifæri til þess að skapa hér háþróaðan matvælaiðnað, að komast inn á neytendamarkaðina. Og það eru tugir íslenskra fyrirtækja sem hafa notað sl. ár til þess að búa sig undir þetta og hafa meira að segja orðið fyrir skaða vegna þeirra tafa sem þegar hafa orðið á gildistökunni.
    Hver er árangurinn fyrir sjávarútveginn af EES? 96% tollfrjáls markaðsaðgangur, er það eitthvað til að forsmá? Lækkun tolla til jafns við keppinautana, er það eitthvað til að forsmá? Ný tækifæri til vöruþróunar, dýrari framleiðslu til þess að færa vinnu sem áður var flutt út úr landinu inn í landið, er það eitthvað til forsmá á tímum atvinnuleysis þegar það er meginkvíðaefni fólks: Höldum við atvinnunni? Að ná þessum árangri, án þess að þurfa að semja um einhliða veiðiheimildir fyrir Evrópubandalagið, án þess að samþykkja fjárfestingarheimildir Evrópubandalagsins í íslenskum sjávarútvegi, er það eitthvað til að forsmá? Það er þess vegna sem 16 samtök atvinnuveganna á Íslandi skora á hið háa Alþingi að hætta þessu þófi, að láta hendur standa fram úr ermum, að afgreiða málið, vegna þess að fólk hér utan dyra hefur annað við sinn tíma að gera. Án samningsins um Evrópska efnahagssvæðið mundi fólkið úti á landi í fiskvinnslunni þurfa að sæta þeim kostum að eftirlitsmenn frá EB kvæðu upp úrskurði um það hvort viðkomandi fiskvinnslustöð fengi heimild til þess að flytja út á þennan markað, sem tekur við fjórum fiskum af fimm, rétt eins og gerðist fyrir nokkrum árum. Þá værum við aldeilis búnir að ofurselja framtíð okkar

kommissörum í Brussel.
    Það er lengi hægt að tíunda kosti EES-samningsins. En við skulum vitna til opinberrar stofnunar eins og Þjóðhagsstofnunar. Hún hefur lagt fram varfærnislega útreikninga um það að EES-samningurinn muni færa okkur á einu ári um það bil 1,5% viðauka við okkar landsframleiðslu, þ.e. upp á um 7 þús. millj. kr.; að það gæti þýtt kaupmáttaraukningu á Íslandi á ári um 3%. Að afkoma sjávarútvegs gæti batnað um u.þ.b. 3,3% sem er nokkurn veginn það sem á vantar til þess að endar nái saman. Ég endurtek að þetta er samkvæmt varlegum útreikningum. Ég gæti að vísu vitnað í Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrv. fjmrh., sem var sýnu bjartsýnni þegar hann gaf út skýrslu fyrir hönd fjmrn. fyrir seinustu kosningar. En þetta er sá fórnarkostnaður sem við yrðum að færa ef við höfnuðum þessum samningi. Ég segi fyrir mig: Launþegaforingjar sem berjast gegn þessum samningi, ég segi við þá: Guð fyrirgefi ykkur því þið vitið ekki hvað þið gerið, á sama tíma og atvinnuástand á Íslandi er eins og það er. Sannleikurinn er sá að þetta er ábyrgðarlaus málflutningur og stjórnarandstaðan sem ræðst að ríkisstjórn einkum fyrir það að hún sé aðgerðalaus í efnahagsmálum, en vakir svo dag og nótt vikum og mánuðum saman við að koma í veg fyrir að þetta tækifæri nýtist okkur, ég spyr: Á hvaða leið er slík stjórnarandstaða?
    Eigum við annan kost? Þeir segja: Ja, við viðurkennum sum að það sé nú efnahagslegur ávinningur í þessu en við viljum bara frekar ná þessu með tvíhliða samningum. Sviss felldi EES-samninginn og hefur fengið þau svör frá Evrópubandalaginu að sá sem fellir þennan samning og viðskiptaþátt hans þar með þarf ekki að eiga von á því að fá einhverja sérstaka meðhöndlun í tvíhliða samningum. Heldur einhver hér því fram að ef við yrðum neydd í tvíhliða samninga næðum við sama samningsárangri eins og í þessum samningi þar sem fórnarkostnaðurinn var m.a. greiddur af Norðmönnum, Svisslendingum og Austurríkismönnum? Hafið þið litið á tvíhliða samning Færeyinga, þið sem gagnrýnið samninginn um skipti á veiðiheimildum okkar? Hafið þið litið á hann? Með á annað hundrað skipa í færeyskri lögsögu og skipti á veiðiheimildum sem nemur um 15% af heildarafla Færeyinga? Hafið þið litið á hvaða kjör Austur-Evrópa hefur fengið í tvíhliða samningum við Evrópubandalagið?
