Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 22:54:25 (4453)


     Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Ég sagði í lok minnar ræðu áðan að ég ætlaði að nota þennan tíma til að fjalla um samþykktir Framsfl. í þessu máli, afstöðu einstakra þingmanna, og um þann tvíhliða samning sem við viljum að lögð verði áhersla á að ná. Ég kemst þó ekki hjá því að fara örfáum orðum um það sem kom fram hjá hæstv. ráðherrum. Ég get ómögulega gefið hæstv. utanrrh. 9,6 í einkunn. Er nokkur hér inni eða nokkur sem hefur á þetta horft sem gæti gert það?
    Ég held hins vegar að það sé til lítils að vera að þrátta við hæstv. ráðherra um það hvort fyrirvörunum hafi verið náð. Ég mótmæli því sem hann sagði áðan og ég tók eftir því að hann nefndi t.d. ekki einu orði að nú á að leyfa erlendum fyrirtækjum að eiga hlut í íslenskum fyrirtækjum sem aftur mega eiga hlut í íslenskri útgerð, en við vorum sammála um það, hæstv. utanrrh., að það kæmi ekki til greina á sinni tíð. Og hæstv. ráðherra minntist ekkert á það, sem ég hef þó hvað eftir annað spurt um, hvort ríkisstjórnin væri tilbúin að draga til baka yfirlýsinguna í hvítu bókinni þar sem segir að það eigi að einkavæða orkufyrirtækin. Það var rétt hjá hæstv. ráðherra, við komumst að þeirri niðurstöðu að með því að halda einkarétti ríkisins til virkjana mætti halda yfirráðum yfir orkulindum þjóðarinnar, en nú á að einkavæða þau og ég rakti það líka áðan. Þetta var ekkert nefnt og svona gæti ég fleira rakið og kem kannski að því eitthvað í minni ræðu.
    Ég verð einnig aðeins að koma inn á það sem hæstv. sjútvrh., Þorsteinn Pálsson, sagði áðan um fund þann sem ég og utanrrh. áttum í Brussel 18. apríl 1990. Við fórum þangað til að kynna sérstöðu okkar Íslendinga, gera framkvæmdastjórinni, og þá alveg sérstaklega Delors, grein fyrir því að þessi smáþjóð yrði að njóta vissra réttinda, e.t.v. umfram aðrar, eða hafa vissa fyrirvara. Þar var lögð áhersla á það að tekinn yrði upp þráðurinn við þennan tvíhliða samning og það er rétt að ég sagði: Þið eruð velkomnir til Íslands til að ræða samninginn.
    En veit hæstv. ráðherra hvers vegna þeir komu aldrei til Íslands? Nei, hann veit það kannski ekki, en ég skal þá upplýsa það. Það er vegna þess að við tókum skýrt fram að í gagnkvæmum veiðiheimildum gætum við eingöngu samið um vannýtta fiskstofna og það vildu þeir ekki ræða við okkur því eini vannýtti fiskstofninn sem þá var þekktur var kolmunninn.
    Ég ætla alls ekki að fara að ræða fiskveiðisamninginn hér því ég tel að það eigi ekki að blanda þessum tveimur samningum saman og mér þykir leitt að það skuli gert svo ítarlega af hæstv. ráðherrum. Hann hefur verið mjög ítarlega ræddur, alveg sérstaklega af hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, og m.a. hefur mat það sem hann hefur látið koma fram á jafngildi þessara veiðiheimilda verið svo ítarlega stutt af talsmanni LÍÚ, þeim sem fer með þessi mál, að það verður varla hrakið.
