Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 22:25:15 (4449)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Þegar hæstv. utanrrh. flutti mál sitt áðan fékk ég að reyna að það er ekki alltaf tekið út með sældinni að eiga tilfallandi málefnalega samstöðu með pólitískum villimönnum. Svo smekklaus er málflutningurinn stundum, ekki síst í garð kvenna. Ef það þjónar ekki bara stundarhagsmunum hæstv. utanrrh. að ljá mér rödd skynseminnar ætti hann að hlusta grannt eftir þegar ég frábið mér það, og ég veit að það sama gera aðrar konur hér á þingi, að þurfa að sitja undir því að alið sé á þeim fordómum í garð kvenna að þær séu taglhnýtingar karla en ekki fullmyndugir talsmenn eigin skoðana.
    En ég hlýt að velta upp fleiri spurningum sem varða konur og ég hlýt að beina máli mínu til hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og spyrja hann: Hvar voru mæður okkar og ömmur þegar karlarnir frelsuðu þessa þjóð? Hvar er rúm fyrir konur í söguskoðun hv. þm.? Og ég hlýt að spyrja þessa þingmenn tvo, ráðherrann og þingmanninn, og aðra hér sem eru kannski svipaðrar skoðunar sumir hverjir: Á hvaða tímum lifið þið, ágætu samþingmenn? Hvert er mat ykkar á konum og hver er virðing ykkar fyrir konum? Svarið ykkar eigin flokkssystrum. En ekki meira um þetta.
    Það hefur verið sagt hér að fáar þjóðir eigi jafnmikið undir milliríkjaviðskiptum og góðum alþjóðatengslum og Íslendingar. Því veldur lega landsins, smæð samfélagsins og einhæfni atvinnulífsins. Menntun okkar og menning byggir á öflugum samskiptum við aðrar þjóðir og við erum háðari inn- og útflutningi en flestar aðrar þjóðir. Það þarf því varla að fjölyrða um að góð tengsl og mikill samgangur við önnur ríki hefur ævinlega verið íslensku samfélagi mikil lyftistöng og uppspretta nýsköpunar, ögrunar og framsýni.
    Á þessari öld hafa orðið miklar breytingar á framleiðsluháttum og viðskiptum í heiminum, svo miklar að nær væri að tala um byltingu. Smáir markaðir hafa runnið saman í stærri heildir, aukin viðskipti eiga sér stað þvert á landamæri og fyrirtæki og fjármagn verður sífellt fjölþjóðlegra. Viðbrögð einstakra ríkja hafa verið þau að gera fjöldann allan af milliríkjasamningum, m.a. til að koma í veg fyrir að einstök ríki eða fjölþjóðafyrirtæki deili og drottni í krafti yfirburðastöðu sinnar. Í slíkum samningum felast gjarnan ný tækifæri, en þeir setja líka fullveldi þjóða æ meiri skorður. Án efa á enn eftir að herða á þessari þróun, enda verða fjölmörg vandamál samtímans ekki að fullu leyst innan vébanda þjóðríkisins. Ber þar auðvitað hæst mál eins og afvopnun, umhverfi, mengun og mannréttindi.
    Samningarnir um Evrópubandalagið, EFTA og nú síðast um Evrópska efnahagssvæðið eru dæmi um samninga sem fela í sér yfirþjóðlegt vald sem snýr öðru fremur að viðskiptum og efnahagsmálum.
    Þó að breytingar í atvinnuháttum og viðskiptum hafi verið hraðstígar er eins og pólitískar hugmyndir hafi haltrað á eftir. Ástæðan er ekki síst sú að nær alla þessa öld hefur heiminum verið skipt upp í áhrifasvæði tveggja hugmyndakerfa sem hvort um sig þóttist bjóða upp á lausn á hvers manns vanda. Hugmyndaleg nýsköpun átti ekki auðvelt uppdráttar í þessum pólitísku frosthörkum og heimsmynd Vesturlandabúa stóð í stað.
    En nú sjást loksins merki um leysingar. Fall Berlínarmúrsins, hrun sovétkerfisins og endalok kalda stríðsins mörkuðu tímamót, bundu enda á þann stöðugleika sem ríkti í Evrópu þó að vondur væri. Þetta skapar ótal möguleika en um leið miklar hættur og erfiðleika sem blasa þegar við okkur.
    Þessar breytingar munu án efa setja svip sinn á þá samrunaþróun sem nú á sér stað í Evrópu og sem birtist okkur í dag í Evrópubandalaginu og myndun hins Evrópska efnahagssvæðis. Sú þróun verður auðvitað með eða án okkar, en við stöndum engu að síður andspænis þeirri spurningu hvort við viljum og treystum okkur til að standa algjörlega utan við hana.
    Á næstu árum ræðst hvernig innbyrðis tengslum Evrópuríkja verður háttað og hvert verður innihaldið í samstarfi þeirra. Þegar um þau mál verður samið verður samningaborðið EB og EES. Að mínu mati skiptir það verulegu máli að við Íslendingar sitjum við það borð ef við viljum tryggja stöðu okkar í Evrópu í framtíðinni. Að því leytinu til snýst EES ekki aðeins um viðskipti heldur líka um pólitík, enda verður þetta tvennt aldrei alveg aðskilið.
    Ýmsir hafa haldið því fram að óvissan sem fylgir EES sé svo mikil að það sé ekki hægt að verja stuðning við samninginn. En hvaða vissa fylgir því að taka ekki þátt í EES? Við lifum einfaldlega á tímum mikilla breytinga og staðan í heiminum er þannig að það gefst engin vissa fyrir neinu. Þó við svo gjarnan vildum getur þjóð eins og Íslendingar ekki hlaupið í neitt skjól undan þeim vindum sem blása í alþjóðaviðskiptum né heldur viðhaft aðrar leikreglur en þar gilda.
    En meðal hverrar þjóðar búa margar þjóðir við mismunandi kjör og það sem er gott fyrir heildina þarf ekki endilega að vera gott fyrir einstaka hópa hennar og öfugt. Það er eðlilegt að fólk sem hefur lítil völd í samfélaginu, svo sem konur og láglaunafólk, óttist að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu nýtist öðru fremur þeim sem völdin hafa, að völd og auður safnist þangað sem hann er fyrir. Þessi hætta er vissulega fyrir hendi, en hún er sígild og stöðvast ekki við landamæri þjóðríkjanna fremur en margt annað.
    Góðir áheyrendur. Það er sannfæring mín að ef við Íslendingar gerumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði, þá muni hvorki ,,fljúga okkur steiktar krásir í munn sofandi`` né heldur muni þjóðin missa fótanna, áttanna og fullveldisins. Miklu lengra nær sannfæring mín ekki og það verður að vera mitt hlutskipti í þessu máli. Við erum að feta okkur inn á braut sem helstu viðskiptavinir okkar hafa ákveðið að fara. Það er auðvitað full ástæða til að gera það með gát því að enginn getur vitað hvar brautin endar. Það eina sem við vitum er að þarna munu þeir hlutir gerast sem koma til með að hafa áhrif á flest svið íslensks samfélags á komandi árum.
    Tímans þungi niður verður ekki stöðvaður. Þróuninni verður ekki snúið við. En það er á valdi okkar að hafa áhrif á hvort tveggja.