    Þá segja menn: EFTA er hvort eð er að leysast upp og Ísland getur að lokum orðið eina landið sem eftir er. Já. Og breytist þá ekki samningurinn í það sem þið eruð að óska eftir, í tvíhliða samning um viðskiptaþáttinn? Hætta þá ekki þessar stofnanir sem margir hafa dregið upp þá mynd af að þýði framsal á valdi, EFTA-dómstóll og eftirlitsstofnun? Þær falla niður. Þá er væntanlega létt áhyggjum af ykkur, þótt rangar séu, um framsal á valdi. Þá mundi þessi tvíhliða samningur sem verið er að biðja um verða orðinn hlutur. Sumir segja hins vegar í hinu orðinu: Það er ekki hægt að treysta þessu vegna þess að skoðanakannanir slá því ekki beinlínis föstu að Noregur eða Svíþjóð muni samþykkja inngöngu í Evrópubandalagið.
    Þriðju röksemdirnar sem menn nota gegn þessu eru þær að sá árangur, sem náðst hefur, sé of dýru verði keyptur. Að við höfum fallist á einhliða veiðiheimildir. Það er rangt. Það er sannanlega fleipur. Við höfum gert samning um skipti á loðnu og karfa. Það er 0,26% af okkar heildarafla. Þeir segja: Fyrirvörunum var sleppt sem Steingrímur lagði upp með. Fyrsti fyrirvarinn var sá að heimila ekki fjárfestingar útlendinga í útgerð og fiskvinnslu. Sá fyrirvari stendur og er varanlegur og það getur enginn neitað því. Þeir segja: Það er búið að framselja orkulindirnar okkar. Það er rangt. Einokun ríkis og sveitarfélaga við nýtingu á orkulindum stendur og það þarf engan fyrirvara um það. Ef við viljum einkavæða orkufyrirtækin, þá eru hér á leiðinni frv. á Alþingi Íslendinga og Alþingi er í lófa lagið með því að samþykkja þau að lýsa þjóðareign á þessum orkulindum. Þá er það vandamál leyst.
    Þeir segja: Útlendingar munu kaupa upp jarðirnar okkar.
    Fyrrverandi samstarfsaðili minn, hæstv. fyrrv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, fól Steingrími Sigfússyni, þessum sem þarna situr, að skila girðingafrv. um jarðakaupin í tíð fyrri ríkisstjórnar. Hann sveikst um það. Nú hefur hæstv. landbrh. lagt það hér fram. Þá koma menn og segja: Ja, þetta eru bara allt of miklar kvaðir. Það er varla hægt að selja hér jarðir. Þetta var beðið um, þetta fengu menn. ( Gripið fram í: Styður þú þetta frv.?) Já, ég styð það. Menn segja: Landið fyllist af útlendu fólki. Þetta er rangt. Það eru öryggisákvæði í þessum samningi sem tryggja það að íslensk stjórnvöld hafa fullt vald á því máli. En menn geta síðan litið til reynslunnar. Hvað eru margir Íslendingar sem búa í útlöndum? Tæplega 20 þúsund. Hvað eru margir Skandínavar sem búa á Íslandi? 1.800. Það er mikið atvinnuleysi í Finnlandi, 20%. Hér er það 3%. Hafa Finnar flykkst hingað? Það eru rækilegar skorður við þessu þannig að það er tryggt að öllum fyrirvörunum sem Steingrímur Hermannsson lagði upp með í samfylgd með mér var til skila haldið. Verður fjárflótti úr landi? Eru menn ekki að tala um það að á Íslandi séu hæstu vextir í heimi? Er mikil hætta á því? Leitar ekki fjármagnið þangað sem það fær bestu ávöxtunina?
    Er verið að leggja íslenskan landbúnað í rúst? Það er rugl. Þessi samningur er ekkert um landbúnaðarmál. Útilokar þetta okkur frá því að byggja upp markaði annars staðar? Alls ekki vegna þess að þetta er ekki tollabandalag. Við erum jafnfrjáls að því að gera viðskiptasamninga við aðrar þjóðir eins og við höfum alltaf verið og erum að því um alla Austur-Evrópu. Við lýsum því yfir að við viljum ná fríverslunarsamningum við Bandaríkin og Kanada. Er kostnaðurinn af þessu að sliga okkur? 200--250 millj. í samanburði við vinningsvon upp á 7 milljarða? Nei. Þessi málflutningur dugar ekki. Hann einfaldlega dugar ekki.
    Er verið að selja landið?