    Ég sé ekki ástæðu til að svara miklu af því sem hæstv. forsrh. sagði, en hann spurði að vísu hvers vegna við hefðum stutt þátttöku í EES. Ég hélt ég hefði skýrt það. Ég get ekki endurtekið það, en ég skal þó segja það, sem ég sagði áðan líka að vísu, að við framsóknarmenn teljum alveg nauðsynlegt fyrir þessa þjóð að einangrast ekki og taka þátt í viðskiptasamningum, ekki reyndar bara í Evrópu þó þeir séu hvað mikilvægastir á þessari stundu heldur um allan heim. Við viljum jafnframt taka þátt í víðtækara samstarfi þjóðanna og þess vegna gengum við til þessa samstarfs með þeim miklu fyrirvörum sem áttu að tryggja það að smáþjóð væri fært að taka þátt í svona samstarfi.
    Ég sagði áðan að við höfum með okkar miðstjórnarfundum og flokksþingi rætt mjög ítarlega þennan samning að sjálfsögðu og gert um hann ítarlegar samþykktir. Á miðstjórnarfundi sem haldinn var 2. maí samþykkti miðstjórn Framsfl. að flokkurinn gæti ekki stutt --- ég legg áherslu á stutt --- þennan samning, nema ákveðnum skilyrðum væri uppfyllt, öllum þeim sem sett voru fram í Ósló og jafnframt því að hann bryti ekki stjórnarskrána. Sömuleiðis lagði miðstjórnin áherslu á að þegar yrði mörkuð sú stefna að ganga til tvíhliða samninga eða breyta þessum samningi í tvíhliða samning strax og fært væri.
    Á flokksþingi framsóknarmanna sem haldið var í lok nóvember var þetta ítrekað og aftur sagt svo ekki varð um villst að flokksþingið gæti ekki stutt þennan samning nema tryggt væri að hann bryti ekki í bága við stjórnarskrána og þar ætti stjórnarskráin að njóta vafans og jafnframt fullnægt þeim skilyrðum sem ég hef áður nefnt og m.a. að gengið yrði til tvíhliða samninga. Ég legg áherslu á þetta og mótmæli því að þó að sumir þingmenn flokksins hafi ákveðið að sitja hjá við afgreiðsluna er það ekki stuðningur við þennan samning, að sjálfsögðu ekki. Það eru ýmis atriði í þessum samningi vitanlega sem við framsóknarmenn teljum allgóð og gætum stutt ef annað gengi upp og alveg sérstaklega, eins og ég mun rekja hér á eftir, þá höfum við rætt mjög ítarlega um það hvert framhaldið geti orðið ef þessi samningur, sem allt virðist benda til, verði samþykktur og þetta Evrópska efnahagssvæði verður myndað og veltur síðan eða dettur um sjálft sig innan tveggja eða þriggja ára. Og það kemur fram í þeirri tillögu sem við þingmenn, Halldór Ásgrímsson og ég, flytjum á þinginu um að móta þá stefnu hér á Alþingi að þegar verði undirbúið að ganga til viðræðna við Evrópubandalagið um að breyta viðskiptaþætti þessa samnings í tvíhliða samning.
    Það er dálítið undarlegt að heyra það hjá hæstv. forsrh. að ég hefði ekki hlustað á ræður þingmanna Framsfl., ég hef varla séð hann hér í salnum, en ég þekki þær allar mjög vel og mér er vel kunnugt um það og það kom mjög vel fram í skýringum sem þingmenn gáfu við sína afstöðu að þeir telja ýmsir að það kunni að vera erfitt að ná tvíhliða samningi ef þessi samningur er felldur. Ég skal fúslega viðurkenna að ég hef líka áhyggjur af því. Þess vegna hefði ég talið vera afar mikilvægt að þegar yrði samþykkt hér að breyta þessum samningi í tvíhliða samning.
    Ég vil hins vegar segja að ég tel ekki þann mikla ávinning sem hér hefur verið rakinn eins mikinn og menn hafa sagt. Ég hef aldrei heyrt þessa tölu, 7 milljarða, fyrr en núna hjá hæstv. utanrrh. Ég hef miklu frekar heyrt eitthvað á bilinu 1,5--2 milljarðar, og reyndar er athyglisvert sem segir í fréttabréfi frá SÍF, sem sú stofnun sendi sínum meðlimum sl. haust, að menn skuli varast að telja tollalækkunina til tekna því reynslan sé sú að tollalækkun komi oftar í hlut neytandans.
