Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 21:28:52 (4442)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Senn líður að lokum umræðna um hið Evrópska efnahagssvæði. Það hefur vakið nokkra athygli að Alþingi Íslendinga hefur tekið meiri tíma í slíkar umræður en öll þjóðþing hinna EFTA-ríkjanna til samans og vissulega hefur þessi umræða verið löng en því miður hefur hún iðulega eingöngu verið á lengdina en ekki að sama skapi markviss og efnisrík. Þeir sem vel þekkja til samningsins sem hér hefur verið rætt um hafa stundum ekkert vitað hvaðan á þá hefur staðið veðrið undir þeim fullyrðingum sumum sem fram hafa komið um efni hans.
    Auðvitað er það svo að samningur sem margar þjóðir koma að verður aldrei klæðskerasniðinn eftir þörfum einnar þjóðar. Það hefur auðvitað heldur ekki verið gert í þessu tilviki. En þær ógnir og skelfingar sem samningurinn á að hafa í för með sér fyrir Íslendinga að mati þeirra andstæðinga hans hér í þinginu sem lengst hafa seilst eru ekki bara fráleitar fjarstæður heldur fremur hugarburður og skáldskapur en raunveruleiki.
    Því hefur jafnan verið haldið fram að gervöll stjórnskipun landsins mundi riðlast og komast á hverfandi hvel ef af samningnum yrði. Alþingi Íslendinga og dómstólar landsins yrðu sett til hliðar og önnur og óskyld erlend öfl tækju við hlutverkum þeirra. Og því hefur verið haldið á loft að jarðir, fossar og fjöll og fyrirtæki landsmanna mundu færast á erlendar hendur og hingað mundu flykkjast milljónir af atvinnuleysingjum og hirða vinnuna af heimamönnum.
    Það hafa ekki virst nein takmörk vera fyrir því hversu langt menn vilja ganga í hræðsluáróðri sínum. Og stundum hafa þeir gengið lengst, eins og menn heyrðu rétt áðan úr þessum ræðustól, sem í tæp tvö ár voru í forustu fyrir því að koma þessum samningi á.
    Ég segi fyrir mig og minn flokk að væri fótur fyrir slíkum dómadags hrakspám kæmi ég ekki nálægt slíkri samningsgerð. En það er einmitt mergurinn málsins að það er ekki fótur fyrir þessu skelfingartali. Og fólkið í landinu spyr og það er von að það spyrji: Hvers vegna í ólsköpunum gerðu forustumenn Framsfl. og Alþb. allt sem þeir máttu í tvö ár til að koma þessum samningi á ef hann er slíkur háskaleikur með fjöregg þjóðarinnar? Það hefur margoft verið sagt að þessir menn skuldi þjóðinni skýringar, en þær hafa ekki komið. Formaður Framsfl. hefur reyndar reynt að klóra hér í bakkann eins og kom fram hér áðan og sagt að samningurinn hafi snarbreyst til hins verra frá því sem hann var þegar hann barðist fyrir því að þessi samningur yrði samþykktur. Hér talar hv. þm. Steingrímur Hermannsson gegn betri vitund. Engar meginefnis- né eðlisbreytingar hafa orðið á þessum samningi frá því að hann var að berjast fyrir því að samningurinn kæmist á.
    Já, vissulega hefur umræðan verið mikil, en spyrja má hvort hún hafi náð út út þessu húsi og til þjóðarinnar og hverju hún hafi þá skilað. Í upphafi umræðna bentu kannanir til þess að verulegur meiri hluti þjóðarinnar væri málinu andvígur. Við erum öll eðlislega andvíg og jafnvel hrædd við flókna og óþekkta hluti. Þegar slík mál skýrast gerist oftast annað tveggja: menn herðast í andstöðu sinni eða að þekkingin og upplýsingarnar kalla menn til fylgis við það mál sem þannig er kynnt. Það er einmitt það síðara sem hefur gerst núna. Eftir því sem menn fá meiri fróðleik um málið því meir eflist stuðningur við það.