    Góðir hlustendur. Hvenær minnist þið þess þegar Ísland hefur stigið virkilegt framfaraspor í samstarfi við aðrar þjóðir að ekki hafi verið gripið til slíkra svikabrigsla? Inngangan í Atlantshafsbandalagið sem enginn deilir um að var rétt. (Gripið fram í.) Inngangan í EFTA sem enginn deilir um að var rétt. Sú bylting sem varð á viðreisnarárunum þegar haftakerfinu var aflétt og við stigum fyrstu skrefin í átt til opins markaðskerfis. Hverjir voru á móti þessu? Hverjir brugðust alltaf við með landráðabrigslyrðum? Það var fortíðarliðið í Alþb., það var landbúnaðaríhaldið í Framsókn. Og nú er kominn hér nýr flokkur, fylgikonur allaballa í þessari afturhaldssemi í Kvennalistanum. Þetta eru sömu öflin sem hafa haft rangt fyrir sér í hverju einasta stórmáli lýðveldisins allan tímann. Þeir menn, sem eru arftakar gamla Kommúnistaflokksins og Sósíalistaflokksins, undir forustu Hjörleifs Guttormssonar, mannsins frá Dresden, fjölfætlufræðingsins frá Leipzig, eins og Garðar Sigurðsson, fyrrv. þm. Alþb., kallaði hann, --- þessir menn sem trúðu á sínum tíma á framtíðardrauminn um Sovétríkin, og höfðu auðvitað rangt fyrir sér, þessir menn sem hafa barist, lagt dag við nótt með aðdáunarverðum dugnaði og aðdáunarverðri stefnufestu gegn öllum helstu framfaramálum, en hafa alltaf haft rangt fyrir sér --- hver trúir því nú að þeir hafi rétt fyrir sér? Hver trúir nú á ómagaorðin sem þeir notuðu við inngönguna í EFTA um að það mundi binda endi á íslenskt sjálfstæði, það mundi verða framsal fullveldis eða eitthvað þess háttar? Þetta eru allt saman staðlausir stafir, ýkjuáróður, hræðsluáróður, en ómerkilegur áróður.
    Það er fjarstæða að þessi samningur sé um framsal á fullveldi. Í honum felst ekkert afsal á löggjafarvaldi. Þessi samningur fer ekki í gegn og verður ekki partur af íslenskum lögum nema Alþingi samþykki. Sama máli gegnir um breytingar á honum.
    Lausn deilumála. Er verið að framselja vald í hendur erlendum dómstólum eða erlendri stofnun eins og eftirlitsstofnuninni? Ég spyr. Ef við ætlum að eiga viðskipti við aðrar þjóðir og upp koma deilumál, halda menn að Ísland hafi lögsögu eða dómsögu í þeim málum? Ef við ætlum að spila fótbolta við Dani, haldið þið að við förum eftir séríslenskum reglum á íslenska vallarhelmingnum? Haldið þið að við höfum íslenskan dómara til að dæma? Nei. Þessi líking er nákvæmlega rétt. Þegar íslensk fyrirtæki eiga í milliríkjaviðskiptum, sem heyra undir samkeppnisreglur EES, þ.e. á takmörkuðu sviði, þá þurfum við eins og í landsleik í knattspyrnu hlutlausan dómara. Og er það bannað í stjórnarskránni? Nei. Er það afsal á valdi? Nei. Vegna þess að það er á valdi Alþingis að gera slíka samninga. Það er á valdi Alþingis að samþykkja slík lög. Alþingi hefur samþykkt marga slíka lagabálka, þar á meðal allir þeir sem hér eru í stjórnarandstöðu, þ.e. þingmenn Framsóknar og Alþb. í tíð fyrri ríkisstjórnar.
    Og þegar þessar staðreyndir eru settar fram af sérfræðingum sem kvaddir eru til, þeir sem íslenskt þjóðfélag hefur valið til að gegna þeim störfum að vera prófessorar við Háskóla Íslands í stjórnskipunarrétti og Evrópurétti, þá er sagt: Nei, nei, þessir menn eru allir saman handbendi Jóns Baldvins. Það er ekkert mark takandi á þeim. En ef pöntuð er álitsgerð frá ungum manni, sem reyndar er sérfræðingur í frumbyggjarétti, þá er hann allt í einu orðinn fremsti þjóðréttarfræðingur Íslands fyrr og síðar. Á svona nótum er umræðan, virðulegi forseti.
    Ég vék að því í upphafi að nú væri svo komið eftir fjögurra mánaða málþóf stjórnarandstöðunnar að formaður Framsfl. treystir orðið engum í sínum flokki nema sjálfum sér, hann talar einn, ,,Ein Volk -- Ein Führer``. Formaður Alþb. er horfinn á braut til þess að þurfa ekki að hrista hér framan í fólk fortíðarhlekki Hjörleifs Guttormssonar á hans úlnliðum. Og Kvennalistinn talar hér í einum kór en tveimur röddum. Það ætlar að koma á daginn að það hafi verið nokkurn veginn rétt sem ég spáði fyrir löngu síðan hvernig þetta mundi fara. En leiknum er ekki lokið. Þjóðin bíður eftir því að Alþingi Íslendinga geri skyldu sína og afgreiði þetta mál. Fólk er kvíðið um atvinnu sína. Það hefur ekki tíma til þess að hlusta á meira málþóf.