    En eins og ég sagði áðan hafa stofnanir flokksins lagt mikla áherslu á það að samningurinn yrði að standast stjórnarskrána og ég hef talið mér skylt og við sem höfum setið í utanrmn., við hv. þm. Páll Pétursson, að leggja mikla áherslu á að skoða þessi mál. Ég vil fagna því líka hvernig það mál hefur verið tekið í nefndinni. Það hefur verið tekið mjög skipulega fyrir, bæði af fyrrv. formanni nefndarinnar, Eyjólfi Konráð, og líka núv. formanni nefndarinnar.
    Hér hefur verið nefnt að álit lögfræðinga liggja fyrir. Álit fjórmenninga sem hæstv. utanrrh. skipaði liggur fyrir og sömuleiðis álit prófessors Björns Þ. Guðmundssonar og dr. Guðmundar Alfreðssonar. Mér þykir það leitt að hlusta á hæstv. utanrrh. falla í þann forarpytt sem hann gerði áðan þegar hann lýsti þeim ágæta manni. Ég vil vekja athygli á því að Lögmannafélag Íslands fékk dr. Guðmund Alfreðsson sérstaklega hingað til lands til að ræða á opnum fundi sínum um nákvæmlega þetta mál. Það er alrangt sem hér hefur verið fullyrt af hæstv. ráðherra að það sé ekki um neitt framsal á valdi að ræða. Meira að segja fjórmenningarnir sem hæstv. utanrrh. skipaði segja: Það er um að ræða framsal á valdi en það er svo takmarkað að það brýtur ekki í bága við stjórnarskrána. Þeir segja með öðrum orðum að 2. gr. stjórnarskrárinnar, sem skiptir valdinu á milli löggjafarvaldsins, dómsvaldsins og framkvæmdarvaldsins, banni ekki að framselja eitthvað takmarkað vald úr landi. Í örfáum orðum, af því ég hef ekki tíma til að fara ítarlega út í þetta mál, það hef ég gert áður í framsögu, segja hins vegar dr. Guðmundur Alfreðsson og prófessor Björn Þ. Guðmundsson: Stjórnarskráin heimilar hvergi framsal á valdi og því er það ekki leyfilegt.
    Þeir rekja þetta mjög nákvæmlega og það er enginn vafi á því, hvað sem hæstv. utanrrh. segir, að það er framsal á valdi til eftirlitsstofnunarinnar og dómstólsins, það er ekki hægt að áfrýja þeim úrskurðum til íslenskra dómstóla. Dómstóll EFTA verður hæstiréttur í þessum málum. Á því er ekki nokkur minnsti vafi.
    Ég vek athygli á því, af því að menn eru að tala um Mannréttindadómstólinn, að Mannréttindadómstóllinn bindur ekki Íslendinga af því að Mannréttindasáttmálinn hefur ekki verið gerður að landslögum. Það er hægt fyrir einstaklinga hér í landi að hafna því að fara eftir honum. Menn gera það að sjálfsögðu ekki sóma síns vegna, vona ég.
    En þarna er á reginmunur og ég hef ekki tíma til að nefna fjölmörg önnur atriði sem dr. Guðmundur Alfreðsson rekur. Ég vil þó aðeins geta þess að hann færir að mínu mati mjög gild rök fyrir því að löggjafarvaldið sé einnig fært úr landi. Þau frv. sem við yfirleitt fjöllum um hér eru undirbúin af ríkisstjórninni eða einhverjum þingmönnum. Þau frv. sem hingað koma síðar frá EES eru ekki undirbúin af neinum þeim aðilum sem eiga sæti á löggjafarþinginu eða sem við eða meiri hluti þingsins hefur treyst til þess að fara með framkvæmdarvaldið. Þau koma frá stofnun úti í Brussel sem við höfum engan aðgang að í raun þó að sagt sé að við getum verið þar sem einhvers konar áheyrnarfulltrúar. Okkur er eingöngu heimilað að segja annaðhvort já eða nei, við getum engu breytt, og ef við segjum nei eigum við á hættu að fá eins konar --- hvað eigum við að segja --- mót- eða hegningaraðgerðir. Eftir að hafa skoðað þau mál mjög ítarlega held ég að í mjög mörgum tilfellum sé afar erfitt að segja nei.
