Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 21:50:36 (4445)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Utanrrh. sagði áðan að Kvennalistinn talaði í kvöld í einum kór en tveimur röddum. Líklega hefur ráðherrann aldrei sungið í kór, en ég get upplýst hann um að kvennakór er aldrei færri en tvær raddir og blandaður kór er jafnvel fjórar. Það er talið að söngurinn verði samfelldari, samstilltari og hljómi betur því fleiri raddir sem í kórnum eru. ( Utanrrh.: En tveir stjórnendur.)
    En það er nokkuð ljóst eftir þá atkvæðagreiðslu sem fór fram á Alþingi í gær að þetta frv. um Evrópskt efnahagssvæði verður samþykkt. Það mun gerast þrátt fyrir það, sem er staðreynd í málinu, að samningurinn hlýtur að breytast verulega við það að Sviss hefur fellt hann. Raunar stenst það ekki lengur, sem í frv. segir, að þetta sé samningur milli EB og EFTA-ríkja. Það er því alveg furðulegt að íslenskir ráðamenn skuli enn halda því fram að ekkert sé því til fyrirstöðu að samþykkja EES-samninginn óbreyttan. Seinna megi svo samþykkja þingsályktun eða frumvarp þar sem breytingarnar séu tilteknar. Hvað finnst þjóðinni um þau vinnubrögð á Alþingi að samþykkja frv. sem nú þegar er vitað að verður að breyta? Það eru léleg vinnubrögð að mínu áliti.
    Síðan er það atriði sem hefur verið mikið deilt um, það er hvort samningurinn standist stjórnarskrána og þá sérstaklega 2. gr. hennar. Allir viðurkenna raunar að þarna sé mikill vafi á ferðinni. Deilt er um hve mikill sá vafi er, en allur vafi ætti að túlkast stjórnarskránni í vil og Alþingi ætti ekki að samþykkja lög þar sem slíkur vafi er fyrir hendi.
    Þá er það einnig viðurkennt að hér sé um eitt stærsta mál að ræða sem við höfum staðið frammi fyrir frá stofnun lýðveldisins og því eðlilegt að þjóðin væri spurð álits, en tillaga um þjóðaratkvæði var felld á Alþingi með naumum meiri hluta eins og kunnugt er.
    Öll þessi atriði eru nægilega sterk rök fyrir því að fella þetta frv. til laga um Evrópskt efnahagssvæði.
    Síðan eru það efnisatriði EES-samningsins og þeirra samninga sem honum tengjast. Þar tel ég að stærsta málið sé að EB hefur sett það skilyrði fyrir samþykkt EES-samningsins að gengið sé frá tvíhliða sjávarútvegssamningi um gagnkvæmar veiðiheimildir í lögsögu ríkjanna, eins og það heitir. Hér er verið að hliðra til sannleikanum því í þeim sjávarútvegssamningi sem hér liggur fyrir er alls ekki um gagnkvæmar veiðiheimildir að ræða. Við erum að opna fiskveiðilögsögu okkar fyrir skipum frá EB, t.d. Spánverjum eða Portúgölum. Við fáum ekkert í staðinn, nákvæmlega ekkert. Þau 30.000 tonn af loðnu sem við eigum að fá í staðinn fyrir 3.000 tonn af karfa eru í fyrsta lagi ekki í fiskveiðilögsögu hins aðilans, þ.e. EB-ríkjanna, og í öðru lagi er hér um íslenska loðnustofninn að ræða. Í þriðja lagi er þetta loðna sem við getum fengið að veiða hvort sem er. Loðnan veiðist yfirleitt ekki fyrr en hún er komin inn í okkar lögsögu og þá veiðum við hana ef stofninn er nógu stór til þess.
    Svo eru stjórnarsinnar að reyna af veikum mætti að telja þjóðinni trú um að nauðsynlegt sé fyrir okkur að gera þennan sjávarútvegssamning til þess að við fáum að veiða þessa loðnu og það sé fjarstæða að tengja samþykkt hans við EES-samninginn. Samt er í meginmáli EES-samningsins, sem hafa mun lagagildi hér á landi, skýr yfirlýsing frá Evrópubandalaginu þess efnis að bandalagið telji að tvíhliða samningur um fiskveiðar milli EB og Íslands sé hluti af heildarniðurstöðu samningaviðræðnanna og grundvallarþáttur í samþykki þess á EES-samningnum.
    Þá áskilur bandalagið sér rétt til að fresta gerð EES-samningsins uns tilkynnt hefur verið um fullgildingu tvíhliða fiskveiðisamnings. Bandalagið áskilur sér enn fremur rétt til að taka afstöðu gagnvart afleiðingunum sé sá samningur ekki fullgiltur.
    Í þessari yfirlýsingu EB er ekki nokkur vafi á því að þetta hangir allt á sömu spýtunni. Fram að þessu hafa íslensk stjórnvöld staðið fast á þeirri skoðun að það kæmi ekki til greina að selja aðgang að fiskimiðum fyrir tollalækkanir erlendis. Hér er því brotið í blað því núverandi íslensk stjórnvöld hafa ekki gert athugasemd við þessa yfirlýsingu EB.
    Þegar farið var af stað í samningaviðræður um Evrópskt efnahagssvæði á sínum tíma var það gert til að fá tollfrjálsan aðgang með sjávarafurðir að mörkuðum Evrópu á móti tollfrjálsum aðgangi iðnaðarvara frá EB. Bandalagið hefur fengið sínu framgengt, en við verðum að láta fiskveiðiheimildir í staðinn fyrir tollalækkanir. Ekki einu sinni niðurfellingu allra tolla. Og það er nokkuð ljóst að sá hagnaður sem þessar tollalækkanir eiga að skila okkur vega ekki upp á móti þeim kostnaði sem við höfum af þessum EES-samningi.
    Í þessum samningaviðræðum hefur EB alltaf haft sitt fram. Þeir fá aðgang að auðlindum okkar, bæði til lands og sjávar. Þeir fá hindrunarlausan aðgang hjá okkur fyrir iðnaðarvörur sínar.
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Ég tel svo stóra og mikla galla á þessu lagafrv. og þeim sjávarútvegssamningi sem því tengist að það komi ekki til greina að samþykkja það. --- Ég þakka áheyrnina.