Evrópskt efnahagssvæði

96. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 23:09:08 (4454)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Frú forseti. Góðir áheyrendur. Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu er eðlilegt framhald þátttökunnar í fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, árið 1970 og fríverslunarsamningsins við Evrópubandalagið frá 1972. Fjórir af fimm stjórnmálaflokkunum, eða allir flokkar sem átt hafa sæti í ríkisstjórn frá því að samningagerðin um EES hófst árið 1989, hafa lagt sinn skerf af mörkum til þess árangurs sem náðist fyrir Íslands hönd. Atkvæðagreiðslan um samninginn hér á Alþingi í gær sýndi einnig að í öllum flokkum, nema Alþb. sem stjórnast enn af gamla ráðherrasósíalismanum, eru þingmenn sem vilja veita aðildinni að EES brautargengi.
    Sú staðreynd að Steingrímur Hermannsson, formaður Framsfl., flytur tvær ræður í kvöld segir meira um ágreininginn innan flokks hans en báðar ræðurnar og ég vek athygli á því að þá greinir á, formanninn og varaformanninn, t.d. um það núna hvort kolmunni sé skiptimynt í samningum við Evrópubandalagið þegar rætt er um gagnkvæmar veiðiheimildir eða ekki. Varaformaðurinn telur að kolmunninn sé sameiginlegur stofn sem við þurfum að semja um við Evrópubandalagið til skiptingar, en formaðurinn virðist telja kolmunnann stofn sem unnt sé að semja við Evrópubandalagið um þegar rætt er um gagnkvæmar veiðiheimildir. Þannig greinir þá ekki aðeins á varðandi aðildina að EES heldur einnig um það hvað felst í samningum við Evrópubandalagið um gagnkvæmar veiðiheimildir.
    Hvarvetna í þjóðfélaginu hafa einstaklingar og fyrirtæki verið að búa sig með eftirvæntingu undir þátttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu. Einmitt þess vegna hefur Alþingi legið undir ámæli fyrir að geta ekki fyrr tekið af skarið. Á Alþingi hefur málið verið grandskoðað, í utanrmn. á tæplega 90 fundum, frá 1989. Og eftir ítarlega skoðun á stjórnarskrárþætti málsins varð það eindregin niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu bryti ekki í bága við stjórnarskrána.
    Frá 17. ágúst sl. hafa umræður um það frv. sem hér er komið á lokastig staðið í um 80 klukkustundir og sérstaklega hefur verið rætt um tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu og henni hafnað og tveimur tillögum um breytingu á stjórnarskránni var vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Mér segir svo hugur að þegar fram líða stundir verði ekki litið til hinna miklu umræðna á Alþingi um þetta mál í leit að ávirðingum vegna brota gegn hagsmunum þjóðarinnar eða gegn íslensku stjórnarskránni. Menn munu lesa þingtíðindin til að reyna að átta sig á því hvers vegna í ósköpunum einstakir þingmenn lögðu jafnmikið á sig og raun ber vitni um til að hindra framgang málsins. Athyglin mun ekki síst beinast að þeim sem höfðu forustu í ríkisstjórn 1988--1991 og sömdu um meginefni samningsins en snerust síðan gegn aðildinni að EES eftir að kjósendur höfðu ýtt þeim úr ráðherraembættum. Þar verður hlutur formanna Framsfl. og Alþb. talinn furðulegastur.
    Á það skal minnt að andstæðingar Evrópska efnahagssvæðisins hér á Alþingi og annars staðar hafa ekki boðið neinn annan kost. Þeir hafa ekki bent á neina aðra trúverðuga leið til að tryggja framhald á sem bestum aðgangi að helsta markaðssvæði okkar án þess að útiloka okkur frá öðrum. Allir þingmenn ættu þó að vera sammála um nauðsyn þess að þessi aðgangur sé greiður. Enginn efast um hve mikið við Íslendingar eigum undir frjálsum alþjóðaviðskiptum. Um þau viðskipti snýst aðildin að EES en hvorki gjörbyltingu á íslensku þjóðfélagi, stjórnarskrárbrot, fullveldisafsal né takmarkalausan aðgang útlendinga að landinu. Að bera þátttökuna í Evrópska efnahagssvæðinu saman við stöðu Íslands samkvæmt sambandslögunum við Dani frá 1918, eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson gerði í fyrri ræðu sinni, er út í hött.

    Eftir að Svisslendingar sögðu nei í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. des. vöknuðu þeir í tómarúmi. Talsmenn hinna neikvæðu viðhorfa höfðu ekki neitt annað að bjóða en hina neikvæðu afstöðu. Ekkert þjóðfélag þroskast á slíkum forsendum, enda er líklegt að Svisslendingar taki fljótlega ákvörðun um að tengjast Evrópska efnahagssvæðinu.
    Fráleitustu rökin gegn aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu eða gegn því að Alþingi taki tafarlaust ákvörðun í málinu finnast mér þau að nei-sigurinn í Sviss eigi að fipa okkur eða tefja. Þá fyrst værum við að afsala valdi til annarra.
    Aðildin að EES nýtist okkur ekki að fullu nema við færum okkur allt það í nyt sem hún býður. Athygli vekur hve víðtæk samstaða hefur skapast hér á Alþingi um ýmsar lagabætur er fylgja EES-aðildinni. Samstaðan er víðtækari en stuðningur þingmanna við aðildina sjálfa. Hvers vegna? Svarið er einfalt: Vegna þess að þátttakan í Evrópska efnahagssvæðinu kallar á ný vinnubrögð, meiri aga og virðingu fyrir almennum reglum. Geðþóttaákvarðanir stjórnvalda verða að víkja fyrir almennum skilyrðum sem öllum eru sett. Á svæðinu eiga stórir og smáir að sitja við sama borð. Komið er á fót sameiginlegum stofnunum til að tryggja það. Það hljómar því eins og argasta öfugmæli að heyra íslenska þingmenn hallmæla þessum stofnunum eða telja þátttöku í þeim brjóta í bága við íslenska stjórnskipun.
    Frú forseti. Aðild Íslands að Evrópska efnhagssvæðinu hefur svo yfirgnæfandi kosti í för með sér að það er fráleitt að hafna henni, ekki síst þegar andstæðingarnir hafa ekki neinn annan kost að bjóða. Í upphafi árs ganga menn sókndjarfari á vit nýrra tækifæra en ella. Þess vegna fer vel á því að Alþingi Íslendinga samþykki í upphafi ársins 1993 að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið skuli lögfestur og íslenska þjóðin hefji þannig bjartsýn og full eftirvæntingar nýjan áfanga á vegferð sinni með nágrönnum og vinum í Evrópu. --- Ég þakka áheyrnina.