    Ég vil lýsa því hér yfir að það er ekki nokkur minnsti vafi á því, það hefur komið greinilega fram hjá öllum þingmönnum Framsfl., að þingmenn telja að þessi samningur standist ekki stjórnarskrána. Þingmenn Framsfl. stóðu allir að baki því frv. sem við tveir þingmenn fluttum ásamt þingmönnum annarra stjórnarandstöðuflokka um að breyta stjórnarskránni. Og af því að stundum hefur verið sagt, sem er rétt, að kannski væri einna skást að hafa einhvern dómstól fyrir lítil ríki, og ég get tekið undir að það getur verið betra, þá kom slíkt aldrei til greina nema að breyta stjórnarskránni. Það varð að breyta stjórnarskránni til að heimila jafnvel takmarkaðan flutning á valdi til erlendra stofnana.
    Það er einhver allra besta sönnunin í þessu tilfelli að t.d. Norðmenn fjalla ítarlega um þetta í greinargerð með sínu frv. og komast að þeirri skýlausu niðurstöðu að þetta framsal á valdi verði að heimila með

auknum meiri hluta á norska þinginu. Það gerðu líka Finnar, það gerðu líka Austurríkismenn.
    Mér finnst afar einkennilegt þegar íslenskir ráðamenn berja höfðinu við steininn og segja: Þetta er ekkert framsal á valdi. Og ég verð að viðurkenna að hjá mér er þetta svo afgerandi atriði í þessu máli að ég treysti mér jafnvel ekki til að sitja hjá við samninginn. Ég treysti mér ekki til annars en að greiða atkvæði á móti honum.
    Ég vil líka láta það koma fram að þegar þetta var rætt í þingflokki framsóknarmanna og menn skiptust þar á skoðunum um þessa hluti eins og ég hef gert hér mjög opinskátt var það að minni tillögu að það væri afskiptalaust af þingflokknum hvort menn sætu hjá eða greiddu atkvæði á móti því að að sitja hjá er alls ekki stuðningur við samninginn, að sitja hjá undirstrikar að vissir þættir þessa samnings geta, ef rétt er á málum haldið, verið gagnlegir fyrir okkur Íslendinga í framtíðinni.
    Ég hygg að tíma mínum sé að verða lokið og ég hef ekki getað komið inn á efnishliðar þessa samnings, aðeins getað sagt að það eru vissir hlutir sem eru gagnlegir, en það fer allt eftir því hvernig á málunum er haldið og þess vegna höfum við framsóknarmenn, tveir, lagt fram tillögu um að hefja þegar viðræður um að breyta viðskiptahlið þessa samnings í tvíhliða samning. Það er mjög nauðsynlegt að Alþingi taki þetta fyrir strax og það kemur saman á ný. Það er ekki nóg að segja að þessi samningur breytist ,,átómatískt`` í tvíhliða samning, hann gerir það ekki. Þegar við erum orðin ein smáþjóð eftir í þessu bandalagi verðum við vitanlega að fá breytt líka ýmsum þeim atriðum sem núna eru í viðskiptahlið samningsins sem henta stórþjóðunum en ekki okkur.
    Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt um framtíð íslensku þjóðarinnar og mikilvægi þessa samnings. Ég get tekið undir það, sem hæstv. utanrrh. hefur sagt, að þetta er eflaust mikilvægasti samningur sem við höfum gert. Þess vegna á mjög til hans að vanda og þess vegna þarf mjög til framkvæmdarinnar að vanda ef hann á ekki að verða að stórslysi.