    Formenn Framsfl. og Alþb. ákváðu eftir síðustu kosningar að hafa pólitík fataskipti. Hætta að styðja samninginn um EES og leggjast nú gegn honum. Þetta gerðu þessir forustumenn ekki vegna þess að samningurinn hefði breyst til hins verra heldur vegna þess að staða þeirra tveggja hafði breyst til hins verra. Þetta er ekki sannfærandi framkoma og hún er ekki rishá. En vegna þessarar sérkennilegu kúvendingar hv. þm. Steingríms Hermannssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar vissi þjóðin ekki annað þegar EES-umræðan hófst í þinginu í ágúst í sumar en að samningsgerðin hefði stuðning 34 stjórnarsinna en á móti væru 27 stjórnarandstæðingar og tveir stjórnarsinnar. En í sögulegri atkvæðagreiðslu sl. þriðjudag kom endanlega í ljós að andstæðingum samningsins hafði fækkað um sex frá því að umræður hófust. Þetta voru auðvitað mikil tíðindi og þessi afstöðubreyting var augljóslega ekki tekin út með sældinni. Þannig hefur það vakið athygli að formaður Framsfl., hv. þm. Steingrímur Hermannsson, hefur aldrei verið í þingsalnum þegar framsóknarmennirnir kynntu þá afstöðu sína að þeir vildu ekki leggja steina í götu EES-samningsins. Hann getur því kannski ekki vitað að sú ræða sem hann flutti áðan var ekki í neinu samræmi við þær ræður sem þeir hv. þm. fluttu, mjög málefnalegar ræður. Hann getur þó hugsanlega í seinni umferð flutt ræðu sem er sammála þeim ræðum. Að vísu verður hann þá ósammála sjálfum sér í fyrri ræðunni, en hann getur þá notað ræðu sem hann flutti þegar hann var að berjast fyrir aðild okkar að EES-samningnum á síðasta kjörtímabili og fer létt með það. En þó hv. þm. væri ekki í salnum gættu forustumenn Alþb. sín vel á því að mæta vel við þessi tækifæri og þeir hirtu og spottuðu viðkomandi þingmenn framsóknar og kvennalista rétt eins og þeir hefðu áskilið sér húsbónda- og agavald yfir þeim.
    En hvað sem þessu líður er ljóst að umræðan hefur þrátt fyrir allt orðið til góðs. Þeim sem styðja samninginn efnislega hefur fjölgað jafnt hjá þingi og þjóð. Þjóðin hefur hafnað þeim ámátlega hræðsluáróðri sem helst virðist byggjast á mikilli minnimáttarkennd fyrir þjóðarinnar hönd, minnimáttarkennd sem þjóðin er ekki haldin. Það eru góð meðmæli með máli að því meiri umræða sem það fær því fleiri fylgjendur fær málið. Það eru bestu meðmæli sem mál getur fengið sem tekist er á um.
    Mér hefur þótt undarlegt hvað álit manna hér á Alþingi hefur í mörgu verið ólíkt því sem gerist með öðrum þjóðum. Þegar samningurinn um EES var naumlega felldur í Sviss spratt á fætur hver andstæðingur samningsins eftir annan og hélt því fram að nú væri EES úr sögunni, Sviss hefði afgreitt málið fyrir Íslendinga. Slíkar raddir heyrðust ekki annars staðar á Norðurlöndum eða í Austurríki. Þar töldu menn auðvitað að þjóðirnar tækju slíkar ákvarðanir sjálfar og engin þeirra taldi úrslitin í Sviss neina efnisbreytingu hafa í för með sér fyrir þær þjóðir og þá auðvitað ekki heldur fyrir okkur.
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Megininntak samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði er að tryggja að þjóðirnar, þær stóru og þær smáu, fái að eiga viðskipti sín á milli á jafnréttisgrundvelli. Á slíkum grundvelli höfum við Íslendingar einmitt viljað eiga okkar viðskipti. Með samningnum eru okkur tryggð þau viðskiptakjör sem við megum ekki vera án á okkar langmikilvægustu mörkuðum. EES er fyrst og fremst tæki til að tryggja okkur hagstæðustu viðskiptaskilyrði og réttaröryggi á þessum stóru mörkuðum. En það er margt annað sem mikilvægt er. Við skulum ekki gleyma því að í EES-samningnum er rík

áhersla lögð á að auka rétt einstaklinga og fyrirtækja en setja skorður við ofríki stjórnvalda gagnvart þessum aðilum.
    Samningnum er einnig beint gegn hömlum af margvíslegu tagi. Í honum felst því aukið frelsi fyrir einstaklinga og fyrirtæki, meiri hagkvæmni, lægra vöruverð og betri lífskjör. Það er einmitt af þessum ástæðum sem íslenskt atvinnulíf hvetur til samþykktar samningsins. Það er af þessum ástæðum sem íslenskir neytendur hvetja til samþykktar samningsins. Og það væri af þessum ástæðum og mörgum öðrum veigamiklum ástæðum ekki aðeins ástæðulaust að hafna EES-samningnum, það væri glapræði að hafna honum. Þeir menn sem hvetja til þess að svo verði gert hafa ekki í huga hagsmuni þessarar þjóðar, hvorki í bráð né lengd. --- Ég þakka áheyrnina.